Áslaug Jónsdóttir
Áslaug Jónsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ljóð eru áberandi í útgáfu Dimmu í haust en annars konar skáldverk og barnabækur leynast þar einnig. Gyrðir Elíasson sendir frá sér ljóðabókatvennu, Dulstirni og Meðan glerið sefur, þar sem rúmlega 200 ný ljóð birtast

Ljóð eru áberandi í útgáfu Dimmu í haust en annars konar skáldverk og barnabækur leynast þar einnig.

Gyrðir Elíasson sendir frá sér ljóðabókatvennu, Dulstirni og Meðan glerið sefur, þar sem rúmlega 200 ný ljóð birtast. „Ljóðheimur Gyrðis Elíassonar er í senn víðfeðmur og nærtækur. Þar skarast innri og ytri öfl, draumur og veruleiki, orð og athafnir. Líf mannsins í hverfulum heimi er nú sem fyrr höfuðviðfangsefni skáldsins og yrkisefnin óþrjótandi. Fjörutíu ár eru liðin frá því fyrsta ljóðabók Gyrðis, Svarthvít axlabönd, kom út,“ segir útgefandi.

Magnús Sigurðsson sendir frá sér stafrófskverið Lexíurnar þar sem hann tekur mið af bókmenntaformi stafrófskveranna gömlu. „Milli spjalda þessa 21. aldar „stafrófskvers“ fer því bæði fram uppátækjasöm könnun á orðlist, bókfræði og lestrarvenjum auk þess sem farið er víða um sálarsviðið og lendur hjartans,“ segir útgefandi.

Frá Jakub Stachowiak, sem áður hefur sent frá sér ljóðabækur, kemur nýtt prósaverk sem ber titilinn Stjörnufallseyjur og að sögn útgefanda „kveður við nýjan tón í framsæknu prósaverki með myndríkum áherslum“. „Draumkennd frásögn um söknuð og sorg dregur fram andstæður í hverfulum heimi.“ Svarthvítar teikningar og vatnslitamyndir eftir Mörtu Maríu Jónsdóttur fléttast inn í verkið.

Í sjöundu ljóðabók sinni, sem nefnist Fuglamjólk, heldur Steinunn Ásmundsdóttir uppteknum hætti og yrkir af „næmleika og skilningi um líf og tíma, tengsl við náttúruna, ójöfnuð og firringu, en fyrst og fremst um manneskjuna sjálfa í flóknum vefnaði tilverunnar“. Steinunn er blaðamaður og árið 2016 tók hún að nýju til við skáldskap eftir tuttugu ára hlé.

Dimma gefur út úrval af kvæðum og sögum eftir Edgar Allan Poe í íslenskri þýðingu ýmissa þýðenda, sumar nýjar og aðrar eldri. Ástráður Eysteinsson bókmenntafræðingur ritar ítarlegan inngang og fjallar um höfundarverkið og þýðingarnar sem eiga sér langa og merkilega sögu.

Áslaug Jónsdóttir sendir frá sér barnabókina Allt annar handleggur. Þegar teiknari og rithöfundur verður fyrir því óláni að handleggsbrotna eru góð ráð dýr. Í þessu tilfelli varð óhappið kveikjan að föndri og flótta frá ónotum og ama. Dag hvern var höndin dubbuð upp sem ýmsar fígúrur. Úr uppátækinu varð til myndasería með 34 mismunandi persónum og kvikindum. Og svo bættust limrur við til að túlka mismunandi persónur.

Barnabókin Froskurinn með stóra munninn eftir Élodie Nouhen og Francine Vidal er að hluta til í bundnu máli og fjallar um forvitna froskinn sem vill fá að vita hvað öll dýrin sem á vegi hans verða leggja sér til munns. Jóhanna Björk Guðjónsdóttir þýddi úr frönsku. ragnheidurb@mbl.is