Vinda þarf ofan af og hætta gullhúðaðri innleiðingu EES-gerða

Rétt fyrir lyklaskipti ráðherra á dögunum greindi utanríkisráðuneytið frá því að utanríkisráðherra hygðist skipa starfshóp „til að meta umfang gullhúðunar EES-gerða og leggja til tillögur að úrbótum“. Í tilkynningu ráðuneytisins sagði að athugasemdir og dæmi hefðu komið fram um að þessar sendingar frá Brussel væru innleiddar með „svokallaðri gullhúðun“. Þetta vilja sumir reyndar nefna blýhúðun sem á jafnvel betur við, en þar sem gull er eðlisþyngra en blý er ekki með öllu fráleitt að kenna þetta við eðalmálminn.

Með gullhúðun er átt við þann leiða sið, sem telja má að sé töluvert útbreiddur hér á landi, að lauma viðbótarákvæðum inn í regluverkið frá Brussel sem innleitt er vegna EES-samningsins, eins og það sé ekki nógu íþyngjandi fyrir. Og full ástæða er til að tala um að lauma íþyngjandi viðbótarákvæðum inn, því að mikill misbrestur er á að þingið sé upplýst um þetta þegar það fær sendingar frá Brussel í gegnum íslensku ráðuneytin og setur sig í stimpilpúðastellingarnar.

Fráfarandi ráðherra lét hafa eftir sér, þegar tilkynnt var um að starfshópurinn yrði skipaður, að gullhúðun legði í senn byrðar á atvinnulífið og gæti grafið undan trausti á EES-samningnum til lengri tíma litið. „Nauðsynlegt er að gera úttekt á þeim tilvikum þar sem gullhúðun hefur komið upp og greina umfang hennar og til hvaða úrbóta sé hægt að grípa í einstökum tilvikum og bæta verklag. Eðli málsins samkvæmt er mikilvægt að slík úttekt verði unnin með aðkomu atvinnulífsins og óháðra sérfræðinga, enda þótt stjórnsýslan þurfi að styðja við slíka vinnu,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra af þessu tilefni.

Eðli máls samkvæmt er fráfarandi utanríkisráðherra ekki í stöðu til að fylgja þessu eftir í því ráðuneyti, en ýmsar þessara EES-gerða eiga leið í gegnum fjármála- og efnahagsráðuneytið, auk þess sem sá ráðherra er í aðstöðu til að greina kostnað sem hlýst af nýrri lagasetningu og hafa áhrif í gegnum það þýðingarmikla ráðuneyti.

Meira máli skiptir þó að nýr utanríkisráðherra, Bjarni Benediktsson, hefur lýst þeirri skoðun sinni að mikilvægt sé að vinna að úrbótum í þessum efnum. Hann hyggst halda áfram með það sem forveri hans setti af stað, að meta umfang gullhúðunarinnar og gera tillögur að úrbótum. Bjarni sagði í samtali við mbl.is um helgina að verkefnið væri gríðarstórt og erfitt að greiða úr eða greina hverja einustu innleiðingu til að átta sig á hvar vikið hefði verið frá upphaflegum texta, enda hefði EES-samningurinn verið í gildi hér á landi frá árinu 1994.

Eins og nýr utanríkisráðherra ræðir um þetta telur hann að skoða verði stærri tilvik af þessu tagi sem þegar hafa verið innleidd hér á landi og svo verði að horfa fram á veginn og tryggja gagnsæi í innleiðingarferlinu til framtíðar, en það hlýtur að fela í sér að skilmerkilega verði gerð grein fyrir því hvað þurfi að lágmarki til að innleiða EES-gerð og svo færð rök fyrir því verði þingið beðið um að ganga lengra.

Bjarni segir að þegar búið sé að bæta við þáttum sem hafi ekki bein tengsl við Evrópugerðina sé „verið að nota ferðina“. Og hann bætir við að því miður hafi oft sést „frumvörp þar sem til dæmis segir að meginefni frumvarpsins sé innleiðing á Evrópureglugerð, en ekki mikið lagt á sig til að gera greinarmun á því sem er hrein Evrópugerðarinnleiðing og því sem fylgdi með, fyrst verið var að hrófla við viðkomandi löggjöf.“

Óhætt er að taka undir með nýjum utanríkisráðherra að þarna er uppsafnaður vandi á ferðum sem brýnt er að taka á. Hætt er við, eins og ráðherra virðist gera sér grein fyrir, að vegna umfangs verksins geti það tafist og skilað litlu á endanum. Það má ekki gerast. Þau dæmi sem nefnd hafa verið um of íþyngjandi regluverk eru mörg og á þeim þarf að taka. Markmiðið ætti að vera að hreinsa slíkt út úr löggjöfinni og þá vinnu má hefja þegar í stað um einstök tilvik þó að starfshópur hafi ekki skilað mati sínu. Slík vinna ætti ekki að þurfa að vera óhóflega umfangsmikil um einstök tilvik sé vilji til staðar innan ráðuneyta og Alþingis.

Hitt er svo enn mikilvægara að búa þannig um hnúta að hér eftir verði þinginu ekki boðið upp á að stimpla gullhúðaðar EES-gerðir, en verði það gert þá sé það með svo skýrum hætti að enginn þurfi að velkjast í vafa.