Framúrskarandi „Samspil gamans og alvöru er framúrskarandi, bæði í handriti og úrvinnslu þess á sviðinu hjá höfundi og leikstjóra,“ segir í rýni.
Framúrskarandi „Samspil gamans og alvöru er framúrskarandi, bæði í handriti og úrvinnslu þess á sviðinu hjá höfundi og leikstjóra,“ segir í rýni. — Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Borgarleikhúsið Með Guð í vasanum ★★★★· Eftir Maríu Reyndal í leikstjórn höfundar. Aðstoð við handrit og dramatúrg: Sveinn Ólafur Gunnarsson. Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir. Lýsing: Pálmi Jónsson. Hljóðmynd: Ísidór Jökull Bjarnason. Leikgervi: Elín S. Gísladóttir. Leikarar: Hjörtur Jóhann Jónsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Rakel Ýr Stefánsdóttir, Sólveig Arnarsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson. Frumsýning á Nýja sviði Borgarleikhússins föstudaginn 22. september 2023, en rýnt í 6. sýningu fimmtudaginn 12. október 2023.

Leiklist

Þorgeir

Tryggvason

Tvær snjallar grunnhugmyndir frjóvga hina kunnuglegu og einföldu sögu sem María Reyndal segir í Með Guð í vasanum. Önnur er klisja með sannleikskorni: þetta með að við séum jafngömul og við upplifum okkur sjálf. Hin er ein af grunnstoðum vestrænnar menningar: samband okkar við almættið og frelsarann. Hljómar ekki eins og uppskrift að gamanleik, en það er engu að síður útkoman. Öðrum þræði.

Hún Ásta ætlar að láta syngja hinn undurfagra sálm séra Hallgríms yfir sér; þar sem skáldið talar um að velja Krist sinn förunaut „í voða, vanda og þraut“. Því það hefur hún gert, þrátt fyrir allt sem gerst hefur sem er til þess fallið að spilla þeim persónulegu tengslum. Allt sem hefur sáð í henni efa um að heimurinn sé eins og hann kemur henni fyrir sjónir, heldur grimmari og kaldari. Sá ógnvaldur sem Ásta glímir við í gegnum verkið er einmitt af því tagi sem nánast ógerningur er að festa hendur eða hug á.

Ástu veitir ekkert af traustum liðsmanni. Lífsviljinn, sjálfsöryggið og kætin sem stýrir öllu hennar athæfi, hvort sem það er tónlistin sem flæðir um hana, adrenalínflæðið sem fæst við að hnupla servíettum eða hvernig hún vefur dóttur sinni um fingur sér af þaulæfðu áreynsluleysi, er smám saman að breytast úr styrkleika í akkillesarhæl. Hún er ekki tilbúin að trúa þeim sem reyna að opna augu hennar fyrir heilabiluninni sem smám saman rýfur samband hennar við raunveruleikann og sig sjálfa. Meðan við fylgjumst með þessari ferð inn í þokuna skýrist myndin af fortíðinni og persónunni. Sögunum sem móta hana, þungum farangri og styrknum sem hún hefur haft til að bera hann.

Þetta hljómar kannski ekki eins og uppskrift að vel heppnuðum gamanleik, en það er Með Guð í vasanum öðrum þræði. Jafnvel öðru fremur. Tónninn er léttur lengst af, textinn hnyttinn, snjallir brandarar og vel útfærðar endurtekningar einkenna efnistökin. Samspil gamans og alvöru er framúrskarandi, bæði í handriti og úrvinnslu þess á sviðinu hjá höfundi og leikstjóra. Það sem kemur í veg fyrir að sýningin springi algerlega út sem skemmtunarverk er annars vegar hin djúpa alvara sem er erindi hennar, og svo nokkuð hæg framvinda, sérstaklega framan af, sem er þó nauðsynlegt til að miðla sögu Ástu og gefa tilfinningu fyrir hvað er að gerast í lífi hennar þessi síðustu misseri. Þetta getur reynt á þolrif óþreyjufulls áhorfanda í leit að afþreyingu en virðingarvert að enginn afsláttur var gefinn. Og ekki síður gleðilegt að það skilar tilætluðum árangri.

Heiðurinn af því er ekki síst leikhópsins og þá öðrum fremur Kötlu Margrétar Þorgeirsdóttur, sem er í algeru burðarhlutverki hér. Ýmislegt sem Katla Margrét hefur gert vel nýtist við að skapa Ástu. Þessi hressa, sjarmerandi en pínu yfirgangssama kona er týpa sem við höfum oft séð hjá henni. En mikið er gaman að sjá hana virka svona vel með dramatískum hljómbotni. Útkoman er heilsteypt, sannfærandi og næm mannlýsing. Eftirtektarverður sigur.

Annar sem vinnur sigur þykir mér vera Sveinn Ólafur Gunnarsson í krefjandi hlutverki förunautar Ástu. Kraftar Sveins Ólafs hafa mér lengi þótt vera nýttir á nokkuð þröngu sviði, með góðum árangri þá. Hver yfirspennti karlinn á barmi taugaáfalls eða annars sálarhruns eftir annan hefur lifnað við í meðförum hans. Hér sjáum við á hinn bóginn lágstemmdan og mildan mann, en þó þannig að við fylgjumst spennt með hverri hreyfingu, hverju tilsvari.

Þær Kristbjörg Kjeld og Sólveig Arnarsdóttir eru síðan helstu mótspilarar Kötlu, ólíkt Sveini Ólafi sem má segja að sé meiri meðspilari. Það er kliðmjúkur kómískur dans í samleik Kristbjargar og Kötlu og sársaukinn, bugunin og væntumþykjan fléttast sérlega fallega saman í túlkun Sólveigar á dótturinni. Hjörtur Jóhann Jónsson og Rakel Ýr Stefánsdóttir skila sannfærandi smærri hlutverkum.

Allt er rétt í búningum Brynju Björnsdóttur og tjöldin í umgjörð hennar gegna sínu hlutverki við að þrengja og víkka heim Ástu eftir þörfum, með hjálp frá lýsingu Pálma Jónssonar. Nettur samtíningsbragur sem er á húsgögnum á sviðinu kemur lítið að sök, þótt þessi vandvirknislega unna og vel heppnaða sýning hefði alveg átt meiri íburð skilið. Tónlistarval og notkun hennar gegnir mikilvægu hlutverki í áhrifum sýningarinnar, ekki síður en í lífi aðalpersónunnar, kórstýrunnar fyrrverandi. Fagrir sálmar og sígræn dægurlög í bland, allt með sama ljúfsára blænum. Ísidór Jökull Bjarnason er höfundur hljóðmyndar.

Sálarástand utan alfaraleiðar hefur frá upphafi heillað leikskáld. Hvernig má gefa öðrum innsýn í líðan og heimsmynd þeirra sem hafa aðra sýn á heiminn en þorri fólks. Endastöðvar lífsins eru líka endalaust skoðunarefni leikskálda og hafa verið það allar götur frá Samuel Beckett hið minnsta.

Eftirminnilegar sýningar sem skoða hinar ólíku birtingarmyndir heilabilunar á efri árum, og áhrif þeirra á ástvini, eru þó nokkrar. Skemmst er að minnast Síðustu daga Sæunnar eftir Matthías Tryggva Haraldsson í Borgarleikhúsinu fyrir nokkrum árum og Föðurins eftir Florian Zeller í Þjóðleikhúsinu nokkru fyrr. María Reyndal getur stolt stillt sínu verki, handriti og sýningu, upp við hlið þessara. Önnur efnistök, ólík sýn. En ekki minna afrek.