Mæðgurnar sem eiga hug minn allan.
Mæðgurnar sem eiga hug minn allan. — AFP/Alberto E. Rodriguez
Það er óhætt að segja að mæðgurnar í Stars Hallow hafi átt hug minn allan undanfarna daga og vikur. Það er raunar orðið svo að þær eru farnar að halda fyrir mér vöku þar sem ég get ekki með nokkru móti hugsað mér að sofna án þess að vita hvað gerist næst í lífi þeirra

Klara Ósk Kristinsdóttir

Það er óhætt að segja að mæðgurnar í Stars Hallow hafi átt hug minn allan undanfarna daga og vikur. Það er raunar orðið svo að þær eru farnar að halda fyrir mér vöku þar sem ég get ekki með nokkru móti hugsað mér að sofna án þess að vita hvað gerist næst í lífi þeirra.

Á leið minni heim úr vinnu á dögunum velti ég því fyrir mér hvernig gæti staðið á þessu, en um er að ræða sjónvarpsþættina Gilmore Girls sem fjalla um daglegt líf Gilmore-mæðgnanna. Þær mæðgur búa í litlum smábæ, þangað sem þær fluttust til að flýja foreldra Lorelai og skapa sér þannig líf á eigin forsendum.

Það er þó ekki eins og líf þeirra sé margbreytilegt því í grunninn eru allir dagar eins. Þær forðast eldhúsið á heimilinu eins og heitan eldinn og byrja því alla daga á matsölustað bæjarins áður en þær halda út í daginn, sem ávallt tekur á móti þeim með nýrri dramatík.

Niðurstaða mín í þessum vangaveltum var því að ástæðan væri fallegt samband þeirra mæðgna sem standa saman í gegnum súrt og sætt, en leiðbeina jafnframt hvor annarri í gegnum mjög svo margvísleg dramatísk vandamál. Í því samhengi skiptir engu hvort um er að ræða ástarmálin, flókin fjölskyldusambönd, smábæjardrama eða annað sem á daga þeirra drífur.

Höf.: Klara Ósk Kristinsdóttir