Hilmar Smári Henningsson lék afar vel fyrir Bremerhaven þegar liðið hafði betur gegn Artland í þýsku B-deildinni í körfuknattleik á laugardag. Hilmar skoraði 16 stig, tók þrjú fráköst og gaf þrjár stoðsendingar á 28 mínútum. Var hann næststigahæstur í leiknum. Um fyrsta sigur Bremerhaven á tímabilinu var að ræða, þar sem liðið er í 15. sæti af 18 liðum eftir fjórar umferðir.
Ómar Ingi Magnússon, landsliðsmaður í handknattleik, lét vel til sín taka þegar Magdeburg vann góðan útisigur á Stuttgart, 31:25, í 10. umferð þýsku 1. deildarinnar í gær. Ómar var næstmarkahæstur í liði Magdeburgar með fimm mörk. Liðsfélagi hans Janus Daði Smárason bætti við tveimur mörkum en Gísli Þorgeir Kristjánsson lék ekki vegna meiðsla. Magdeburg er í 2. sæti deildarinnar með 17 stig, þremur á eftir toppliði Füchse Berlínar.
Bjarni Jóhannsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Selfoss í knattspyrnu. Hann tekur við starfinu af Dean Martin, sem sagði starfi sínu lausu eftir að Selfoss féll úr 1. deildinni á nýafstöðnu tímabili. Bjarni, sem er 65 ára gamall, er þaulreyndur þjálfari og skrifaði undir tveggja ára samning á Selfossi. Fær hann það hlutverk að koma Selfyssingum rakleitt upp úr 2. deild og í 1. deildina að nýju.
Isabella Ósk Sigurðardóttir, landsliðskona í körfuknattleik, átti stórleik fyrir Panserraikos þegar liðið gjörsigraði Anagennisi, 75:37, á útivelli í grísku B-deildinni í gær. Isabella skoraði 18 stig fyrir Panserraikos.
Lærisveinar Dags Sigurðssonar í Japan tryggðu sér sæti í undanúrslitum undankeppni Asíu fyrir Ólympíuleikana í París á næsta ári með tveimur sigrum í B-riðli keppninnar í Katar um helgina. Japan lagði Kasakstan að velli í gær, 44:19, og vann Kúveit á laugardag, 32:30. Vann Japan því riðilinn með fullu húsi stiga. Barein, sem Aron Kristjánsson þjálfar, lagði Kúveit 34:26 í gær og freistar þess að fylgja Japönum upp úr riðlinum með sigri eða jafntefli gegn Íran á morgun. Í A-riðlinum er Sádi-Arabía, sem Erlingur Richardsson þjálfar, í öðru sæti á eftir Katar sem er búið að tryggja sér sæti í undanúrslitum. Sádi-Arabía vann Sameinuðu arabísku furstadæmin í gær, 22:21, og mætir Katar í lokaumferð riðilsins á morgun, þar sem liðið freistar þess að fylgja heimamönnum í undanúrslit.
Stiven Tobar Valencia, landsliðsmaður í handknattleik, skoraði sjö mörk fyrir Benfica þegar liðið gerði jafntefli við Braga á heimavelli, 30:30, í portúgölsku 1. deildinni á laugardag. Stiven var markahæstur allra í leiknum. Benfica er í 3. sæti deildarinnar, sex stigum á eftir toppliði Sporting.
Kristian Nökkvi Hlynsson átti sannkallaðan stórleik fyrir Ajax þegar hollenska stórveldið tapaði enn einu sinni í úrvalsdeildinni í knattspyrnu þar í landi í gær. Kristian lék allan leikinn og skoraði tvö marka Ajax í 4:3-tapi fyrir Utrecht. Um fyrstu deildarmörk hans var að ræða fyrir Ajax, sem er í fallsæti, 17. sæti af 18 liðum, með aðeins fimm stig eftir sjö umferðir.
Óðinn Þór Ríkharðsson, landsliðsmaður í handknattleik, var samur við sig þegar hann skoraði sjö mörk fyrir Kadetten Schaffhausen í 30:29-tapi fyrir Pfadi Winterthur í svissnesku úrvalsdeildinni á laugardag. Var Óðinn markahæstur í liði Kadetten sem er enn á toppi deildarinnar með 19 stig eftir 11 leiki.
Stjarnan hafði betur gegn Þór frá Þorlákshöfn, 92:84, þegar liðin áttust við í 32-liða úrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik í Garðabænum í gær. Haukar lögðu þá Þór frá Akureyri fyrir norðan, 105:77, og Höttur átti ekki í vandræðum með Snæfell í Stykkishólmi og vann 107:54. Ármann lagði KR B að velli, 96:94, í Vesturbænum og Valur kjöldró Vestra á Ísafirði, 115:65. Loks hafði Tindastóll betur gegn ÍR, 94:64, í Breiðholti. Njarðvík lagði þá KR, 86:55, í Vesturbænum í eina leik 32-liða úrslita bikarkeppni kvenna.
Diljá Ýr Zomers, landsliðskona í knattspyrnu, fór á kostum þegar lið hennar Leuven vann stórsigur á Charleroi, 8:1, í belgísku A-deildinni á laugardag. Diljá lék fyrstu 70 mínúturnar fyrir Leuven, skoraði tvívegis og lagði upp annað mark. Leuven er á toppnum með 19 stig, fimm stigum fyrir ofan Anderlecht í 2. sæti.