Skákmót Boðað er að ný löggjöf eigi að auka möguleika á stuðningi við ungt og efnilegt fólk til afreka í skák og einfalda og nútímavæða lagaumhverfið.
Skákmót Boðað er að ný löggjöf eigi að auka möguleika á stuðningi við ungt og efnilegt fólk til afreka í skák og einfalda og nútímavæða lagaumhverfið. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir dyrum stendur að stokka upp núverandi fyrirkomulag opinbers stuðnings við skákhreyfinguna á landinu með ýmsum breytingum sem innleiða á með nýrri löggjöf. Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur birt í samráðsgátt til umsagnar áform um ný…

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Fyrir dyrum stendur að stokka upp núverandi fyrirkomulag opinbers stuðnings við skákhreyfinguna á landinu með ýmsum breytingum sem innleiða á með nýrri löggjöf. Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur birt í samráðsgátt til umsagnar áform um ný heildarlög um skák, um laun og styrki afreksfólks í skák og Skákskóla Íslands, og boðuð er einföldun núverandi reglna. Fella á brott bæði núgildandi lög um launasjóð stórmeistara í skák sem eru frá 1990 og lög um Skákskóla Íslands frá sama ári. Stórmeistarar í skák hafa getað fengið greidd föst laun mánaðarlega að ákveðnum skilyrðum uppfylltum en á því verður væntanlega gerð breyting ef áformin ná fram að ganga.

„Íslenskt samfélag hefur breyst mikið frá því að lögin voru sett og það fyrirkomulag sem þau mæla fyrir um samræmist illa nútíma stjórnsýsluumhverfi,“ segir í kynningu ráðuneytisins. Þar er m.a. boðað nýtt fyrirkomulag um laun eða styrki til stórmeistara í skák, sem verði þá ekki lengur opinberir starfsmenn, þar sem horft verði í meiri mæli til einstakra verkefna og framgangs þeirra.

Hugmyndir um endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi styrkveitinga ríkisins til skákhreyfingarinnar eru ekki nýjar af nálinni. Síðastliðinn vetur aflaði Skáksamband Íslands umsagna fjölmargra aðila innan hreyfingarinnar um mögulegar breytingar á stuðningi ríkisins og mótuð var heildstæð tillaga sem skilað var til ráðuneytisins í mars sl. Gerð var ítarleg grein fyrir þeim í fréttaskýringu hér í blaðinu á þeim tíma. Skákhreyfingin hefur ekki verið mótfallin því að núverandi fyrirkomulag verði endurskoðað en lagðar voru fram ýmsar tillögur og markmið sem hafa ætti að leiðarljósi.

Framlögin til skákhreyfingarinnar verði ekki skorin niður

Ekki verður annað séð af þeim áformum sem nú hafa verið birt en að tekið hafi verið tillit til tillagna Skáksambandsins. Útfærslan liggur þó ekki fyrir þar sem sjálft frumvarpið hefur ekki litið dagsins ljós. Spurður álits á áformunum eins og þau eru núna í samráðsgáttinni segir Gunnar Björnsson formaður Skáksambandsins að honum lítist ágætlega á þau en þó með þeim fyrirvara að hann hafi ekki frekar en aðrir séð sjálft frumvarpið. Það sé hins vegar lykilatriði af hálfu Skáksambandsins að ekki verði dregið úr heildarstuðningi til skákmanna með fyrirhuguðum breytingum.

Ekkert er um það sagt í áformum ráðuneytisins að til standi að draga úr styrkjunum en í frummati á fjárhagsáhrifum breytinga segir að þær muni „einfalda kerfi launa og styrkja vegna afreksfólks í skák. Ekki er gert ráð fyrir auknu fjármagni en þegar er úthlutað v. launasjóðs stórmeistara og Skákskóla Íslands, heldur breytingu og einföldun á þeim reglum sem úthlutað er eftir.“

Tekið er fram að lögin um launasjóð stórmeistara í skák séu gamaldags og tæplega viðeigandi í nútíma stjórnsýsluumhverfi. „Þá standa vonir til að breytingin verði til þess að skákmenn nái betri árangri í alþjóðlegum mótum en með fyrra kerfi.“ Með nýju fyrirkomulagi verði lögð aukin áhersla á að þeir sem njóta launa eða styrkja geri grein fyrir verkefnum sínum.

Föst framlög ríkisins til skákhreyfingarinnar hafa numið liðlega 70 milljónum kr. á ári, þar af er framlag til launasjóðs stórmeistara rúmar 33 milljónir.

Markmið breytinga

Styðja ungt fólk til afreka

Með væntanlegu frumvarpi er að því stefnt að afreksfólk í skák verði hvatt enn meira en nú er „til að tefla sem mest til þess að ná hámarksárangri. Stefnt er að því að ný löggjöf gefi aukna möguleika á því að styðja ungt og efnilegt fólk til afreka í skák,“ segir m.a. í kynningu ráðuneytisins.

Tekið er fram í greinargerð sem fylgir kynningu ráðuneytisins að það kerfi sem hefur verið við lýði „virðist ekki vera hvetjandi fyrir afreksfólk í skák til að tefla sem mest til þess að ná hámarksárangri“.

Stefnan sé sú „að þeir sem skara fram úr í skák hafi tækifæri til þess að helga sig skáklistinni, standi hugur þeirra til þess, og nái árangri á alþjóðavísu. Mikilvægur þáttur í því er að styðja ungt og upprennandi fólk til þess að ná alþjóðlegum skákáföngum.“

Fram kemur að fyrirhugað sé að leggja frumvarpið fram á haustþingi 2024.

Höf.: Ómar Friðriksson