Jón Ragnar Sigurjónsson fæddist 17. apríl 1927. Hann lést 8. október 2023.
Útför Jóns fór fram 20. október 2023.
Það er erfitt en jafnframt gott að setjast niður og rifja upp allar þær fjölmörgu stundir sem við áttum saman. Allt frá því að ég fæddist voruð þið Ásta svo stór partur af mínu lífi og ykkar heimili var mitt fyrsta heimili þar sem húsið okkar var ekki tilbúið. Þegar ég var lítil spurði mamma mig hvað við ættum að gefa þér í afmælisgjöf, ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um: Rúsínur! Því það var það besta sem ég fékk hjá ykkur. Þið Ásta voruð svo dugleg að taka mig með ykkur þegar þið fóruð í sund og svo var auðvitað alltaf ís á eftir.
Ég minnist þess líka að þú varst göldróttur, allir spilagaldrarnir sem þú lagðir fyrir mig voru svo ótrúlegir og svo toppaðir þú það alveg þegar þér tókst alltaf að galdra fram ís í frystinum uppi á efri hæðinni í Barmahlíðinni.
Þú varst svo fróður og áhugasamur um alla hluti og skipti ekki máli hvort ég var að ferðast um heiminn eða skrá mig í skóla, alltaf sýndir þú því mikinn áhuga og var umhugað um hvernig mér gengi.
Fagrar stundir fengum, vinur,
frá oss enginn tekur þær.
Hvað sem yfir okkur dynur
æ þín minning lýsir kær.
(D. Gests.)
Takk fyrir allar þessar góðu og fallegu minningar, elsku yndislegi Nonni.
Þín
María Lovísa.
Nonni frændi, það var nafnið í okkar heimi, alltaf frænda-nafnbótin eða Nonni lagari. Hann gat lagað allt fyrir okkur krakkana. Hann var móðurbróðir okkar, stærðfræðihausinn í fjölskyldunni.
Það er eins og að Nonni frændi hafi fæðst með tækniþekkingu. Hann var stöðugt að ná sér í fróðleik. Í vikunni þegar hann dó 96 ára var hann að vinna við excel-skjal og fékk sonardóttur sína til þess að skerpa á nýrri formúlu sem hann var að vinna við.
Á unglingsárunum fór Nonni að vinna við tunnuþvott hjá Olíuverzlun Íslands. Hann var fljótt munstraður inn á bifreiðaverkstæðið hjá fyrirtækinu og fór að gera við trukkana. Næsta árið, kominn með bílpróf, var hann settur á vörubíl sem flutti rauðamöl úr Rauðhólum. Þegar Nonni mætti í sumarvinnuna síðasta árið var komið verkfall og enga vinnu að fá. Eyjólfur Jónsson afabróðir var skipstjóri. Hann bað Nonna að koma á síld með sér. Guðjón vantaði aðstoðarvélstjóra. Svo forfallaðist vélstjórinn og Nonni varð vélstjórinn á bátnum og kláraði sumarvertíðina með glans. Kornungur og próflaus.
Hann var tæknisinnaður, músíkalskur náttúruunnandi og átti mörg áhugamál.
Hann var fyrsti maðurinn sem við vissum til að ætti tölvu og kynnti fyrir okkur ritvinnslu í HP-tölvunni sinni á skrifstofunni um 1980.
Hann var í Jöklarannsóknafélaginu og hélt myndakvöld þar sem hann sýndi fjölskyldunni veröld Vatnajökuls, en þangað fór hann ótal ferðir. Eflaust hefur hann gripið gítarinn með í þessar ferðir á snjóbílunum. Nonni frændi var viðskiptafræðingur og vann alla tíð við fagið, en auðvitað tók hann samt meirapróf eftir háskólann og stakk sér svo inn sem rútubílstjóri hjá Ferðafélaginu þegar hann fann hjá sér þörfina til að halda upp á hálendið.
Þegar hann var um miðjan aldur kynnti hann Ástu fyrir fjölskyldunni. Hún var ástin í lífi hans og mikill happafengur fyrir okkur öll. Við áttuðum okkur strax á því hversu miklum mannkostum hún er gædd. Mikill kraftur fylgir henni Ástu frænku. Þau voru samhentir jafningjar og það er gaman að segja frá því að það eru ekki nema rúmlega tíu ár síðan þau fóru hringinn með tjaldið í skottinu. Þau gerðu allt saman, fóru í sund, gönguferðir, utanlandsferðir, á tónleika og í heimsóknir til vina og vandamanna. Okkur fjölskylduna grunar að hann hafi séð Ástu fyrst á hálendinu í þessum ferðum á fjöllum. Glæsilegt heimili þeirra var fullt af hljóðfærum. Alls konar strengjahljóðfæri og svo auðvitað orgelið sem hann spilaði á af mikilli list.
Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni. Báðir strákarnir hans, þeir Karl Sævar og Sigurjón Rúnar, hafa erft ríkulega frá pabba sínum tónlistar- og tæknihæfileikana.
Lítill eins árs sólargeisli, hún Sóldís langafastelpa, heimsótti þau um daginn frá Danmörku, hún er dóttir Nönnu Láru Sigurjónsdóttur. Þær mæðgur voru með honum síðustu vikuna. Morguninn sem þær flugu til baka lést Nonni frændi í svefni á heimili sínu og Ástu. Eins og Ásta orðaði það: Hann flaug út með langafastelpunni.
Hvíldu í friði, kæri frændi.
Þínar systurdætur,
Jakobína (Edda Bína),
Hulda og Sigrún.
Þá fann ég, hvað jörðin er fögur og
mild
þá fann ég, að sólin er moldinni skyld,
fannst guð hafa letrað sín lög og
sinn dóm
með logandi geislum á strá og blóm.
Allt bergði af loftsins blikandi skál.
Allt blessaði lífið af hjarta og sál.
Jafnvel moldin fékk mál.
(Davíð Stefánsson)
Jón Ragnar frændi minn var réttum tíu árum eldri en ég og ég minnist hans fyrst þegar hann bar mig í fanginu frá hálslækni út í bíl og inn í rúm á Stórholtinu þegar ég var sendur í kirtlatöku átta ára gamall og mátti hvorki drekka né tala í heilan sólarhring. Líklega hefur hið síðarnefnda verið mér afar þungbært. Jón hafði líka forystuna þegar við frændsystkinin, nokkrum dögum eftir þagnarbindindi mitt, fengum brauðhleif hjá Guðrúnu frænku (móðursystur minni og móður Jóns) til þess að gefa öndunum á Tjörninni. Ég hafði aldrei smakkað bakarísbrauð fyrr á stuttri ævi minni í sveitinni og komst að því í ljósaskiptunum niðri við Tjörn hvað það var ljúffengt og framandi. Hauströkkrið þetta kvöld skýldi hver át megnið af andabrauðinu mínu.
Það var líka Jón frændi sem fór með mig, í þessari sömu og fyrstu höfuðstaðarferð minni, niður Stórholtið inn á Laugaveg og niður tvær tröppur þar á einhverju húsi, inn í sælgætisbúð þar sem hann gaf hann mér það albesta sem ég hafði þá á ævinni smakkað – rjómaís. Þvílíkt bragð! Eini ísinn annar sem ég hafði þá étið var klaki af bæjarlæknum heima. Síðar fór Jón frændi líka með mig eitt kvöldið upp á háaloft í Stórholtinu og lofaði mér að kíkja út um þakgluggann þegar bærinn ljómaði af rafljósum. Heima sá ég bara tírur á kvöldin frá nokkrum nágrannabæjum, enda var þetta löngu fyrir almenna rafvæðingu í sveitinni minni.
Ég dáðist að Jóni frænda mínum þegar hann, einn fárra sem ég þá þekkti í stórfjölskyldunni, ákvað að ganga menntaveginn. Hann var fljúgandi málamaður og ótrúlega tæknisinnaður og var a.m.k. 20 árum á undan sinni samtíð að skilja og nýta sér tölvutæknina. Sú saga gekk í sveitinni minni að stundum leituðu varnarliðsmenn til hans til að hjálpa þeim suður á Keflavíkurflugvelli við tölvuvandamál. Jón var afar fjölhæfur, m.a. svo músíkalskur að á samkomum settist hann oft við tilfallandi hljóðfæri og hélt uppi viðeigandi stemningu. Ég minnist þess einnig í Stórholtinu þegar ég unglingur og hann ungur maður vorum ásamt fleirum að hlusta á þætti í kanasjónvarpinu, þá hló hann dátt að bröndurunum þegar ég skildi ekki neitt.
Við hjónin vottum Ástu, hans yndislegu sambýliskonu, sonum, afabörnum og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúð.
Sigurður Óskarsson
og Eygló.
Við fráfall vinar míns Jóns R. Sigurjónssonar er margs að minnast og þakka. Við höfðum þekkst í nærfellt hálfa öld og vorum nánir samstarfsmenn alla tíð. Jón var þannig gerður að vera í senn vinnusamur með afbrigðum og vinsæll meðal samferðafólks. Kynni okkar hófust árið 1975 þegar ég var ráðinn framkvæmdastjóri SAL, Sambands almennra lífeyrissjóða. Mér var bent á að hafa þá þegar samband við Jón R. Sigurjónsson viðskiptafræðing og framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs byggingamanna. Jón væri hafsjór af fróðleik um starfsemi og rekstur lífeyrissjóða og til hans væri gott að leita.
Þegar ég rifja upp kynni okkar Jóns minnist ég þess ekki að við höfum verið ósammála um þau mál sem við í sameiningu unnum að. Það lýsir Jóni vel, hann var í orðsins fyllstu merkingu góður maður. Slík voru eftirmæli samstarfsfélaga Jóns sem ég ræddi við eftir fráfall hans. Þegar Samband almennra lífeyrissjóða vann að stofnun Reiknistofu lífeyrissjóða var hann svo sannarlega fremstur meðal jafninga með þeirri tölvukunnáttu sem hann hafði þá þegar áunnið sér. Minnist ég sérstaklega undirbúningsferða okkar til Danmerkur með þremur öðrum góðum félögum, sem nú eru allir látnir.
Í vor sem leið átti ég þess kost að ræða við Jón um aðdraganda að stofnun Reiknistofu lífeyrissjóða og sameiginlega hugbúnaðargerð og tölvukaup lífeyrissjóðanna á níunda áratug síðustu aldar. Þrátt fyrir háan aldur var minni Jóns óbrigðult. Ég þakka forsjóninni fyrir þessa kvöldstund með Jóni og nokkrum samstarfsfélögum okkar og mökum. Sú stund mun ekki líða mér úr minni. Þegar ég lít yfir farinn veg verður ekki hjá því komist að minnast samstarfsfélaga á þessum árum sem nú eru ekki lengur meðal okkar og ósjálfrátt kom þá mér í hug þessi hending Bólu-Hjálmars „Mínir vinir fara fjöld“.
Það var mikið lán fyrir Ástu og Jón að vegir þeirra lágu saman. Þau voru samhent og ferðuðust víða hér innanlands og erlendis og kem ég þá að einum besta þætti í fari vinar míns en það var hversu barngóður hann var alla tíð.
Að leiðarlokum viljum við Kristín færa Ástu og nánustu fjölskyldu Jóns okkar innilegustu samúðarkveðjur en minningin um góðan dreng í orðsins fyllstu merkingu mun lifa í huga okkar.
Hrafn Magnússon.
Kveðja frá Lionsklúbbnum Frey
Í dag kveðjum við okkar elsta félaga, Jón R. Sigurjónsson.
Jón var einn af stofnendum Freys árið 1968 og starfaði í klúbbnum í 55 ár. Hann var formaður klúbbsins í eitt ár og gjaldkeri í tvö. Hann sat í félaganefnd, ferðanefnd, landgræðslunefnd, skemmtinefnd og var heimildaritari í eitt ár. Þá lagði hann fram merkingarskrár yfir vegaslóða og ár auk þess sem hann sat í vegprestanefnd til margra ára. Á þeim tíma tók klúbburinn að sér að merkja hálendisslóða sem þá voru ómerktir og síðar allar ár sem einnig voru margar ómerktar. Jón tók þátt í flestum þessara ferða og var þar fremstur í flokki.
Jón vann hin ýmsu störf í gegnum árin, var fljótur að tileinka sér tölvutæknina og var vel að sér í þeim efnum. Jón var gjarnan kallaður fræðingurinn í hópi félaga og voru það orð að sönnu því oft var leitað til hans með ýmislegt tæknilegt.
Jón mætti vel á fundi klúbbsins allt fram til síðasta dags.
Að leiðarlokum viljum við félagarnir þakka Jóni fyrir störf hans í þágu Lionsklúbbsins Freys. Hans verður sárt saknað.
Fjölskyldu hans sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Magnús Tryggvason.