Verðlækkun Ef grannt er skoðað sést á skilti Atlantsolíu á Selfossi að lítraverð á bensíni er nú 294,70 kr. og dísilolían er komin niður í 303,20 kr. á lítra.
Verðlækkun Ef grannt er skoðað sést á skilti Atlantsolíu á Selfossi að lítraverð á bensíni er nú 294,70 kr. og dísilolían er komin niður í 303,20 kr. á lítra. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is „Við lækkuðum verðið á eldsneyti á miðnætti aðfaranótt laugardags á Selfossi,“ segir Rakel Björg Guðmundsdóttir markaðsstjóri Atlantsolíu en til þessa hefur svokallað bensínsprengjuverð eingöngu verið á höfuðborgarsvæðinu í Kaplakrika og á Sprengisandi og síðan á Akureyri, en annars staðar verið afsláttarverð með bensínlykli fyrirtækisins.

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Við lækkuðum verðið á eldsneyti á miðnætti aðfaranótt laugardags á Selfossi,“ segir Rakel Björg Guðmundsdóttir markaðsstjóri Atlantsolíu en til þessa hefur svokallað bensínsprengjuverð eingöngu verið á höfuðborgarsvæðinu í Kaplakrika og á Sprengisandi og síðan á Akureyri, en annars staðar verið afsláttarverð með bensínlykli fyrirtækisins.

Koma Costco á markaðinn

Þegar Costco opnaði eldsneytissölu á Íslandi árið 2017 í Kauptúni samhliða verslunarrekstri hafði það mikil áhrif á eldsneytismarkaðinn, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, þar sem fyrirtækið fór undir verð annarra eldsneytisfyrirtækja.

„Við riðum á vaðið 2018 þegar við lækkuðum verð með bensínsprengju í Kaplakrika, fyrst allra olíufélaga. Það var svar við innkomu Costco á eldsneytismarkaðinn og svo lækkuðum við verðið líka á Sprengisandi ári seinna og síðan gerðum við það sama á Akureyrarmarkaðnum líka,“ segir hún.

„Við höfum alltaf verið fyrst allra olíufélaganna til að lækka verðið og taka þessa samkeppni, og svo hafa samkeppnisaðilar okkar verið misfljótir að svara því.“

Rakel segir að forstöðumönnum Atlantsolíu hafi fundist tími til kominn að svara kalli Suðurlands um lægra eldsneytisverð. „Það var kominn tími til að svara því kalli neytenda, en Suðurland er mjög stórt markaðssvæði og bæði hefur íbúum fjölgað mikið undanfarið á Suðurlandi og svo er mjög mikil sumarhúsabyggð þarna líka.“

Landsbyggðin hlunnfarin

Rakel segir að fyrirtækið hafi orðið vart við að íbúum á landsbyggðinni finnist þeir iðulega vera hlunnfarnir þegar kemur að verðlækkunum sem hafa verið meiri á höfuðborgarsvæðinu.

Það sé rökrétt framhald í stefnu fyrirtækisins að koma til móts við landsbyggðina á Suðurlandi, þrátt fyrir að þar sé ekki eldsneytissala á vegum Costco eins og bæði er á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri.

Mikil umferð hefur verið á bensínstöð Atlantsolíu frá lækkuninni aðfaranótt laugardags, en Rakel kvaðst ekki hafa beinar sölutölur fyrir framan sig þegar rætt var við hana í gær. „En við finnum mikinn meðbyr á Suðurlandi, enda er þetta allra hagur á þessu stóra umferðarsvæði, að fá besta verðið.“

Samkeppnin virðist virkjast

Viðskiptavinir Atlantsolíu fá áfram afslátt af eldsneyti með dælulykli á öllum öðrum stöðvum Atlantsolíu, segir Rakel, en í Kaplakrika, á Sprengisandi, Baldursnesi og Selfossi munu allir fá sama lága eldsneytisverðið, án afsláttar.

Á laugardag var Orkan á Selfossi búin að fylgja í fótspor Atlantsolíu og lækka eldsneytisverð, svo samkeppnin virðist hafa virkjast neytendum til hagsbóta á Suðurlandi.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir