„Sagan er óður til bókaheimsins sem ég elska, og ég held að það mætti kalla þessa bók ráðgátu fremur en spennusögu,“ segir Ragnar um nýjustu bók sína Hvítalogn.
„Sagan er óður til bókaheimsins sem ég elska, og ég held að það mætti kalla þessa bók ráðgátu fremur en spennusögu,“ segir Ragnar um nýjustu bók sína Hvítalogn. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það var hrikalega erfitt að missa hana og horfa upp á hana hverfa inn í þennan skelfilega sjúkdóm. Eitt af því sem ég lærði var að njóta alltaf hvers augnabliks.

Efst uppi á lofti í fallegu húsi í Þingholtunum situr glæpasagnahöfundurinn Ragnar Jónasson við skriftir. Hann vinnur nú að sinni fyrstu draugasögu sem gerist í svipuðu húsi og því tilvalinn staður til að fá andann yfir sig. Blaðamaður sest á móti Ragnari og skyndilega heyrist undarlegur dynkur. „Sennilega draugur,“ segir Ragnar og brosir á sinn hægláta hátt.

Ragnar er með mörg handrit í vinnslu en eitt er þó klárt og innbundið og á leiðinni í hillur bókabúða í næstu viku. Það er fimmtánda glæpasaga hans, Hvítalogn, sem er önnur í röð þríleiksins um afbrotafræðinginn Helga. En fleira er á döfinni hjá Ragnari. Leikrit og ljóð; kvikmyndir og sjónvarpsseríur; ferðalög og glæpasagnahátíðir. Það er ekki dauð stund hjá manninum sem upphugsar nýtt morð á hverju ári.

Með endalausar hugmyndir

Við byrjum á nýjustu bókinni, Hvítalogni, en fyrsta bókin í þríleiknum er Hvítidauði.

„Hvítalogn er um glæpasagnahöfund sem hverfur, en ég er búinn að vera með þessa bók í vinnslu í mörg ár. Ég er að skrifa um þennan heim sem ég þekki; bókaheiminn og hvernig er að vera rithöfundur. Þessi ímyndaði rithöfundur er frægasti glæpasagnahöfundur þjóðarinnar; kona um sjötugt. Hún hverfur svo af yfirborði jarðar og það er ungur bókaormur sem fer að leita að henni,“ segir hann og viðurkennir að hann noti eitthvað úr eigin lífi í báðar þessar persónur.

„Sagan er óður til bókaheimsins sem ég elska, og ég held að það mætti kalla þessa bók ráðgátu fremur en spennusögu,“ segir Ragnar og segist aðeins flakka fram og til baka í tíma. Eins tengist þessi heimur Huldu, persónu úr öðrum bókum Ragnars. Von er á þriðju bókinni á næsta ári en Ragnar segist vera kominn langt með hana nú þegar.

„Það er ágætt, með svona þríleik, að hafa fengið tækifæri til að skrifa aðra og þriðju bókina nokkurn veginn samtímis, til þess að ná fram þeirri heildarmynd sem mig langaði til að hafa á syrpunni.“

Þú hugsar eins og skákmaður, marga leiki fram í tímann?

„Já, að einhverju leyti, en að öðru leyti leyfi ég sögunum svolítið að koma til mín, og finn það á mér hvaða verkefni mig langar að klára næst, en það eru yfirleitt mörg skjöl opin í tölvunni á sama tíma. Í Hvítalogni er ég dálítið að fjalla um ritstörf og bækur, af hverju maður er að skrifa.“

Af hverju ertu að skrifa?

„Af því ég get bara ekki annað. Mér líður best þegar ég næ að skapa eitthvað á hverjum degi, og það skiptir ekki öllu máli hvað, það sem kallar á mig hverju sinni. Þegar ég fæ nýjar hugmyndir skrifa ég þær hjá mér og reyni svo að vinna úr þeim smátt og smátt. Núna sit ég hér og skrifa draugasögu, af því að ég hafði í raun aldrei gert það áður og mig langaði til að prófa það. Ég er líka að skrifa sakamálasögu sem gerist í Bretlandi árið 1935 og er býsna ólík þessum hefðbundnu norrænu glæpasögum. Svo er ég sem sagt að reyna að klára þriðju bókina um Helga.“

Þú ert aldrei uppiskroppa með hugmyndir?

„Nei, síður en svo. Allt of mikið af hugmyndum og mér finnst fátt skemmtilegra en að reyna að láta þær verða að veruleika.“

Mamma skrifaði endurminningar

Hvítalogn er tileinkuð móður Ragnars, Katrínu Guðjónsdóttur, sem lést í sumar. Katrín fékk alzheimer aðeins 64 ára gömul og lést níu árum síðar, 73 ára.

„Mamma var yndisleg og það er mjög leitt að geta ekki deilt lengur með henni öllu sem er að gerast,“ segir Ragnar og segir þau hafa verið náin.

„Það var hrikalega erfitt að missa hana og horfa upp á hana hverfa inn í þennan skelfilega sjúkdóm. Eitt af því sem ég lærði var að njóta alltaf hvers augnabliks. Jafnvel þótt hún væri verri í dag en í gær, þá var hún allavega með okkur,“ segir Ragnar.

„Áður en við týndum henni alveg skrifaði hún sínar endurminningar. Ekki í samfelldu formi, heldur minningabrot, sem er frábært að eiga núna. Við lesum þetta fyrir dæturnar og rifjum upp sögur frá því að hún var barn, unglingur og ung kona,“ segir Ragnar og segir móður sína hafa haft sagnagáfu. Hann á því ekki langt að sækja hæfileikana, en þeir koma þó úr fleiri áttum.

„Þetta er mikið í fjölskyldunni; báðum megin frá. Fólk er alls staðar að segja sögur. Pabbi hefur skrifað nokkrar bækur, bróðir hans var einn helsti bókaútgefandi landsins og afi minn skrifaði mikið alla ævi en gaf ekkert út fyrr en eftir áttrætt. Ég beið ekki svo lengi,“ segir Ragnar og brosir út í annað.

„Allt sem maður upplifir getur auðvitað endað í bók, með einum eða öðrum hætti,“ segir Ragnar og segir ekkert útilokað að hann skrifi síðar meir bók sem tengist móður hans og hennar sjúkdómi.

„Hver hugmynd þarf að bíða í eitt, tvö ár eða lengur. Og tekur oft breytingum á leiðinni.“

Kemur með æfingunni

Galdurinn á bak við góða glæpasögu er að láta plottið ganga upp þannig að lesandinn sé ekki búinn að leysa gátuna fyrr en allt er upplýst í lokin.

„Þetta er auðvitað áskorun í hvert sinn en ég hef lesið glæpasögur síðan ég var barn og hef gaman af gátunum sjálfum, að leiða lesendur í ferðalag og reyna að villa um fyrir þeim á leiðinni. Það er í raun sú sagnahefð sem reis hæst á millistríðsárunum, í Bretlandi og Bandaríkjunum, á svokallaðri gullöld glæpasagnanna. Þetta lærist og kemur með æfingunni en sagan liggur alltaf fyrir áður en ég byrja að skrifa. Ég veit hvaða sögu mig langar að segja, hvernig hún byrjar og endar, en ég skrifa voða lítið niður nema kannski grunnhugmyndina, svo er þetta bara allt geymt í kollinum á mér. Eina skiptið hin síðari ár sem ég hef skrifað niður einhvern ramma var þegar ég skrifaði Reykjavík með Katrínu Jakobsdóttur, því þegar tveir höfundar vinna saman þá er mikilvægara en ella að hafa beinagrind að sögunni á blaði,“ segir Ragnar.

„Mér finnst mikilvægt að höfundar endurtaki sig ekki, séu alltaf að reyna eitthvað nýtt, koma sjálfum sér kannski á óvart. Þríleikir virka ágætlega, því þar getur maður unnið með sömu söguhetjur í nokkrum verkum, en þó ekki of lengi. Hvítalogn er saga um rithöfund sem hverfur en líka um Helga sem elskar bækur – ekki síst gullaldarglæpasögur – og er að reyna að losna úr viðjum heimilisofbeldis,“ segir Ragnar og segist oft snerta á vandamálum samfélagsins í sögunum, og þar komi inn skandinavíska hefðin í glæpasögum; í þessu tilviki ofbeldi í samböndum.

„Ég er alinn upp við að lesa Agöthu Christie, þar sem gátan skiptir öllu máli og þessi leikur við lesendur, og aðra breska og bandaríska höfunda, svo sem P.D. James og Ellery Queen, en sömuleiðis koma áhrifin frá Norðurlöndunum, höfundum á borð við Jo Nesbø og Stieg Larsson. Mér finnst skemmtilegt að reyna að blanda þessu saman, að skrifa bækur sem mér þætti sjálfum gaman að lesa.“

Auglýsir eftir fyrri parti

Ragnar segist ekki hafa breytt sínum stíl til að þjóna erlendum lesendum.

„Bara alls ekki. Ég er alltaf að skrifa það sem mig langar að skrifa og í raun alltaf fyrir íslenska lesendur. Ef einhverjar sögur passa ekki fyrir erlendan markað þá er það bara allt í lagi. En ég nefndi að ég er að skrifa eina glæpasögu sem gerist í Englandi og hún er dálítið frábrugðin öðru sem ég hef gert, mig langaði að prófa að skrifa beint inn í þessa Agöthu Christie-hefð,“ segir hann.

„Hún gerist á Suður-Englandi og ég hef verið mikið þar. Ég er að skrifa hana af því mér finnst það skemmtilegt; ekki af því að það sé einhver eftirspurn eftir svona bók. Svo sjáum við til hvað gerist,“ segir hann og nefnir að fólk vilji gjarnan lesa glæpasögur sem gerast í mystíkinni á Íslandi og passa inn í Nordic Noir-hefðina.

„En þá er líka gaman að prófa að gera eitthvað allt annað,“ segir hann og segist halda að sú bók yrði þá mögulega sú sautjánda í röðinni, á eftir þeirri sextándu sem mun loka þríleiknum. „Og þó, kannski dettur inn einhver allt önnur hugmynd sem nær mér alveg og ég þarf að skrifa næst,“ segir hann.

„Og svo er ég líka að skrifa bók í samstarfi við vin minn sem er íslenskur rithöfundur. Ég er ekki búinn að spyrja hann hvort ég megi upplýsa nafn hans,“ segir Ragnar kíminn.

„Þetta byrjaði sem hugmynd að hálfgerðu útvarpsleikriti en breyttist í skáldsögu einhvers staðar á leiðinni, saga sem gerist í Reykjavík nútímans og á stríðsárunum á Norðurlöndunum. Þannig að það eru alls konar verkefni í gangi og ég dreg þau upp úr hattinum sitt á hvað,“ segir hann og segist opinn fyrir samstarfi við aðra.

„Já, mér finnst það gaman. Það er svolítið einmanalegt að skrifa. Það er gaman að fá hugmyndir með öðrum og sitja yfir kaffi og ræða þær, eins og við Katrín gerðum. Það samstarf var mjög ljúft en mesta furða að við séum enn vinir eftir að hafa ferðast svona mikið saman að kynna bókina.“

Nú eruð þið Yrsa vinir, farið þið ekki að leiða saman hesta ykkar?

„Heyrðu, það hefur bara aldrei verið rætt að skrifa skáldsögu saman, en við vorum búin að ákveða að skrifa saman smásögu. Ég er að bíða eftir að hún komi með fyrripartinn af henni og auglýsi hér með eftir því! Hún skuldar mér fyrripartinn og svo ætlaði ég að skrifa seinnihlutann.“

Allt einhver sköpun

Talandi um smásögur, þá skrifaði Ragnar smásögu með vini sínum píanóleikaranum Víkingi Heiðari Ólafssyni. Sagan birtist í bandarísku tímariti árið 2020 og í Morgunblaðinu.

„Við erum gamlir vinir og höfum gaman af því að spjalla um listir og menningu,“ segir Ragnar en hann var einmitt nýlega í sjónvarpsviðtali í Frakklandi og notaði tækifærið til að kynna Víking vin sinn.

Ragnar er með ljóðabók í skúffunni og svo eru leikritaskrif nokkuð sem Ragnar er aðeins farinn að prófa, en þessa dagana er hann að vinna í sakamálaleikriti með breskum vini, rithöfundinum Anthony Horowitz.

„Við höfum hist reglulega í London á þessu ári til að vinna að þessu. Ég er að prófa þetta form því við höfum báðir gaman af leikritum og það hefur tekið hálft ár að þróa hugmyndina. Við vildum hafa skothelda hugmynd áður en við byrjuðum að skrifa. Mér finnst leikhúsið svo töfrandi heimur og er aðeins farinn að dýfa tánum í leikhús hér heima því ég var að þýða leikrit fyrir Þjóðleikhúsið sem verður frumsýnt núna í nóvember. Það heitir Orð gegn orði – Prima Facie – og er einleikur. Algjörlega frábært ástralskt verk; lögfræðidrama en jafnframt leikrit um kynferðisofbeldi,“ segir Ragnar.

„Það er frábært að fá að fylgjast með þessum heimi og sjá leikrit verða til á sviðinu. Það hjálpar mér við að búa til mitt eigið verk. Ég hef sömuleiðis verið beðinn um að skrifa kvikmyndahandrit, svo það gæti verið næst á dagskrá. Þetta er allt einhver sköpun, einhver frásögn.“

Var nokkuð „starstruck“

Dimma, fyrsta bókin í þríleik Ragnars um lögreglukonuna Huldu, verður nú að sjónvarpsseríu. Tökur hefjast fyrir jól og ekki ómerkari leikkona en Lena Olin leikur Huldu. Leikstjórinn þekkti, og eiginmaður Lenu, Lasse Hallström leikstýrir.

„Þættirnir The Darkness verða sex og eru á ensku. Það er verið að fylla í öll hlutverk núna og vonandi verða þættirnir sýndir næsta haust. Það er algjör draumur að sjá þetta gerast, en þetta er fyrsta sjónvarpsverkefnið sem kemst svona langt. Ég hitti þau Lenu og Lasse í síðustu viku en þau voru hér í leikprufum. Þetta er fyrsta glæpaserían sem Lena leikur í og þau voru virkilega spennt yfir þessu verkefni,“ segir Ragnar og segir íslenska leikara leika mörg stór hlutverk sömuleiðis og tökur munu fara fram að mestu í Reykjavík.

„Ég hafði aldrei hitt þau áður og var nokkuð „starstruck“,“ segir Ragnar og brosir.

„Það er ótrúlegt að stjörnur eins og þau séu að fara að leika í og leikstýra seríu eftir bók sem ég sat heima og skrifaði fyrir mörgum árum. Það er mjög óraunverulegt,“ segir Ragnar og segist aldrei hafa dreymt um að nokkuð þessu líkt myndi gerast.

„Þetta eru algjör forréttindi og nú ætla ég að fylgjast með og njóta,“ segir hann en Ragnar er einn af framleiðendum seríunnar.

Fleiri hafa áhuga á að búa til efni fyrir sjónvarp eða kvikmyndir eftir sögum Ragnars og er fyrirhugað að búa til bíómynd eftir bókinni Úti. Það er framleiðslufyrirtæki Ridleys Scotts sem hyggst búa til þá mynd.

„Það er í vinnslu. Ég er ekki búinn að hitta Ridley Scott en bíð eftir því boði,“ segir hann og brosir.

„Þá er Warner að vinna að þáttum um Ara Þór, upp úr Snjóblindu og fleiri bókum úr þeirri seríu. Svo er áhugi á að gera þætti byggða á bókinni okkar Katrínar,“ segir Ragnar dularfullur og segist ekki mega segja meir um það að sinni.

„Þetta er allt dálítið yfirþyrmandi.“

Að gleypa líf okkar

Í nóvember verður haldin glæpasagnahátíðin Iceland Noir, hugarfóstur Ragnars og Yrsu sem hefur vaxið mikið síðustu ár. Verða viðburðir í Fríkirkjunni og víðar og meðal annars mætir Hillary Clinton í Hörpu. Ragnar segir vinsældir hátíðarinnar miklar og er löngu orðið uppselt.

„Við Yrsa fengum þessa hugmynd fyrir tíu árum og er þetta smám saman að gleypa líf okkar. En samt bara í góðu,“ segir Ragnar og segir þau halda utan um hátíðina ásamt góðum vinum, auk þess sem einn launaður starfsmaður vinni að skipulagningunni.

„Við Yrsa vinnum þetta í sjálfboðaliðastarfi og það er óskaplega mikil vinna að halda utan um svona bókmenntahátíð, en ótrúlega gaman. Það er biðlisti inn á hátíðina en þar koma fram um hundrað höfundar, innlendir sem erlendir,“ segir hann og segir hátíðina ekki einungis snúast um glæpasögur.

„Dan Brown er einn af heiðursgestunum. Hann er að skrifa nýja bók, en ferðast ekki mikið á bókmenntahátíðir lengur en honum þykir vænt um Ísland. Svo erum við með Hillary en hún skrifaði bók með hinni kanadísku Louise Penny,“ segir Ragnar og segir fleiri stór nöfn verða á hátíðinni, svo sem rithöfundurinn heimskunni Neil Gaiman.

Hauskúpan í Ráðherrabústaðnum

Bækur Ragnars hafa selst í 4,2 milljónum eintaka á 36 tungumálasvæðum. Ragnar hefur fengið ótal verðlaun og viðurkenningar og er sérstaklega orðinn þekktur í Frakklandi og Þýskalandi.

„Ég skil þetta eiginlega ekki, þetta er svo mikið,“ segir Ragnar og segir að það sé skrítin tilfinning að vera orðinn þekktur rithöfundur úti í heimi.

Ertu að baða þig í sviðsljósinu?

„Nei, alls ekki, ég er bara heima að skrifa. En þetta er mjög skrítið; ég fór til Parísar í fyrra, sat þar á frönsku kaffihúsi að drekka kaffi og horfði á strætó keyra fram hjá með mynd af mér á. Það var furðulegt,“ segir hann og segir það vera kröfu útgefanda að hann sé sýnilegur.

„Það er pressa á að maður mæti og standi á sviði og tali um bækurnar,“ segir hann og segist stundum fá leið á að svara sömu spurningunum aftur og aftur.

„Það er gaman þegar fólk spyr að einhverju sem aldrei hefur verið spurt um.“

Hver er algengasta spurningin?

„Hvernig í ósköpunum geturðu skrifað glæpasögu í landi þar sem eru aldrei glæpir?“ segir Ragnar og segir það vekja sérstaka eftirtekt erlendis þegar forsætisráðherra mætir með honum í umræður.

Vill Katrín skrifa aðra bók með þér?

„Það er það eina sem við rífumst um. En fyrst hún er ekki hér með mér segi ég að hún sé alveg til í aðra bók. Henni fannst skemmtilegt að skrifa bók en ég veit að dagskráin hennar er þétt. En ef hún finnur lausa stund þá er ég til í að skrifa aðra sögu með henni. Hún gæti hjálpað okkur aðeins þessi hauskúpa sem fannst í Ráðherrabústaðnum, við höfum nefnt það í viðtölum erlendis að það gæti orðið kveikja að einhverri sögu.“

Ragnar hefur skrifað eina bók á ári nú í fimmtán ár og hyggst halda því áfram.

„Mér finnst fínt að vera alltaf langt á undan þannig að það sé aldrei nein pressa. Ég vinn ekki vel undir pressu og finnst gott að vinna í mörgu í einu. Þetta má ekki vera eins og vinna; þetta verður að vera gaman. En ég er frekar agaður að ýmsu leyti og gæti þess að skrifa eitthvað á hverjum degi, hvað sem öðru líður,“ segir Ragnar og segir áskorun felast í því að reyna sífellt að finna nýjan flöt, nýjar hugmyndir.

„Ef ég klára allar hugmyndirnar hætti ég að skrifa. En á meðan það gerist ekki held ég áfram.“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir