Bólusetning Byrjað er að bólusetja við inflúensu og kórónuveirunni.
Bólusetning Byrjað er að bólusetja við inflúensu og kórónuveirunni. — Morgunblaðið/Eggert
Töluvert er um öndunarfærasýkingar í samfélaginu og niðurstöður frá öndunarfærasýnum sýna að algengustu orsakirnar eru rhinoveira, sem er algengasta orsök kvefs, og covid-19, að því er kemur fram á vef embættis landlæknis

Töluvert er um öndunarfærasýkingar í samfélaginu og niðurstöður frá öndunarfærasýnum sýna að algengustu orsakirnar eru rhinoveira, sem er algengasta orsök kvefs, og covid-19, að því er kemur fram á vef embættis landlæknis. Talsvert fleiri liggja inni á sjúkrahúsi með greiningar af völdum öndunarfæraveira nú en á sama tíma síðastliðið haust.

Landlæknisembættið segir að fjöldi covid-19-greininga hafi þó minnkað lítillega undanfarnar fjórar vikur eftir aukningu fyrr í haust. Alls greindist 41 með staðfesta covid-19-greiningu í síðustu viku en voru 47 vikuna á undan. Hlutfall jákvæðra sýna af heildarfjölda sýna hefur verið um og yfir 20% undanfarnar vikur. Greiningum á rhinoveiru hefur einnig fækkað.

Enn er lítið um staðfesta inflúensu. Í haust hafa stöku tilfelli greinst í viku hverri líkt og oft áður en faraldur er ekki farinn að láta á sér kræla enn. Þrír einstaklingar greindust með staðfesta inflúensu í síðustu viku, allir með inflúensustofn A. Síðastliðinn vetur var inflúensan fyrr á ferðinni samanborið við veturna þar á undan en síðastliðna tvo vetur greindust talsvert fleiri með staðfesta inflúensu samanborið við árin 2015-2020.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hóf sl. miðvikudag að bjóða upp á bólusetningar við inflúensu og covid-19 fyrir forgangshópa á heilsugæslustöðvum stofnunarinnar.