Margrét Ingibergsdóttir fæddist í Rauðanesi III, Borgarfirði, 26. október 1970. Hún lést á Landspítalanum í Kópavogi 8. október 2023.

Foreldrar hennar voru Ingibergur Bjarnason, f. 13. júlí 1933, d. 23. september 2005, og Sigurbjörg Viggósdóttir, f. 29. maí 1940. Systkin Margrétar eru Bjarni, f. 3. ágúst 1961, og Ingveldur, f. 23. júní 1966.

Margrét giftist 15. maí 2010 Helga Jóhannessyni, f. 4. nóvember 1967. Foreldrar hans eru Guðrún Jóna Kristjánsdóttir, f. 13. október 1943, og Jóhannes Gunnarsson, f. 16. febrúar 1943, d. 8. febrúar 2008.

Börn Margrétar og Helga eru Elísabet Inga, f. 6. september 2006, og Karen Ósk, f. 9. mars 2009. Fyrir átti Helgi soninn Heiðar Örn, f. 21. júní 1994.

Margrét stundaði nám fyrst að Varmalandi og svo í Reykholti, Borgarfirði. Hún fór í Menntaskólann við Sund og lauk þaðan stúdentsprófi 1990. Eftir stúdentspróf fór hún í Tækniskóla Íslands (HR) þar sem hún útskrifaðist sem iðntæknifræðingur 1998. Margrét lauk svo meistaragráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands í stjórnun og stefnumótum árið 2007.

Eftir útskrift úr Tækniskólanum vann hún m.a. hjá Marel, hjá Símanum frá 1998-2007 lengst af sem verkefnastjóri. Eftir það vann hún hjá Arion banka sem verkefnastjóri frá árinu 2008-2011 og hjá Reiknistofu bankanna (RB) frá 2011 til dánardags sem vörustjóri og svo sem forstöðumaður.

Útför Margrétar fer fram frá Lindakirkju í dag, 23. október 2023, klukkan 13.

Streymi frá útför:

mbl.is/go/unine

Það er erfitt að setja einhver orð niður á blað þegar besti vinur manns, sálufélagi og eiginkona er farin. Magga mín lést sunnudaginn 8. október eftir skammvinna baráttu við krabbamein sem greindist í nóvember 2022. Lengi vel gekk baráttan við að halda meininu niðri ágætlega en varð svo erfiðari í lok sumars og haust. Við ræddum mikið um þetta verkefni sem við fengum en óskuðum okkur ekki, ákváðum strax að halda okkar daglega lífi eins venjulegu og hægt er. Sem betur fer náði Magga að vera heima fram á síðustu daga sem lauk með stuttri innlögn á líknardeild þar sem hún lést að kvöldi sunnudagsins. Var það friðsælt andlát og var ég hjá henni þegar hún yfirgaf okkur.

Við kynntumst um tvítugt þegar hún kom á æfingar hjá mér ásamt vinkonum sínum úr menntaskóla, æfði þá í um tvö ár en á þeim tíma var hún í sambandi svo ekkert varð úr nánari kynnum hjá okkur. Við rákumst svo aftur á hvort annað í október 2002 og höfum verið saman síðan þá. Þegar við kynntumst þá var Heiðar sonur minn oft hjá mér og ég man hversu vel Magga tók honum og var samband þeirra gott.

Við áttum mjög gott líf saman og náðum að tengja saman áhugamál okkar, fyrstu árin voru það borgarferðir en svo þegar stelpurnar fæddust þá var það meira útilegur með fjölskyldunni sem veitti okkur mikla gleði. Einnig stunduðum við golf saman og höfðum bæði mjög gaman af því. Reyndar sagði Magga einmitt að hún saknaði þess að geta ekki farið í golf þegar við vorum komin á seinni hluta baráttu okkar við meinið, þá var orkan orðin minni hjá henni. Magga var mikið fyrir útiveru og hlaup, fór í slíkar ferðir með hópum úr vinnu sinni, auk þess sem hún æfði crossfit lengi vel.

Það var mikið gleðiefni þegar eldri dóttir okkar, Elísabet Inga, fæddist 2006 og svo einnig þegar Karen Ósk fæddist 2009. Við nutum þess mikið að vera með þeim, hvort sem það voru ferðir í sveitina, útilegur eða þá bústaðaferðir og ferðir erlendis, svo líka þegar við fylgdum þeim eftir á fótboltamót og fimleikakeppnir.

Magga studdi mig heilshugar í öllum þeim verkefnum sem ég tók að mér í sambandi við karate, þjálfun, félagsstörf og dómgæslu. Ég hef oft hugsað til þess þegar ég hef verið að fá viðurkenningar fyrir störf mín í tengslum við karate að Magga átti þau jafnmikið skilið og ég, því án hennar stuðnings hefði ég aldrei getað sinnt öllum þessum verkefnum sem ég tók að mér.

Það er svo margt sem mig langar að segja til að lýsa henni, okkar sambandi og hvað það gerði mér þegar við náðum saman en það væri án efa efni í heila bók svo ég tel að textinn úr lagi eftir Pál Óskar lýsi því ágætlega hvernig mér leið þegar við Magga náðum saman og hvernig samband okkar var:

Þó að útaf bregði, þú ert hjá mér enn.

Ég get verið meistari og kjáni í senn.

Þú gefur allt til baka og svo miklu
meira til.

Ó hvílíkt frelsi að elska þig.

Hvíl í friði elskan mín.

Helgi.

Elsku litla systir.

Mín fyrsta minning um þig er ljóslifandi enn í dag. Ég og Inga systir vorum bæði vakin eldsnemma um morguninn og send í fjósið með pabba, það var jú eitthvað í gangi. Þegar hefðbundnum morgunverkum var lokið sagði pabbi okkur að bíða meðan hann skryppi aðeins inn. Hann kom baka skömmu síðar og óskaði okkur til hamingju með litlu systur. Magga var fædd í fjósi, litla íbúðin okkar var stúkuð af í endanum á fjósinu en ári síðar fluttum við síðan í nýja húsið.

Magga var ekki gömul þegar henni var dröslað í fjósið sem var hennar annað heimili fyrstu árin og um leið og hún hafði getu til þá tók hún virkan þátt í öllum störfum í sveitinni. Hún hafði alltaf sínar skoðanir og leysti verk sín vel hvort sem það voru heimilisstörf, mjaltir eða heyskapur. Þá kom hún með á mörg íþróttamótin með okkur Ingu en um leið og hún hafði aldur til var hún farin að keppa líka og náði þar ágætum árangri.

Eins og gengur lágu leiðir okkar systkina dálítið sitt í hverja áttina en síðan lágu þær saman á ný. En í kringum 2010 var ákveðið að hafa nokkrar kindur í sveitinni. Það voru því margar ánægjulegar samverustundirnar sem við áttum þar bæði vor og haust til viðbótar við aðrar gæðastundir.

Núna hafa æðri máttarvöld tekið þig í þína hinstu för en ég er þess fullviss að pabbi hefur tekið vel á móti þér.

Hvíl í friði, elsku systir,

Þinn bróðir,

Bjarni.

Elsku systir.

Mín fyrsta alvöruminning í öllu lífinu er um þig. Þegar þú fæddist. Man eftir brölti með mig um nóttina er mér var komið fyrir á öðrum svefnstað og síðan aftur vakin upp snemma til að fara í fjósið með pabba. Sterkasta minningin er síðan þegar við komum inn aftur og ég fékk að sjá litlu systur, ég var svo ánægð og stolt.

Síðan þegar árin liðu, þá voru nú fjölmargar drullukökurnar sem voru gerðar, ásamt leikjum í fína búinu okkar, það eru góðar minningar. Alltaf var eitthvað við að vera í sveitinni, hjálpuðum til við ýmis störf eftir bestu getu, fá að sitja uppi á heyvagninum, keyra traktorinn, brasað eitthvað með pabba á verkstæðinu, vitjað um netin, skottast til ömmu og afa og leikið við systkinabörnin á næsta bæ, eða bara setið og spilað.

Mér fannst þú vera töffari, í barnaskóla stofnaðir þú hljómsveit ásamt vinkonum þínum. Þar spilaðir þú á trommur. Þú varst líka sterk og fjölhæf í íþróttum og prófaðir ýmislegt þar.

Mér tókst síðan að gera þig að móðursystur þegar þú varst aðeins 16 ára en það var ómetanlegur stuðningur þegar þú bjóst hjá okkur fyrst eftir að Íris fæddist. Þegar ég síðan flutti utan vorum við kannski ekki alveg í nægilega góðu sambandi enda dýrt að hringja milli landa á þeim tíma. Mér finnst ég aðeins hafa tapað af þér í nokkur ár á þeim tíma, enda voru engar tölvur eða símar eins og er í dag.

Allt lagaðist þetta þegar ég flutti aftur í sveitina. Það eru svo margar minningar sem við getum huggað okkur við. Það voru mjög dýrmætar stundir þegar stelpurnar ykkar fæddust og mikil gleði eftir erfiða tíma þar á undan.

Við gerðum helling saman, það voru margar mjög skemmtilegar útilegur eftir að stelpurnar fæddust, fórum líka saman til útlanda í frí, ýmis frí og bústaðaferðir innanlands og svo brasið með kindurnar okkar í sveitinni sem var sameiginlegt. Það var ávallt mikið fjör og gaman þegar allir komu saman í fjárhúsunum, hvort sem það var að moka skít, fjárrag, smíðavinna, sauðburðarvaktir eða annað og síðan borðað saman og kínaskákin spiluð á kvöldin. Þetta eru allt mjög dýrmætar stundir nú þegar horft er til baka. Við áttum líka eftir að gera helling, ýmsar fjallgöngur og ferðalög sem okkur langaði að gera sameiginlega.

Sumt í lífinu er einfaldlega mjög óréttlátt, veikindi þín og fráfall er eitt af því. Hin hrausta og sterka Magga sem stundaði crossfit, hlaup og ýmsa hreyfingu og borðaði hollan og góðan mat var allt í einu komin með krabbamein á háu stigi. Það var erfitt að missa pabba þegar hann fór en að missa þig núna er jafnvel enn sárara. Þegar fólk er tekið svona frá börnunum sínum verður það svo óendanlega sárt.

Ég veit að pabbi hefur tekið vel á móti þér elsku Magga mín, þú varst líka alltaf dálítið mikil pabbastelpa. Veit líka að við munum hittast síðar en þangað til skal ég reyna gera mitt besta til að styðja og hjálpa stelpunum þínum að fóta sig í lífinu.

Hvert spor með þér

mér gleði gaf,

hamingju.

Hvert andartak

með þér

þess virði

var að lifa.

Hver stund svo dýrmæt

geymd í hjartastað.

Ástarkveðja!

Þín systir,

Ingveldur H.
Ingibergsdóttir.

Elsku vinkona, hvað það er sárt að kveðja þig, er engu líkt. Ég taldi fyrir víst að við ættum eftir að eiga einhvern hitting og einhver samtöl áður en þú færir, en lífið er ekki alltaf sanngjarnt og svo sannarlega ekki í þetta skiptið. Ég gat talað við þig um allt og gat treyst þér fyrir öllu. Þú gafst svo góð ráð og ég hef alltaf litið svo upp til þín, þú varst svo sönn. Ég á eftir að sakna þess að hittast stöku sinnum í „lunch“ og fara yfir allt sem hafði gerst síðan við sáumst síðast, síðasta skiptið er liðið. Ég er svo innilega þakklát fyrir stundirnar sem við höfum átt síðan þú fékkst greininguna, þær eru ómetanlegar og ég er þakklát fyrir að hafa getað sagt þér hvað mér þætti vænt um þig.

Ég man svo vel þegar þú varðst ófrísk að Elísabetu, þvílíka gleðin, og hvað ég varð svekkt yfir því að vera ekki á landinu þegar hún kom í heiminn, pínulítið fyrr en áætlað var. Ég mun alltaf muna daginn hennar Elísabetar. Tveim árum seinna verð ég ófrísk og þú svo stuttu á eftir mér. Ég grínaðist um það við þig að ef þú myndir eiga barnið þitt aðeins fyrir tímann eins og síðast, og ég mitt aðeins of seint eins og á minni fyrri meðgöngu, þá myndum við eiga sama daginn, hverjar væru líkurnar? Þegar ég svo fór af stað og var komin upp á kvennadeild, sendi ég þér sms sem í stóð: ég er komin upp á deild! Ég fékk strax svar til baka, ég er hérna líka! Þannig að úr varð að við eignuðumst litlu skvísurnar okkar sama daginn, og ég gat þá óskað ykkur Helga til hamingju í eigin persónu, samdægurs. Þetta mun alltaf vera okkar sérstaka tenging. Þú munt alltaf eiga stað í hjarta mínu og huga, elsku Magga, og ég mun aldrei gleyma síðustu ráðunum sem þú gafst mér fyrir svo örstuttu … að treysta sjálfri mér, fyrir sjálfri mér.

Ásta B. Valdimarsdóttir.

Nú fylgjum við kærri vinkonu hinstu skrefin. Það er þungbært að skrifa minningarorð um vinkonu okkar hana Möggu sem féll frá í blóma lífsins eftir stutta en snarpa baráttu við krabbamein. Haustið 1986 hófu nokkrar vinkonur úr Árbænum nám í Menntaskólanum við Sund. Magga var líka að byrja í MS, kom frá Rauðanesi í Borgarfirðinum og þekkti því ekki marga í skólanum. Fyrstu kynni okkar af Möggu voru í 1-A og var það frönskuvalið sem leiddi hana, Kristínu og Maju saman í bekk. Þær urðu fljótt vinkonur, fóru saman á sveitaball í Borgarfirði og í Ólafsdalsferðir, sem þá var sel MS-inga. Auk þess fór Kristín með Möggu og fjölskyldu hennar til Spánar.

Vinkonuhópurinn stækkaði og í tæpa fjóra áratugi höfum við haldið hópinn átta vinkonur og hist reglulega. Ýmislegt skemmtilegt hefur verið brallað á þessum árum sem við höfum átt samleið frá menntaskólaárunum og minningarnar eru margar. Skólaböll, saumaklúbbar með reglulegu millibili, jólaföndur og matarboð, sumarbústaðaferðir og útilegur. Auk þess sem allar hafa haft mismikil tengsl innbyrðis eftir því sem nám, störf, áhugamál og barneignir hafa raðast saman. María er ljósmóðir Elísabetar Ingu, eldri dóttur Möggu, Álfheiður leikskólakennari systranna beggja, Íva og Magga stunduðu saman golf.

Í júlí á þessu ári fóru Magga, Helgi og Karen til Ítalíu í frí og dvöldu í litlum bæ við Garda-vatnið. Það vildi svo til að Unnur og Hilmar voru líka stödd þar á sama tíma. Náðu þau að hittast og fengu þessa yndislegu kvöldstund saman. Þetta var alveg ómetanleg og dýrmæt stund sem verður minnst með þakklæti. Íva og Magga höfðu planað að taka golfhring saman þegar hún kæmi heim úr fríinu en það náðist því miður ekki áður en heilsunni fór að hraka og þrekið að minnka.

Við kveðjum elsku Möggu með sorg í hjarta og sendum okkar hlýjustu kveðjur til eftirlifandi ástvina hennar.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir.

Innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Álfheiður, Herdís, Íva Sigrún, Kristín, María, Ragnheiður Anna og Unnur.

Leiðir okkar og Möggu lágu saman árið 1986 þegar við byrjuðum nám við Menntaskólanum við Sund. Seinni tvö árin í skólanum þéttist bekkurinn og samskiptin urðu meiri. Við vorum í svokölluðum „strákabekk“, við vorum bara sjö stelpurnar í 4-E. Magga var yfirveguð og glaðvær, ávallt þægileg í samskiptum, með fallegan hlátur og ljósu lokkana sína.

Magga var íþróttastelpan í hópum og stundaði karate af kappi.

Minningar rifjast upp; matarboðið hjá Dögg í Vesturbrúninni, þar sem við elduðum saman lasagna og skemmtum okkur konunglega fram eftir kvöldi, fjölmörgu partíin og skólaböllin. Ekki er hægt að sleppa því að minnast þess dags þegar við dimmiteruðum frá því snemma morguns og langt fram eftir kvöldi, öll klædd upp sem sígaunar, það fóru ófáar samverustundir í að undirbúa þá búninga. Í kjölfarið fylgdi svo útskriftin okkar og leiðir okkar skildi um tíma. Seinni ár höfum við hist annað slagið, ýmist stelpurnar eða við svokallað „reunion“. Alltaf gaman að hittast og rifja upp gömul kynni.

Við vottum fjölskyldunni okkar dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum. Minning Möggu mun lifa um ókomna tíð.

Stelpurnar úr 4-E,

Dögg, Elín, Erla, Júlíana, Katrín (Katý), Selma.

Það er með mikilli sorg og söknuði sem við kveðjum í dag Margréti Ingibergsdóttur, Möggu, góða vinkonu og vinnufélaga. Það er sárt að horfa á eftir lífsglaðri konu á besta aldri hverfa á braut.

Magga hóf störf hjá RB árið 2011 og hefur frá upphafi verið í hópi lykilstarfsmanna fyrirtækisins. Hún var mikil RB-manneskja og hafði mikinn metnað fyrir hönd félagsins. Hún var kraftmikil og setti sig vel inn í þau mál sem hún bar ábyrgð á. Hún kom að fjölbreyttum verkefnum síðustu ár og þá ekki síst málum sem snúa að kortaútgáfu og var hún með mikla sérþekkingu á því sviði. Magga var dugleg að miðla þekkingu sinni og reynslu og það var jafnframt mikið til hennar leitað með alls kyns verkefni enda hafði hún víðtæka þekkingu á rekstri RB. Hún naut virðingar og var vel metin af samstarfsfólki sínu.

Það er tæpt ár síðan Magga greindist með krabbamein og tók hún þessu erfiða verkefni af æðruleysi og kvartaði ekki. Hún var mjög opin með veikindi sín og leyfði okkur vinnufélögunum að fylgjast með framgangi meðferðarinnar og sjúkdómsins. Þrátt fyrir erfiða meðferð hélt hún áfram að vinna stóran hluta veikindanna og eftir það fylgdist hún með vinnunni og miðlaði þekkingu sinni eins og heilsan leyfði. Magga var hluti af góðum vinkonuhópi innan RB sem stóð þétt saman bæði innan og utan vinnu og studdi hópurinn mikið við Möggu síðustu vikurnar.

Fyrir hönd RB kveð ég öfluga og skemmtilega samstarfskonu sem við samstarfsfólk hennar munum sakna mikið.

Hugur minn er hjá nánustu fjölskyldu og vinum Möggu. Missir þeirra er mikill.

Fyrir hönd Reiknistofu bankanna,

Ragnhildur Geirsdóttir.