Gunnlaugur Snædal fæddist 17. júní árið 1959. Hann lést 6. október 2023. Útför fór fram 19. október 2023.

Kær bróðir minn, Gulli, er farinn frá okkur. Þetta er óraunveruleg staðreynd.

Einkenni hans voru skilyrðislaus ást til eiginkonu sinnar Soffíu og barna þeirra, Kára, Arnars og Bertu, og barnabarna, sem ber ríkulegan ávöxt, svo og skyldurækni og vandvirkni.

Gulli og Soffía komu sér upp fallegu heimili sem var þeim til sóma.

Sem örverpi foreldra okkar var hann að sjálfsögðu gullmolinn í fjölskyldunni, en seinna meir áttuðum við eldri bræður okkur á því að það vorum við líka.

Vegna aldursmunar var nokkurt þroskabil á milli okkar bræðra, hann fæddur 17. júní 1959, undirritaður 17. september 1951 og Jón bróðir okkar 17. mars 1950, þannig að talan 17 var okkar eins konar sameining.

Ég kveð nú kæran bróður, langar ræður og rit er ekki ég.

Mér þótti og þykir afskaplega vænt um þig, Gulli, megir þú njóta umhyggju þinnar og virðingar fyrir fjölskyldu, vinum og vinnufélögum til áratuga sem innleggs í bjarta framtíð á nýjum vettvangi.

Kær kveðja, kæri bróðir.

Kristján Snædal.

Ég náði ekki að kveðja þig. Fékk sms, þú varst ánægður að vera byrjaður að vinna! Ég svaraði ekki sms-inu, fyrirgefðu. Ég sakna þín, elsku Gulli minn. Mér finnst það ósanngjarnt að svona góður og traustur vinur sé tekinn, án leyfis. Þú áttir margt ógert, þú þessi góði pabbi, yndislegi afi og vinur.

Þú tókst svo vel á móti mér, nýbyrjuðum og rennblautum á bak við eyrun, þegar ég mætti að „tæmkóda“ hjá þér uppi á tæknigólfi á Lynghálsinum. Já, þar stigum við okkar fyrstu vináttuspor sem hafa verið djúp og traust alla tíð síðan. Allar útsendingarnar, öll ferðalögin vítt og breitt um landið! Svo ekki sé talað um alla fréttalinkana. Það vita það ekki allir en þegar stöðin var í fyrstu beinu fréttaútsendingunni frá Eyjafjallagosinu var það allt þér að þakka! Því með krafti, baráttu, elju og smá aðstoð frá Neyðarlínunni var þér komið upp á Þórólfsfell til að taka á móti sjónvarpsmerkinu, tengja inn á ljósleiðarann, í bæinn og heim í stofu. Þú skiptir máli.

Ég á þér mikið að þakka, elsku Gulli. Vináttan og kærleikurinn sem þú gafst af þér til mín vitandi mína sögu. Þú tókst utan um mig og passaðir eins og ég væri sonur þinn. Þegar fleiri áföll dundu yfir komst þú inn í leikinn og gættir hagsmuna minna. Í slysinu varstu ekki sáttur við viðbrögð annarra óvandaðra manna, skarst í leikinn, miðlaðir málum og passaðir upp á Jóann þinn. Það er þér að þakka að stórum hluta að ég vann málið. Þér var ekki sama um náungann og passaðir þína. Þú varst réttsýnn, ákveðinn og svo áhugasamur um mitt líf. Spurðir alltaf út í börnin okkar. Þú hafðir alltaf sterkar skoðanir á þeim bílum sem ég átti! Gleði þín var mikil og skein björt þegar þú vissir að ég hefði fest kaup á Volvo.

Komst svo óvænt í heimsókn í húsið okkar, ég að smíðast. Heyrnartólin í botni og allt í einu mætti ég þér í stiganum, við föðmuðumst vinirnir.

Við Borghildur mín giftum okkur á afmælisdaginn þinn. Þú varst þar með Soffíu þinni. Þú hélst ræðu. Þú fluttir ræðuna eins og þú værir að tala fyrir pabba minn, þú varst pínu pabbi minn. Gulli, þú varst svo góður maður og verður minnst þannig. Takk fyrir vináttuna, bið að heilsa hinum sem þú færð nú að kynnast og ræða málin yfir tesopa. Elsku Berta, Arnar, Kári og Soffía, ég votta ykkur mína dýpstu hluttekningu. Minning um Gulla lifir í hjörtum okkar.

Loks er dagsins önn á enda

úti birtan dvín.

Byrgðu fyrir blökkum skugga

björtu augun þín.

Ég skal þerra tár þíns trega,

tendra falinn eld,

svo við getum saman vinur

syrgt og glaðst í kveld.

Lífið hefur hendur kaldar,

hjartaljúfur minn.

Allir bera sorg í sefa,

sárin blæða inn.

Tárin fall heit í hljóði,

heimur ei þau sér.

Sofna vinur, svefnljóð

meðan syng ég yfir þér

Þreyttir hvílast, þögla nóttin

þaggar dagsins kvein.

Felur brátt í faðmi sínum

fagureygðan svein.

Eins og hljóður engill friðar

yfir jörðu fer.

Sof þú væran, vinur,

ég skal vaka yfir þér.

(Kristján frá Djúpalæk)

Þinn vinur,

Jóhann Bj.

Gunnlaugur Snædal var félagi okkar á skemmtilegasta tíma lífsins. Hann er nú fallinn frá. Frá menntaskólaárunum og árunum eftir það eru til margar myndir. Gulli er með á mörgum þeirra. Hann er þar brosandi í sínum hópi eða bara með ótrúlegum gáska einn á mynd. Fyrir okkur sem þekktum hann þarna og síðan eru minningar okkar bundnar þessum myndum, enda eru yfir 40 ár síðan. Við kynntumst honum sem leiðtoga, hann var ritstjóri skólablaðsins í MH með nokkra okkar í ritnefnd og svo forseti nemendafélagsins. Þetta var vinna sem var leikur og leikur sem var vinna og engin ástæða til að skilja þar á milli. Þessi hópur stráka sem höfðu fundið hver annan frá fyrstu tíð í skólanum hélt saman, við fundum að heildin var stærri en einstaklingarnir. Síðar stækkaði hópurinn þegar að útskrift kom og bárum við, strákar og stelpur, gæfu til að eiga frábærlega skemmtilega tíma á mótunarárum okkar þá og síðar.

Í dag, öllum þessum árum síðar, skoðum við myndirnar og bætum í eyðurnar á milli þeirra. Það er sama hvar borið er niður, það er allt mannbætandi og gott. Gulli er þar í öndvegi og verður það alltaf þótt hann sé horfinn af sjónarsviðinu, fyrstur af hópnum. Nú er okkur efst í huga þakklæti fyrir góðan vin og félaga sem kvaddi allt of snemma. Guð blessi ástvini hans, styðji þau og styrki í sinni miklu sorg.

Baldur Tumi
Baldursson.