Evrópubikarinn
Gunnar Egill Daníelsson
gunnaregill@mbl.is
Afturelding og FH unnu bæði frækna sigra á andstæðingum sínum í öðrum leik liðanna í 3. umferð Evrópubikars karla í handknattleik á laugardag. Þar með tryggðu þau sér sæti í 32-liða úrslitum keppninnar.
Útlitið var nokkuð dökkt hjá báðum liðum eftir fyrri leikina og þá sér í lagi í tilfelli Aftureldingar, sem tapaði með fimm marka mun fyrir norska liðinu Nærbö ytra, 22:27, vikuna áður.
Afturelding gerði sér hins vegar lítið fyrir og vann sex marka sigur, 29:23, í síðari leiknum að Varmá á laugardag.
Magnaður endasprettur
Í síðari leiknum var Nærbö með eins marks forystu, 12:11, í leikhléi. Afturelding náði að snúa taflinu við í síðari hálfleik en átti í erfiðleikum með að slíta sig almennilega frá gestunum.
Þegar sjö mínútur voru eftir náðu Mosfellingar loks þriggja marka forystu í fyrsta sinn í leiknum, 24:21, gengu svo á lagið og komust í 27:21 og 28:22. Nærbö minnkaði muninn niður í fimm mörk, 28:23, og stefndi því allt í vítakeppni áður en Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði dramatískt síðasta mark leiksins nokkrum sekúndum fyrir leikslok og tryggði þannig Aftureldingu samanlagðan sigur, 51:50.
Þorsteinn Leó fór á kostum er hann skoraði 11 mörk fyrir Aftureldingu og var langmarkahæstur í leiknum. Jovan Kukobat varði sjö skot í markinu, oft á afar mikilvægum augnablikum.
Stórsigur í Serbíu
Útlitið var ekki eins dökkt hjá FH en liðsins beið hins vegar, að minnsta kosti fyrir fram, afar erfiður útileikur í Belgrad í Serbíu eftir að það hafði gert jafntefli við Partizan, 34:34, í Kaplakrika viku fyrr.
Skemmst er frá því að segja að FH-ingar fóru á kostum og unnu öruggan sjö marka sigur, 30:23, á laugardag.
Heimamenn í Partizan byrjuðu leikinn betur en FH náði undirtökunum þegar leið á fyrri hálfleikinn og var með tveggja marka forystu, 12:10, í hálfleik.
Um miðjan síðari hálfleik náði FH þriggja marka forystu, lét hana aldrei af hendi heldur bætti bara í og vann glæsilegan sigur, samanlagt 64:57.
Daníel skellti í lás
Daníel Freyr Andrésson átti sannkallaðan stórleik í marki FH er hann varði 15 skot og var með um 39 prósent markvörslu.
Í sókninni dreifðu leikmenn markaskorun bróðurlega á milli sín þar sem þeir Ásbjörn Friðriksson, Jakob Martin Ásgeirsson, Einar Örn Sindrason og Birgir Már Birgisson skoruðu allir fimm mörk hver fyrir Hafnfirðinga.
Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson var fjarri góðu gamni þar sem hann var að eignast barn.