Aðalbjörg Vilhjálmsdóttir (Abba) fæddist á æskuheimili sínu Svalbarðseyri á Búðum í Fáskrúðsfirði 14. maí 1948. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Fossahlíð á Seyðisfirði 15. október 2023.

Foreldrar hennar eru Erla Björgvinsdóttir, f. 26. janúar 1928, d. 22. maí 2014, hún var gift Sveinbirni Guðmundssyni, f. 1. október 1926, d. 30. maí 2020, og Vilhjálmur Sigurbjörnsson, f. 1. júní 1923, d. 28. október 1975, hann var giftur Ingu Maríu Warén, f. 29. október 1922, d. 17. maí 2005. Samfeðra eru systkinin Benedikt V. Warén, Anna Britta Vilhjálmsdóttir Warén, Valborg María Vilhjálmsdóttir, Inga Þóra Vilhjálmsdóttir, d. 5. október 2015, og Karl Friðrik Vilhjálmsson.

Eiginmaður Aðalbjargar var Snorri Hlöðversson, f. 13. maí 1944, d. 7. júní 2016. Þau eignuðust tvær dætur: Erlu, f. 22. apríl 1972, börn hennar eru María Lív Ragnarsdóttir og Oliver Snorri Ragnarsson, og Ingibjörgu, f. 12. maí 1973, eiginmaður hennar er Leifur Heiðarsson, f. 27. mars 1968, börn þeirra eru Aron Már og Kolbrún, dóttir Ingibjargar er Karen Björnsdóttir, dætur Leifs eru Berglind Rós og Tinna Karen.

Útför fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 23. október 2023, klukkan 14.

Elsku hjartans mamma Abba, amma Abba og Abba tengdamamma.

Það er dýrmætt að eyða góðum stundum saman og það gerðum við svo sannarlega. Allar stundirnar í Grímsánni þar sem barnabörnin fengu allt það góða atlæti sem þið pabbi gátuð veitt þeim með natni ykkar, væntumþykju og gleði yfir þeirra lífi. Sveitasteikin og pönnsunar toppuðu svo helgi eftir helgi. Þú varst söngelsk, unnir náttúrunni og haustin voru þinn tími í berjum og þær voru ófáar ferðirnar í móann í Grímsánni og víðar og mikið spjallað undir fjögur, já sveppamóarnir voru engu síðri. Elsku mamma, svo varst þú hrifin í burtu frá okkur þegar allt lék í lyndi og parkinsonsjúkdómurinn og alzheimerinn tóku yfir. Það er svo margt og margt. Takk fyrir allt elsku mamma, fyrir að vera þú, með einstakan karakter, einstakan húmor, einstakt viðmót sem hreif fullt af alls konar fólki á öllum aldursstigum. Takk fyrir að vera besta mamma og besta amma sem við gátum fengið já og tengdamamma, þó svo að ég hefði ekki átt að byrja með Leifi því hann átti tvær dætur! Við tölum ekkert meir um það en það var fyndið.

Þín elskandi að eilífu fjölskyldan Hörgsási 2,

Ingibjörg Snorradóttir.

Elsku mamma og amma okkar.

Við viljum byrja á því að þakka þér fyrir að vera þú, alltaf varstu tilbúin til að hjálpa okkur þegar erfiðleikar steðjuðu að, þú varst með hjarta úr gulli og gast ekkert aumt séð, mikill náttúruunnandi, snögg og hnyttin í tilsvörum, hláturmild og vinur vina þinna. Það er margs að minnast og af mörgu að taka, börnin mín eiga margar góðar minningar; allar ferðirnar austur í Grímsá í heimsókn til ömmu og afa, allar heimsóknirnar sem þú komst til okkar þar sem við nutum skemmtilegra stunda, spjölluðum og hlógum mikið eins og þér einni var lagið, fórum á kaffihús og hittum vini og ættingja.

Við elskum þig að eilífu.

Ástarkveðja!

Þín dóttir,

Erla og barnabörnin María Lív og Oliver Snorri.

Nú hefur Abba systir fengið hvíldina. Fyrir nokkru hvarf hún okkur inn í heim hins óþekkta, heim þeirra sem hljóta þann dóm að glíma við heilabilun. Það eru grimm örlög og ekki síst hjá einstaklingi sem hafði yndi af lífinu og var glaðvær og skemmtileg.

Abba var hálfsystir mín. Aldrei fékk ég nákvæma skýringu á því hvers vegna hún kom ekki inn í líf mitt fyrr en ég var kominn á unglingsár. Upphaflega vitneskju mína um Öbbu fékk ég í Gilsárteigi hjá Gunnþóru ömmu minni. Á veggnum var mynd af stúlku sem ég kannaðist ekki við og spurningu minni var svarað: „Þú veist nú að þetta er Aðalbjörg hálfsystir þín.“ Átta ára vissi ég ekki hvað hálfsystir þýddi og spurði ekki frekar. Ekki vildi ég verða uppvís að því að vera svo vitlaus að ég vissi ekki hvað „hálfsystir“ þýddi.

Það var ekki fyrr en um fermingu sem ég fékk réttu upplýsingarnar um Öbbu. Einhver var ekki að standa sig í fjölskyldunni minni. Svo liðu nokkur ár í viðbót og þegar eitt ár féll úr hjá mér í framhaldsskóla var ég heima og í vinnu. Einn daginn bauð Einar heitinn Björgvinsson mér í bíltúr og var stefnan tekin á Húsmæðraskólann á Hallormsstað. Þar með var ég kominn í „Vetrarhjálpina“, sem fólst í því að heimsækja yngismeyjar í skólanum og m.a. drífa þær á ball á Iðavöllum að því tilskildu að skila þeim á kristilegum tíma í skólann aftur. Þá kynntist ég loksins Öbbu, en hún var ein þeirra sem fengu far með okkur Einari.

Þar með hófst góð vinátta og um leið eðlileg samskipti, sem hefðu átt að hefjast mun fyrr. Samskipti okkar upp frá því urðu tíð og alltaf á góðum nótum. Abba var ávallt hress, kát og skemmtileg. Saman áttum við góðar stundir í fríi á Krít og þar fengum við leiðsögn í dansi Grikkjans Zorba. Það var gaman og mikið hlegið.

Abba bjó í Skriðdalnum og Snorri var stöðvarstjóri í Grímsárvirkjun. Abba var lengi vel ekki með bílpróf og hvatti ég hana ítrekað til að taka það. Hún þráaðist lengi við og taldi enga þörf á því, hún gæti alltaf húkkað sér far. Þó kom að því að hún lét af þrákelkni sinni og tók prófið. Hún viðurkenndi það síðar að þá hefði hún öðlast nýtt líf, að upplifa frelsið að geta ekið á súkkunni sinni þegar henni hentaði og óháð ferðavenjum annarra.

Ég kveð Öbbu systur með söknuði en þó einnig með létti, þar sem lífið lagði á hana þær þungu byrðar sem enginn ætti að þurfa að glíma við.

Við Sigga og fjölskyldan öll sendum dætrum Öbbu og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Hugur okkar er hjá þeim. Þegar við hittumst síðan í Sumarlandinu, þá dönsum við saman zorba.

Benedikt (Pelli) bróðir.

Í dag kveð ég Öbbu frænku mína eins og ég kallaði hana alltaf en við vorum systradætur.

Það var mikið lagt á Öbbu síðustu ár og sá dagur kom að hún kvaddi þessa jarðvist en það gerðist alltof fljótt.

Ein af mörgum minningum sem koma upp í huga minn er þegar ég var lítil stelpa og Abba var að koma heim til okkar, stundum til að gista en þá var hún jafnvel að fara á ball í Skrúð og stundum kom hún bara í dagsheimsókn. En þegar hún kom var glatt á hjalla þar sem Abba var þekkt fyrir sinn háa og mikla hlátur, hún einhvern veginn skellti upp úr þegar hún hló og augu hennar urðu mjög pírð um leið.

Ég man eftir einu skipti þegar hún var að fara á ball. Hún var að strauja kjólinn sinn og hárið var túberað og vel uppsett. Mér þótti hún mikil skvísa og mig minnir að kjóllinn hafi verið fölgrænn að lit. Mikið gekk á því ekki mátti mæta of seint á ballið og hún vildi ekki að við systkinin værum of mikið að þvælast fyrir henni, sem við gerðum þarna. En Abba var mjög stríðin og stundum stríddi hún okkur. En í þetta skipti vorum það við systkinin sem vorum að stríða henni og það var ekki eins gaman af hennar hálfu. Seinna skildi ég hvað við höfðum verið óþolandi þetta tiltekna kvöld þar sem hún var að fara að skemmta sér með vinum.

Ég var mjög ung er ég fór að fara í vist og vera yfir sumartíma hjá Erlu mömmu Öbbu og Sveinbirni stjúpa hennar, en þau bjuggu á Egilsstöðum. Ég var í mikilli nálægð við Öbbu og kynntist henni enn betur. Ég fékk að skoða snyrtiborðið hennar og máta það við mig. Ég fékk einkaleyfi á að nota bleika DBS-hjólið hennar og fleira í þeim dúr á meðan ég dvaldi hjá þeim.

Svo kom að því að Abba og Snorri fóru að vera saman og seinna að búa og eignuðust þau tvær dásamlegar stúlkur, Erlu og Ingibjörgu. Þau bjuggu á Eskifirði um tíma og síðan fluttu þau inn í Grímsárvirkjun og seinna út á Egilsstaði. Þegar þau bjuggu í Grímsárvirkjun komum við systkinin oft til þeirra með foreldrum okkar og þar var nú gaman að vera. En þá bjó Valborg frænka í hinu íbúðarhúsinu við Grímsárvirkjun svo það var um tvö hús að ræða til að boða komur sínar í og leika við frændsystkinin. Þegar svo Abba og Snorri fluttu seinna út á Egilsstaði þá kom ég oft til þeirra og þáði kaffibolla og nýbakaðar kökur. Þann 7. júní 2016 lést Snorri eiginmaður Öbbu.

Abba var hrókur alls fagnaðar þar sem hún var og kunni bæði að skemmta sér og öðrum.

Elsku Abba frænka, ég veit að þú svífur um af gleði þar sem þú ert núna með okkar fólki. Eins og við Ingibjörg ræddum um að þú værir komin í hnallþóruboðið mikla í Sumarlandinu.

Elsku systur, Erla og Ingibjörg, og fjölskyldur, hjartans samúðarkveðjur til ykkar og megið þið fá allan þann styrk sem þið þurfið til að vinna þetta verkefni ykkar sem fram undan er.

Einnig sendi ég öðrum fjölskyldumeðlimum og aðstandendum Öbbu innilegar samúðarkeðjur.

Hin gömlu kynni gleymast ei,

enn glóir vín á skál!

Hin gömlu kynni gleymast ei

né gömul tryggðamál.

(Árni Pálsson þýddi)

Knús og kossar,

Jóhanna frænka.

Elsku Abba, ég er svo þakklát fyrir að hafa kynnst þér og dætrum þínum þeim Erlu og Ingibjörgu þegar ég flutti sem ungur kennari austur í Hallormsstaðaskóg haustið 1982. Bros, gleði og hlýja með dálitlu af jákvæðri kaldhæðni er það sem kemur fyrst upp í hugann þegar ég hugsa um þig og dætur þínar.

Fyrstu árin mín fyrir austan fékk ég að passa stelpurnar þínar, kenna þeim og hlúa að þeim og svo tókst þú við og passaðir börnin mín og hlúðir af þeim, ekki síst með því að gefa þeim að borða með skemmtilegum orðum og hlýju viðmóti.

Það sem það var gott að sitja með þér, spjalla og hlæja dátt, góðlátlegt spjall um menn og málefni í sveitunum okkar urðu að skemmtiefni með þér.

Það að hafa starfskraft eins og þig í Hallormsstaðaskóla, þar sem nemendur bjuggu í heimavist í skólanum fimm daga í viku, var ómetanlegt fyrir börnin, foreldrana, starfsfólkið og samfélagið allt. Takk fyrir samstarfið þessi ár elsku Abba mín.

Elsku Erla og Ingibjörg, kærar þakkir fyrir lánið á henni mömmu ykkar þarna á síðustu öld, innilegar samúðarkveðjur til ykkar og fjölskyldna ykkar, megi góðar minningar um mömmu ykkar, elskuna hana Öbbu ylja ykkur í sorginni. Hún er örugglega hlæjandi og dansandi í Sumarlandinu núna með pabba ykkar, laus úr klóm erfiðs sjúkdóms.

Þessar ljóðlínur finnst mér segja það sem þarf að segja um hana Öbbu:

Með himininn í hjartanu

Himneskt

er að vera

með vorið

vistað í sálinni,

sólina

og eilíft sumar

í hjarta.

Því hamingjan

felst í því

að vera með

himininn

í hjartanu.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Jónína Rós Guðmunds-

dóttir, Nína.

Horfin er á braut kona sem okkur þótti báðum óskaplega vænt um og höfðum miklar mætur á, elsku Abba okkar. Kynni okkur hófust á Hallormsstað á níunda áratug síðustu aldar þegar Abba hóf störf á barnaheimilinu, eins og við kölluðum það. Þvílíkur fengur að fá Öbbu til að passa börnin okkar, hún var hlý, dugleg og áreiðanleg í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Glettnin skein úr augum hennar, léttleikinn var alltaf til staðar og börnin elskuðu hana frá fyrsta degi. Abba hafði líka sérstakt lag á börnum, var athugul og traust og greindi líðan þeirra betur en nokkur annar enda hafði hún einlægan áhuga á þeim. Börn okkar áttu langt fram eftir aldri alltaf skjól hjá Öbbu. Það var gott að eiga hana að, hún gaf sér tíma og mætti einstaklingnum þar sem hann var.

Abba kom síðan til vinnu við Hallormsstaðaskóla þar sem undirritaðar störfuðu. Þar sinnti hún störfum í eldhúsi og mötuneyti af kostgæfni ásamt henni Gullu okkar. Nemendur og starfsfólk skólans nutu þar afburðamatseldar og einstakrar natni sem seint gleymist. En Abba lét ekki þar við sitja heldur starfaði líka við gæslustörf sem til féllu við skólann, sem hún gerði af alúð.

Við minnumst Öbbu úr eldhúskróknum í Hallormsstaðaskóla þar sem hún lék á als oddi, léttleikinn og kímnin ávallt í fyrirrúmi og hláturinn hennar hljómar enn með okkur. Hún hafði áhuga á öllu fólki og var fljót til svara ef svo bar undir. Það var engin lognmolla í kringum Öbbu.

Margir voru þeir sem áttu hauk í horni þegar Abba var annars vegar og við nutum báðar einlægrar væntumþykju Öbbu og væntumþykja okkar var gagnkvæm. Ýmsu var gaukað að okkur svo lítið bæri á, sem dæmi má nefna listilega hekluð milliverk í sængurver. En Abba lét ekki þar við sitja heldur stóð hún fyrir því að sængurverin með milliverkunum fallegu væru saumuð hið snarasta og áður en við vissum af vorum þau komin utan um sængurnar okkar.

Við minnumst þess líka þegar við fengum forskot á sæluna með smakki á meðan á bakstri stóð í eldhúsinu í skólanum en þar nutu nú karlarnir okkar, þeir Onni og Jón, sérstakra forréttinda en þeir senda sínar innilegustu kveðjur og þakkir.

Börnin okkar hugsa til Öbbu og þakka henni alla umhyggjuna í gegnum tíðina og þau muna vel hve hress hún var. Gunnar Kristinn talar um hve gott var að koma við í eldhúsinu, taka létt spjall og hjálpa til við lítil verk eins og að læra að brjóta tómar fernur, sem hann segist enn búa að. Hann segist líka fá vatn í munninn þegar hann hugsar um sjónvarpskökuna hennar. Sigríður Eir segir: „Ég man að ég fann að hún hafði gaman af mér og henni þótti vænt um mig, það var alltaf skýrt. Ég man eftir göngutúrum með henni, þegar hún var að stríða mér að ég væri í öðruvísi fötum en venjulega og ég dæsti og sagði að pabbi hefði klætt mig. Svo man ég eftir henni í mötuneytinu og tengi alltaf sólarkaffi og bolludaginn við hana og rjóma blandaðan í royalbúðing.“

Við sendum Erlu, Ingu og fólkinu hennar Öbbu okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi minningin um einstaka konu styrkja ykkur í sorginni.

Sif og Kristín Björk.