Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Herkostnaður okkar Íslendinga er hins vegar íslenska krónan og fylgifiskar hennar. Þar með talið um 110 milljarða vaxtakostnaður ríkissjóðs.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Viðreisn hefur lengi kallað eftir auknu aðhaldi í ríkisfjármálum, betri rekstri og nýtingu fjármuna. Löngu fyrir kórónufaraldurinn vöruðum við við linnulausri útgjaldaþenslu ríkissjóðs enda ríkisfjármálin þá orðin ósjálfbær. En í stað þess að stíga á bremsurnar var gefið í af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Verðbólgan og gríðarháir vextir sem heimilin glíma nú við af miklum þunga er ein birtingarmynd þessa agaleysis ríkisstjórnarinnar. Önnur birtingarmynd er að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur rýrnað og hagvöxtur á mann er minnstur á Evrópusvæðinu. Þar rekum við lestina. Áralangur fjárlagahalli, sem verður næstu ríkisstjórnar að leysa, er síðan enn ein birtingarmyndin.

Betri rekstur, einfaldara regluverk

Ríkisstjórnarinnar bíður nú það verkefni að ná tökum á rekstri ríkissjóðs og verða liðsmaður en ekki andstæðingur heimila og fyrirtækja. Ég sé að liðsmenn Sjálfstæðisflokksins stæra sig af að hafa lækkað skatta. Það er gott mál að lækka skatta og á að gera þegar ríkissjóður hefur efni á því. Hitt er óskiljanlegra af hverju hinir sömu styðja við ríkissjóð sem skilur eftir sig halla ár eftir ár. Það eru ekki ábyrg fjármál. Við verðum að leita allra leiða til að ná tökum á rekstri ríkissjóðs. Það kallar á aga og jafnvel óvinsælar ákvarðanir. Og að þora að horfa aðeins fram á við.

Við verðum að einfalda regluverk. Það hefur í för með sér verulegan þjóðahagslegan sparnað, eykur hagvöxt og treystir stöðu ríkissjóðs, eins og OECD hefur bent á. Á því þurfum við halda en Viðreisn hefur ítrekað lagt fram þingmál sem ýtir undir þetta. Á starfstíma ríkisstjórnarinnar hefur hins vegar lítið þokast áfram í þessum efnum.

Þunginn á íslenskum heimilum

Við þurfum eðlileg og sanngjörn auðlindagjöld þar sem raunverulega er greitt fyrir aðgang að sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Hvar sem þær eru. Er markaðurinn besta leiðarljósið til að vísa veginn í þeim efnum. Hinir ósnertanlegu geta ekki lengur ráðið för.

Viðreisn hefur einnig ítrekað að loforð stjórnmálaflokka, hversu göfug sem þau eru, verða ekki fjármögnuð með aukinni skattheimtu á millistéttina. Nóg er nú samt hjá fólki sem stendur frammi fyrir þrúgandi vaxtakostnaði, þar sem húsnæðislánin hafa snarhækkað og matarkarfan á Íslandi er með þeim allra dýrustu í Evrópu. Stjórnmálaflokkarnir skulda þessum hópi að leita allra annarra leiða en að hækka skatta.

Við höfum fengið send mörg dæmi þess að húsnæðislán hafi farið úr 150 þúsundum í 350 þúsund krónum á mánuði, úr 190 þúsundum í 400 þúsund á mánuði. Á fundum mínum um landið hafa foreldrar sagt mér af miklum áhyggjum vegna barna þeirra sem hafa farið í íbúðarkaup en standa vart lengur undir afborgunum. Þetta eru kennarar, hjúkrunarfræðingar, rafvirkjar, leiðsögumenn, vélsmiðir, skrifstofufólk. Svipaðar sögur heyri ég frá bændum sem af metnaði hafa fjárfest í tækjum og öðrum búnaði til að efla íslenska matvælaframleiðslu.

Margir þessara einstaklinga hafa ekki bakland sem getur stigið inn og aðstoðað. Þetta minnir dálítið á heilbrigðiskerfið þar sem ekki er verra ef þú ert ríkur, frekur eða vel tengdur. En þannig á það ekki að vera í landi jafnra tækifæra. Herkostnaður vegna íslensku krónunnar fellur af fullum þunga á heimilin í landinu með miklum samfélagslegum kostnaði. Líka á bændur, meðan útvegsmaðurinn er í skjóli af evruumhverfinu. Þetta mun hins vegar gerast aftur og aftur og ójöfnuður aukast. Nema ráðist verði að rótum vandans.

Erfiður samanburður

Þegar kemur að skattheimtu erum við Íslendingar á toppnum með vinaþjóðum okkar á Norðurlöndum. Hér verður nóg að vera nóg. Við hljótum að geta forgangsraðað innan þessa rúma skattaramma. Það er hins vegar áhugavert að mikil framlög Norðurlandaþjóða til herkostnaðar og varnarmála koma ekki í veg fyrir að þær fjárfesti meira í heilbrigðiskerfinu en við Íslendingar. Hvað kemur til? Er meiri metnaður þar en hér þegar kemur að heilbrigðismálum? Ég held ekki enda allir íslenskir stjórnmálaflokkar sammála um að byggja upp öflugt heilbrigðiskerfi fyrir okkur öll. Það er engin nýlunda eða ný vísindi.

Herkostnaður okkar Íslendinga er hins vegar íslenska krónan og fylgifiskar hennar. Þar með talið um 110 milljarða vaxtakostnaður ríkissjóðs. Það er sá kostnaðarliður hjá ríkissjóði sem Viðreisn vill meðal annars ráðast á í stað þess að boða stórfelldar skattahækkanir á millistéttina. Milljarðar sem færu betur í að byggja upp heilbrigðiskerfið og styrkja innviði.

Ég hjó eftir því um daginn að ráðherrum finnst erfitt þegar efnahagslegur samanburður við Færeyjar er dreginn fram. Land sem er ekkert ósvipað okkar í atvinnuháttum en með mun færri íbúa. Ætti því frekar að vera snúnara að reka ríkissjóð, hvað þá að bjóða upp á hóflegt vaxtaumhverfi og stöðugt efnahagsumhverfi.

Verðbólgan í Færeyjum hefur ekki verið eins þrálát og hér. Var um 8% fyrr á árinu en er komin niður í rúm 3% og húsnæðisvextir meira en tvöfalt lægri þar en hér. Færeyjar eru tengdar dönsku krónunni sem aftur er tengd evrunni. Þetta er sem sagt hægt að gera fyrir lítið hagkerfi. Því má spyrja sig hvaða hagsmunir það eru sem koma í veg fyrir að veita íslenskum heimilum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum skjól og jöfn tækifæri. Og af hverju má ekki skoða málið og treysta þjóðinni fyrir næstu skrefum? Það þarf ekki að kafa djúpt til að finna svarið.

Nýr gjaldmiðill kallar á aga í ríkisfjármálum

Það er hins vegar fagnaðarefni að sterkum röddum innan verkalýðshreyfingarinnar ofbýður sá veruleiki sem íslenskum heimilum og launþegum er boðið upp á. Aftur og aftur. Og vilja því skoða aðrar leiðir í gjaldmiðilsmálum. Því þetta þarf ekki að vera svona.

Það að hafa stöðugan gjaldmiðil felur í sér alvöru kjarabætur. En stöðugur gjaldmiðill kallar líka á aga í ríkisfjármálum. Miðað við rekstur ríkissjóðs síðustu ár er skiljanlegt að stjórnarflokkarnir treysti sér ekki í verkefnið. Viðreisn mun hins vegar halda áfram að halda öllum stjórnmálaflokkum við efnið. Bæði þegar kemur að rekstri ríkissjóðs og ákvörðunum um framtíðarskipulag. Því nýr gjaldmiðill og upptaka evru treystir stöðu heimila, eykur jöfnuð í samfélaginu og eflir samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Og fyrir því mun Viðreisn áfram berjast.

Höfundur er formaður Viðreisnar.

Höf.: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir