Eldi Sveitarstjórnin kveðst ekki taka afstöðu til fiskeldis með tillögunni.
Eldi Sveitarstjórnin kveðst ekki taka afstöðu til fiskeldis með tillögunni. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Kári Freyr Kristinsson karifreyr@mbl.is Okkur fannst eðlilegt að óska eftir upplýsingum frá MAST og reyna þá að ýta við því að umsóknin fái afgreiðslu, alveg sama hvort það sé já eða nei,“ segir Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings.

Fréttaskýring

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

Okkur fannst eðlilegt að óska eftir upplýsingum frá MAST og reyna þá að ýta við því að umsóknin fái afgreiðslu, alveg sama hvort það sé já eða nei,“ segir Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings.

Sveitarstjórnin samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að fela sveitarstjóra að fara þess á leit við Matvælastofnun að niðurstaða fáist í afgreiðslu rekstrarleyfis vegna fyrirhugaðs laxeldis í Seyðisfirði.

„Í ljósi þess að það eru að tapast heilsársstörf, þá finnst okkur eðlilegt að fá niðurstöðu í það hvort það séu einhver fyrirætluð störf sem muni koma í fiskeldinu,“ segir hún, spurð hvers vegna mikilvægt þyki að fá niðurstöðu í afgreiðslu umsóknarinnar.

Síldarvinnslan tilkynnti í síðasta mánuði um lokun bolfiskvinnslu fyrirtækisins á Seyðisfirði.

„Þetta er náttúrulega umsókn sem hefur verið lengi í vinnslu og það hefur verið þannig að það tekur langan tíma að afgreiða þær,“ segir Jónína. Bendir hún á að sveitarstjórnin hafi ekki óskað sérstaklega eftir upplýsingum um stöðu á þessum málum fyrr.

„Það er alveg eðlilegt að sveitarstjórnin fái upplýsingar um alls konar svona mál,“ segir hún.

Ekki víst að af fiskeldi verði

Jónína segir það skipta máli hvort afgreiðslan taki mánuði eða nokkur ár. „Það getur alveg skipt máli fyrir okkur að vita það.“

Aðspurð segist hún ekki vita hvort Matvælastofnun bregðist við beiðni þeirra. „Ég væri afskaplega þakklát ef við gætum alla vega fengið upplýsingar um hvernig nákvæmir ferlar eru hjá Matvælastofnun og hvað er áætlað að það taki langan tíma að afgreiða slíkt.“

Spurð hvort það myndi þýða að fiskeldi yrði í Seyðisfirði, komist gangur í ferlið, segir Jónína það ekki liggja fyrir. „Það er alls ekkert víst,“ segir hún. „Í fyrsta lagi er það ekkert víst hvenær það yrði, ef það yrði.“

Skringileg bókun

Helgi Hlynur Ásgrímsson, sem situr í sveitarstjórn Múlaþings, greiddi atkvæði gegn tillögunni ásamt tveimur öðrum.

„Það skýtur mjög skökku við að allt í einu núna finnist þeim þau geta haft einhverja aðkomu að þessu,“ segir hann. Hingað til hafi svar meirihlutans verið að skipulagsvaldið sé ekki hjá þeim.

„Bókunin hjá sveitarstjórninni er líka mjög skringileg,“ segir hann.

„Hún segir eiginlega bara að við viljum að Matvælastofnun klári einhvern tímann að ákveða hvort það megi vera laxeldi í Seyðisfirði, engin flýtimeðferð í þeirri bókun,“ segir hann. Flýtimeðferðar hafi þó verið getið í bókun heimastjórnar Seyðisfjarðar, sem hafi svo farið á borð sveitarstjórnarinnar.

Hann telji að með breyttu orðalagi hafi verið reynt að milda tillöguna svo hún fengi samþykki.

Nauðsynlegt að bregðast við

Spurður hvort hann telji sveitarstjórnina eiga að ýta á eftir Matvælastofnun svarar hann því neitandi.

„Við erum á móti laxeldi í Seyðisfirði. Bæði vegna umhverfissjónarmiða og vegna þess að 75% Seyðfirðinga samkvæmt könnun leggjast gegn því,“ segir hann.

Hann kveðst þó telja nauðsynlegt að bregðast við lokun bolfiskvinnslunnar.

„Þetta gæti samt aldrei komið í staðinn [fyrir bolfiskvinnsluna],“ segir Helgi. Spurður hvers vegna segir hann ekki vitað hversu mörg störf myndu skapast og vísar einnig aftur til óánægju Seyðfirðinga.

30 manns sagt upp

Bolfiskvinnslunni lokað

Síldarvinnslan tilkynnti um miðjan september að fyrirtækið hygðist loka bolfiskvinnslu fyrirtækisins á Seyðisfirði.

Stefnt var á að loka vinnslunni 30. nóvember. Ákvörðunin var sögð hafa áhrif á 30 af 33 starfsmönnum vinnslunnar.

Fyrirtækið greindi frá því þegar ákvörðunin var kynnt að bolfiskvinnslan væri komin til ára sinna og að ráðast þyrfti í miklar framkvæmdir og fjárfestingu til að hún yrði samkeppnishæf.

Kostnaðurinn við það myndi hlaupa á hundruðum milljóna og lítil starfseining stæði ekki undir slíkri fjárfestingu.

Höf.: Kári Freyr Kristinsson