Levíatan Borpallur yfir stóru gaslindinni undan ströndum Ísraels.
Levíatan Borpallur yfir stóru gaslindinni undan ströndum Ísraels. — AFP
Sífellt harðari átök Ísraels og hryðjuverkasamtakanna Hamas gætu reynt enn meira á flæði olíu og gass um heiminn, sem þegar hefur mátt þola skerðingar eftir…

Sífellt harðari átök Ísraels og hryðjuverkasamtakanna Hamas gætu reynt enn meira á flæði olíu og gass um heiminn, sem þegar hefur mátt þola skerðingar eftir innrás Rússlands í Úkraínu í fyrra. Sérfræðingar á olíumörkuðum vara nú við þessu.

Hækkanir á olíuverði, eftir að átökin brutust út í kjölfar fjöldamorðs Hamas-samtakanna í Ísrael þann 7. október, hafa þó til þessa þótt tiltölulega óverulegar.

Virði Brent-olíunnar, sem horft er til í Evrópu, hefur aukist um 10 prósent, og olíuverð hefur hækkað aðeins litlu minna í Bandaríkjunum. Er olíutunna nú metin á um 90 bandaríkjadali og er verðið því enn nokkuð fjarri sögulegum hæðum.

Fjárfestar meðvitaðir

„Ísrael er ekki olíuframleiðandi og engir stórir alþjóðlegir olíuinnviðir eru nærri Gasasvæðinu eða suðurhluta Ísraels,“ segir Edoardo Campanella, greinandi hjá stórbankanum UniCredit, við fréttastofu AFP.

Eftir sem áður eru fjárfestar meðvitaðir „um þá innbyggðu hættu sem olíubirgðum heimsins stafar af púðurtunnunni í Mið-Austurlöndum. Þess vegna hafa þeir verið að stinga sér ofan í samninga, sem flækja svo frekar málin,“ segir greinandinn Stephen Innes.

Yfir vofir sú hætta að stjórnvöld í Íran, sem styðja Hamas leynt og ljóst og hafa lýst sig svarinn óvin Ísraels, dragist inn í átökin með beinni hætti en nú er. Rati heimshlutinn á þá refilstigu er voðinn vís fyrir alþjóðaorkumarkaðinn.

Sjá í gegnum fingur sér

Framleiðslan í Íran og útflutningur þaðan hefur borið skarðan hlut frá borði eftir áralangar efnahagsþvinganir sem landið hefur verið beitt. Íran hefur þó aukið framleiðslu sína á undanförnu ári og eru stjórnvöld í Teheran grunuð um að lauma olíu úr landinu og út á markaðinn.

Olíuverð á heimsvísu hefur af þessum sökum hækkað minna en ella, þrátt fyrir vaxandi eftirspurn og takmarkaðar birgðir, og hefur ríkisstjórn Joes Bidens Bandaríkjaforseta því ákveðið að sjá í gegnum fingur sér hvað þetta varðar, að mati Helge André Martinsen, greinanda hjá DNB.

Og jafnvel þótt klerkarnir í Teheran velji að forðast átökin, „þá gætu Vesturlönd ákveðið að herða efnahagsþvinganir gegn landinu eða að einfaldlega fylgja gildandi þvingunum betur eftir“, segir Campanella.

Íranar gætu svarað með því að hindra siglingar um Hormússund, mikilvægasta olíuflutningasvæði heimsins, þar sem um fer á degi hverjum meira en sem nemur 17 milljónum olíutunna, eða tæpur þriðjungur þeirra olíuflutninga sem fram fara um höfin.

Aðeins Sádi-Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa komið sér upp olíulögnum til að fara fram hjá Hormússundi þegar hráolía er flutt út fyrir Persaflóann, útskýrir Campanella.

Ólíkleg en ekki óumflýjanleg

Versta mögulega sviðsmyndin, sem þykir ólíkleg en ekki með öllu óumflýjanleg að sögn skýrenda, felst í hertum efnahagsþvingunum sem myndu knýja Íran til að svara með árásum á olíuinnviði í Sádi-Arabíu, einn stærsta framleiðanda og útflytjanda olíu í heiminum.

Árásir á slíka innviði í september árið 2019, sem jemenskir uppreisnarmenn úr röðum Húta lýstu á hendur sér, ollu því að olíuframleiðsla í Sádi-Arabíu dróst saman um helming. Verð á Brent-olíu hækkaði í kjölfarið um nærri tuttugu prósent á einum degi.

Sérfræðingar minnast fyrri áfalla sem dunið hafa yfir olíumarkaðinn, til að mynda viðskiptabanns OPEC-ríkjanna gegn bandamönnum Ísraels í miðju Jom kippúr-stríðinu fyrir fimmtíu árum, og svo aftur eftir byltinguna í Íran árið 1979.

Verð á hráolíu hækkaði til muna á nokkrum mánuðum svo að atvinnulíf riðaði víða í þróuðum löndum.

Ógnar markaði með jarðgas

En sömu lönd þykja nú ekki eins viðkvæm og þá, í ljósi þess að Bandaríkjunum hefur vaxið ásmegin sem olíuframleiðanda og OPEC-bandalagið kveðst ekki stjórnast af pólitík að sama ráði.

Á mörkuðum með gas yrðu átökin sneggri til að segja til sín. Svokallað TTF-gasverð, sem Evrópa miðar við, hækkaði um þriðjung eftir árásina 7. október.

Styrjöldin sem nú ríkir „ógnar alvarlega markaði með jarðgas í heimshlutanum og gæti haft áhrif á LNG-gasmarkaðinn í Evrópu þegar veturinn færist yfir“, segir Innes, en LNG er skammstöfun á ensku fyrir jarðgas í vökvaformi, sem yfirleitt er þannig flutt yfir heimshöfin.

„Þó að gasbirgðir í Evrópu séu nánast fullar þá eru þær ekki nægilega miklar til að komast í gegnum veturinn ef allur innflutningur stöðvast,“ segir greinandinn Giovanni Staunovo hjá UBS.

Bandaríski olíu- og gasrisinn Chevron hefur hætt vinnslu á Tamar-borpallinum, undan ströndum Ísraels, eftir að stjórnvöld þar skipuðu svo fyrir. Gaslindin þar stendur undir um 1,5% af framleiðslu LNG-gass í heiminum. Gagnast framleiðslan aðallega heimamarkaði, auk Egyptalands og Jórdaníu.

Öðru máli gegnir um Levíatan, stærstu gaslind Ísraels. Fari svo að framleiðsla þar leggist niður yrðu afleiðingarnar mun alvarlegri.