Slagveður af verstu gerð, ausandi rigning og brjálað rok, var á þriðjudaginn var þegar blaðamaður lagði leið sína í Nauthólsvíkina til fundar við sjósundsdrottninguna Sian Richardson. Ekki bjóst blaðamaður við að nokkrum lifandi manni myndi detta í hug að skreppa í sjósund á slíkum degi, en þar hafði ég rangt fyrir mér. Að streymdu Íslendingar sem létu veðrið ekki aftra sér frá því að dýfa sér í sjóinn og svo heita pottinn á eftir. Stuttu síðar birtist Sian og föruneyti; rúmlega tuttugu manna hópur sem hingað kom aðallega í þeim tilgangi að dýfa sér ofan í kaldan sjó og allar heitar laugar sem þau gætu fundið.
Í vímu á Ægisíðunni
Sian, sem er sannarlega hressa týpan, settist niður með blaðamanni á bekk fyrir utan búningsklefanna, í vari fyrir veðri og vindum.
„Við erum hér hópur sundfólks í okkar fyrstu skipulögðu ferð til Íslands,“ segir Sian, en hún er stofnandi samtakanna Bluetits, eða Blábrystinganna, sem nú telja hundrað þúsund meðlimi um heim allan.
„Við fjármögnum starfsemi okkar með því að selja varning, eins og sundföt, og með því að skipuleggja svona ferðir í samstarfi við ferðaskrifstofur í Bretlandi. Þetta er að verða mjög vinsælt, að fara í svona sundutanlandsferðir. Ísland var fullkominn áfangastaður vegna þess að hér eru svo margar heitar laugar. Við vissum það fyrir en ferðin hefur farið fram úr öllum okkar væntingum. Þetta er algjör paradís og við höfum margoft farið úr ísköldu vatni í heitt og aftur í kalt,“ segir Sian og segir hópinn til að mynda hafa farið í Rjúkandi fargufuna á Ægisíðu um síðustu helgi og notið þess mjög.
„Við sáum þessa vagna og vissum ekki hvað þetta væri, en tveimur tímum síðar leið okkur eins og við værum á vímuefnum. Þvílík sæla. Öll þessi hita-kulda-upplifun hefur verið miklu betri en við þorðum að vona. Við fórum líka að snorkla í Silfru og það var alveg ótrúlegt. Eins fórum við í Hvammsvíkina þar sem laugarnar eru úti í sjónum. Það er uppáhaldsstaðurinn minn hér sem ég hef farið á hingað til. Við vorum þarna í tvo eða þrjá tíma en ég hefði getað verið þarna allan daginn. Okkur leið eins og við værum algjörlega úti í náttúrunni,“ segir Sian og segir hópinn einnig hafa heimsótt Sky Lagoon.
Brjóstin blá af kulda
Sian býr við hafið í Pembrokeshire í Wales og var vön að synda í sjónum á sumrin. Fyrir um áratug byrjaði hún að synda líka að vetri til.
„Fæstir synda í sjónum að vetri til því hann er of kaldur, en ég ákvað að synda á veturna, bara í sundbol, því mig langaði að taka þátt í sundkeppni sem nefnist Ice mile. Svo byrjaði ég að æfa og var hávær í sjónum; ég öskra mikið og hlæ. Fólk varð forvitið og spurði mig hvað ég væri eiginlega að gera og ég hætti í raun að útskýra að ég væri að æfa fyrir sundkeppnina heldur svaraði bara að ég væri að synda í sjónum. Fólk vildi gjarnan vera með og þannig fór boltinn að rúlla. Blábrystingarnir urðu til og fleiri hópar urðu til víða um Stóra-Bretland og svo voru stofnaðir hópar í Bandaríkjunum og Ástralíu,“ segir hún og segir nafnið Bluetits bæði geta þýtt blábrystinga eða brjóst sem eru blá af kulda.
„Samtökin stækkuðu og stækkuðu!“ segir Sian og segir sjósundið hjálpa fólki bæði andlega og líkamlega.
Sian vill að fólk öskri ófeimið þegar það fer í sjóinn og fái útrás.
„Það er líka hollt að blóta af og til.“
Er þér aldrei kalt?
„Jú, alltaf. Stundum hugsa ég: æ, ekki í dag! En svo fæ ég adrenalínkikkið og himinninn verður blárri. Og svo er gaman að kjafta heillengi á eftir.“