Gasasvæðið Reykmökkur stígur hér upp yfir Gasaborg eftir loftárásir Ísraelsmanna á skotmörk þar í gær.
Gasasvæðið Reykmökkur stígur hér upp yfir Gasaborg eftir loftárásir Ísraelsmanna á skotmörk þar í gær. — AFP/Jack Guez
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Ísraelski flugherinn herti loftárásir sínar um helgina og réðist á skotmörk á Gasasvæðinu í gær og fyrradag. Þá gerðu Ísraelar aftur árásir á helstu flugvelli Sýrlands sem og mosku á Vesturbakkanum, sem sagt var að vígamenn hefðu lagt undir sig. Þá réðust Ísraelar á skotmörk í Líbanon á laugardaginn, sem þeir sögðu að tengdust hryðjuverkasamtökunum Hisbollah.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Ísraelski flugherinn herti loftárásir sínar um helgina og réðist á skotmörk á Gasasvæðinu í gær og fyrradag. Þá gerðu Ísraelar aftur árásir á helstu flugvelli Sýrlands sem og mosku á Vesturbakkanum, sem sagt var að vígamenn hefðu lagt undir sig. Þá réðust Ísraelar á skotmörk í Líbanon á laugardaginn, sem þeir sögðu að tengdust hryðjuverkasamtökunum Hisbollah.

Voru loftárásirnar á laugardaginn svar við árás Hisbollah-liða á ísraelska skriðdreka handan landamæranna þar sem einn ísraelskur hermaður féll, og sögðust Ísraelar m.a. hafa sprengt upp eldflaugakerfi sem skaut skriðdrekabönum.

Aukin spenna hefur ríkt við landamæri Ísraels og Líbanon frá því að hryðjuverkasamtökin Hamas gerðu árás sína á Ísrael 7. október og hefur stórskotahríð á milli Hisbollah-samtakanna og Ísraels verið daglegt brauð síðan þá.

Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels heimsótti í gær ísraelska hermenn sem gæta nú landamæranna og nýtti heimsóknina til að vara Hisbollah-samtökin við því að hefja stríð gegn Ísraelsríki. Sagði Netanjahú að það yrðu „stærstu mistök þeirra á ævinni“ og að ef Hisbollah-samtökin hæfu slíkt stríð yrði því svarað af fullu afli. „Við munum ráðast á þau með afli sem þau geta ekki einu sinni ímyndað sér, og áhrif þess á samtökin og Líbanon verða hrikaleg,“ sagði Netanjahú.

Varnarmálaráðuneyti Ísraels skipaði í gær íbúum í 14 byggðum Ísraels við landamærin að Líbanon og Sýrlandi að yfirgefa heimili sín vegna hættunnar sem fylgir skærum Ísraels við Hisbollah-samtökin.

Vara við útbreiðslu átakanna

Hossein Amir-Abdollahian utanríkisráðherra Írans varaði í gær Bandaríkjastjórn og Ísrael við því að átökin fyrir botni Miðjarðarhafs gætu farið úr böndunum og leitt til stærra stríðs í Mið-Austurlöndum ef Ísraelsmenn drægju ekki úr árásum sínum á Gasasvæðið. „Ég vara Bandaríkin og lepp þeirra [Ísrael] við að ef þeir stöðva ekki þegar glæpi gegn mannkyni og þjóðarmorð á Gasa er allt mögulegt og heimshlutinn mun fara úr böndunum,“ sagði Amir-Abdollahian á blaðamannafundi í Teheran, þar sem hann tók á móti utanríkisráðherra Suður-Afríku.

Þessi hótun Írana kom sama dag og bandaríska varnarmálaráðuneytið tilkynnti að það hefði aukið viðbúnaðarstig herja Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum og að Bandaríkjaher myndi senda þangað frekara herlið og loftvarnarkerfi.

Bandaríkjastjórn hefur einnig kallað heim þá starfsmenn sendiráðs Bandaríkjanna í Írak sem ekki eru taldir bráðnauðsynlegir til að reka sendiráðið vegna hættunnar á árásum gegn þeim.

Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði í gær að þessi ákvörðun hefði verið tekin í ljósi þess að taldar væru líkur á því að Íranar eða hryðjuverkaleppar þeirra gætu reynt að valda frekara ofbeldi í Mið-Austurlöndum. Varaði Blinken jafnframt Írana sérstaklega við því að reyna eða ýta undir frekari árásir á Ísrael eða á Bandaríkjamenn.

Bæði Blinken og Lloyd Austin varnarmálaráðherra ítrekuðu í gær að Bandaríkjamenn myndu ekki hika við að verja sig eða hagsmuni sína ef að þeim væri ráðist.

Bandarískir fjölmiðlar greindu frá því um helgina að bandarískir embættismenn teldu að Ísraelsher myndi eiga erfitt með að ráða við stríð á tvennum vígstöðvum, og að slíkt stríð gæti hæglega dregið bæði Bandaríkin og Íran til átakanna.

Eldflaug frá Gasa valdurinn

Bill Blair varnarmálaráðherra Kanada greindi frá því í gærmorgun að leyniþjónusta kanadíska hersins teldi nú verulegar líkur á því að Ísraelsher bæri enga ábyrgð á sprengingunni við al-Ahli-sjúkrahúsið í síðustu viku. Sagði í mati leyniþjónustunnar að líklegra væri að sprengingin hefði verið af völdum eldflaugar sem skotið var af Gasasvæðinu sem hefði farið af leið.

Álit leyniþjónustunnar passar við álit bæði Bandaríkjamanna og Frakka, sem einnig hafa lýst því yfir að eldflaug frá palestínskum hryðjuverkasamtökum sé líklegasti valdurinn að sprengingunni. Bandarískar leyniþjónustustofnanir telja að á bilinu 100-300 manns hafi farist í sprengingunni, og sé sú tala líklega nær 100 en 300, en Hamas-samtökin segja að 471 hafi fallið í árásinni og kennt Ísrael um.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson