Eftir fjögur ár í belti og braut hafa Ítalir fengið nóg

Indónesar hleyptu á mánudag af stokkunum háhraðalest, sem fer á 350 km hraða og tengir tvær stærstu borgir landsins. Lestin er hluti af því sem Kínverjar kalla belti og braut, tilraun þeirra til að tengja heiminn og um leið auka og festa í sessi alþjóðleg efnahagsleg ítök.

Verkefnið kostaði 7,3 milljarða dollara (eina billjón íslenskra króna). Japanir voru nálægt því að hreppa verkið, en Kínverjar skákuðu þeim með því að setja færri skilmála. Fjármagnið kom að mestu leyti frá kínverskum ríkisfyrirtækjum, en Indónesía fær reikninginn og eru efasemdir um að lestin muni borga sig.

Samið var um járnbrautina 2015 og verkinu átti að ljúka 2019, en margt fór úrskeiðis og varð til þess að það tafðist um fjögur ár. Kostnaðurinn fór einnig rækilega úr böndunum.

Xi Jinping leiðtogi Kína kynnti belti og braut til sögunnar fyrir tíu árum, áætlun um fjárfestingar sem áttu að koma hátt í tveimur þriðju jarðarbúa til góða. Kínverjar ætluðu að verja einni billjón dollara (140 billjónum króna) í framkvæmdir um allan heim undir slagorðinu „eitt belti, ein braut“. Framtakið var til höfuðs stofnunum á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Fé átti að standa til boða án þreytandi vestrænna krafna um mannréttindi og stjórnarfar.

Kínverjum tókst að fá fjölda ríkja til að taka þátt í belti og braut. Skrifað hefur verið undir samninga við 150 lönd.

Um tíma var látið sem Ísland væri að dragast inn á sporbraut um Kína og svo virtist sem kínversk stjórnvöld væru að seilast til aukinna áhrifa hér, en það hefur fjarað út og enn liggur á borði Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra bréf með boði um að vera með í belti og braut sem enn er ósvarað.

Háhraðalest var lögð frá Laos til Kína fyrir kínverskt fé, sem Laos skuldar, og eru efasemdir um að hið skuldum hlaðna land ráði við afborganirnar.

Djíbútí gekk í belti og braut og fékk greiðan aðgang að fjármagni. Þar hafa Kínverjar reist flotastöð,
þá fyrstu til frambúðar utan Kína.
Bandaríkjamenn eru einnig með herstöð í Afríkuríkinu og tortryggnin er mikil.

Ekki vakti það síður efasemdir á Vesturlöndum þegar kínverskt ríkisfyrirtæki keypti meirihluta í höfninni í Píreus í Grikklandi árið 2016 og lýst var yfir áformum um að þar yrði miðstöð flutninga milli Kína og Evrópu.

Ekki vakti síður undrun þegar Ítalir tóku sig til og undirrituðu
samstarfssamning við Kína árið 2019 með mikilli viðhöfn og hástemmdum yfirlýsingum í opinberri heimsókn Xis til Rómar.

Ítalía er fyrsta og eina ríkið úr hópi sjö helstu iðnríkja heims sem hefur samið um þátttöku í belti og braut.

Nú er komið annað hljóð í strokkinn og helst vildu Ítalir draga sig út úr belti og braut.

Antonio Tajani utanríkisráðherra Ítalíu hefur sagt að silkileiðin hafi ekki skilað þeim árangri sem vænst var. Aðrir tala um sorgarsögu og segja að samningurinn hafi engu skilað. Til marks um það sé að árið 2019 hafi viðskiptahallinn við Kína verið tæpur 21 milljarður dollara, en sé nú rúmir 47 milljarðar dollara.

Í vikunni var haldin ráðstefna í Peking til að fagna því að áratugur væri liðinn frá upphafi beltis og brautar. Margt hefur breyst frá upphafinu, ekki síst vegna stríðsins í Úkraínu. Vladimír Pútín forseti Rússlands var þar heiðursgestur.

Rússar sjást ekki á Hringborði norðurslóða, sem nú fer fram í Hörpu, en Pútín setti norðurslóðir á dagskrá í Peking. Þar skoraði hann á þjóðir Afríku og Suður-Ameríku og fjárfesta í norðurleiðinni, sem myndi stytta siglingaleiðina milli Evrópu og Asíu um helming. Ekki var þó að sjá að þessi málflutningur hefði fengið neinar undirtektir, hvorki hjá vini hans Xi né öðrum.

Gestalistinn frá Evrópu var öllu fátæklegri en á fyrri samkomum Kínverja í tilefni af belti og braut. 2017 kom forsætisráðherra Ítalíu, en nú var látið nægja að senda sendiherrann í Peking. Flest evrópsk sendiráð í kínversku höfuðborginni munu ekki einu sinni hafa sent fulltrúa.

Ein ástæðan fyrir óánægju Ítala er hvað erfitt er að gera viðskipti í Kína. Evrópska viðskiptaráðið í Kína gaf út skýrslu árið 2020 þar sem sagði að það væri nánast ógerningur fyrir evrópsk fyrirtæki að eiga viðskipti í Kína vegna ógagnsæis og óáreiðanleika.

Þá hefur tortryggni í garð Kína aukist á Vesturlöndum, sérstaklega eftir innrás Rússa í Úkraínu. Bandaríkjamenn hafa gagnrýnt Kína harkalega og varað við því að ákveðin viðskipti gætu stefnt öryggi í hættu. Innan Evrópusambandsins er viðkvæðið nú að það megi ekki vera of háð Kínverjum í viðskiptum því að fyrir þeim vaki það eitt að skara eld að eigin köku.

Giorgiu Meloni forsætisráðherra Ítalíu er vandi á höndum. Hún vill draga sig út úr belti og braut, en ekki móðga Kínverja. Óttast menn að Xi gæti brugðist ókvæða við, sérstaklega ef það gerðist á tíu ára afmælisárinu, og það gæti skaðað þau viðskipti sem þó eru fyrir hendi.

Mörg ríki eiga þegar erfitt með skuldahalann sem fylgt hefur belti og braut. Blikur eru á lofti í kínversku efnhagslífi. Byggingaframkvæmdir hafa knúið efnahaginn, en það er komið babb í bátinn og tvö stór verktakafyrirtæki riða til falls. Ólíklegt er að Kínverjar verði í skapi til þess að gefa eftir skuldir samstarfsríkjanna í belti og braut ef hremmingar halda áfram í efnahagslífinu og þá hlaupið snurða á þráðinn í tilraun Kínverja til að laða ríki heims í sinn faðm.