Rannsókn Lögreglumaður rannsakar hér verksummerki eftir eldflaugaárás Rússa á pósthús í bænum Korotítsj í Karkív-héraði þar sem sex féllu.
Rannsókn Lögreglumaður rannsakar hér verksummerki eftir eldflaugaárás Rússa á pósthús í bænum Korotítsj í Karkív-héraði þar sem sex féllu. — AFP/Sergei Bobok
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti lýsti því yfir í gær að varnir Úkraínuhers við bæinn Avdívka væru enn traustar þrátt fyrir ítrekaðar árásir Rússa, en Rússar hafa lagt mikið kapp síðustu daga og vikur á að umkringja bæinn og ná honum á sitt vald

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti lýsti því yfir í gær að varnir Úkraínuhers við bæinn Avdívka væru enn traustar þrátt fyrir ítrekaðar árásir Rússa, en Rússar hafa lagt mikið kapp síðustu daga og vikur á að umkringja bæinn og ná honum á sitt vald.

Sókn Rússa að bænum er sögð hafa kostað þá mikið í bæði mannslífum og hergögnum. Úkraínuher lýsti því yfir fyrir helgi að Rússar hefðu beðið sitt mesta mannfall frá upphafi innrásarinnar í fyrra á fimmtudaginn, og áttu þá um 1.380 manns að hafa fallið eða særst, auk þess sem Úkraínumenn sögðust hafa náð að granda 120 bryndrekum og 55 skriðdrekum á einum sólarhring.

Í stöðumati breska varnarmálaráðuneytisins í gær sagði að samkvæmt talningu Úkraínumanna hefðu mannfallstölur Rússa aukist um 90% á síðustu dögum og að rekja mætti þá aukningu til árása Rússa á Avdívka.

Sagði ráðuneytið jafnframt líklegt að varanlegt mannfall Rússa frá upphafi innrásarinnar væri nú á bilinu 150.000-190.000 manns, en það væru þá bæði þeir sem hefðu fallið og þeir sem hefðu særst varanlega. Sagði í mati Breta að þegar þeir væru teknir með sem hefðu særst tímabundið væri heildarmannfall Rússa á bilinu 240.000-290.000 manns.

Avdívka er um 15 kílómetrum norðan við Donetsk-borg sem Rússar náðu á sitt vald í innrásinni 2014 og hefur frá þeim tíma verið tákn fyrir mótspyrnu Úkraínumanna gegn Rússum.

Um 30.000 manns bjuggu þar fyrir innrásina en nú eru einungis um 1.600 manns eftir í rústum bæjarins. Selenskí sagði í ávarpi sínu að Rússar hefðu einnig reynt að ná bænum Marjinka, sem er skammt vestan við Donetsk-borg, en án árangurs.

Rússar héldu áfram eldflaugaárásum á Úkraínu um helgina. Að minnsta kosti sex starfsmenn póstþjónustunnar féllu og 16 til viðbótar særðust á laugardaginn þegar Rússar sprengdu upp pósthús í þorpinu Korotitsj í Karkív-héraði. Oleg Sinegúbov héraðsstjóri Karkív sagði að af þeim sem særðust væru sjö manns enn í lífshættu.

Reyna að ná fótfestu

Tilraunir Úkraínumanna til þess að ná fótfestu á austurbakka Dnípró-fljótsins í Kerson-héraði héldu áfram um helgina. Var greint frá því í gær að úkraínskir hermenn hefðu náð á sitt vald nágrenni þorpsins Krinkí, sem er nokkru austar en þorpin
Pisjtsjanívka og Pojma sem Úkraínumenn frelsuðu í síðustu viku.

Voru Úkraínumenn þá sagðir hafa náð fótfestu á austurbakkanum á þremur mismunandi stöðum, en hugveitan Rochan Consulting sagði á miðvikudaginn í síðustu viku að Úkraínumenn hefðu safnað saman um 7.000 manna herliði á vesturbakka fljótsins og væru þeir studdir með að minnsta kosti 46 skriðdrekum og 223 bryndrekum.

Sagði í mati Rochan að Úkraínumenn myndu þurfa að gera strandhögg á nokkrum stöðum við fljótið ef þeir vildu nýta það herlið til árása. Væri það mjög áhættusöm aðgerð sem gæti skilað Úkraínumönnum miklum ávinningi, þar sem sókn í Kerson-héraði gæti fært Úkraínumenn að Krímskaga án þess að þeir þyrftu að berjast í gegnum varnarlínur Rússa í Saporísja-héraði.

Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War (ISW) sagði í stöðumati sínu um helgina að Rússar hefðu átt erfitt með að koma í veg fyrir að Úkraínumenn styrktu stöðu sína á austurbakkanum.

Vísaði hugveitan til rússneskra herbloggara og sagði að þá greindi á um hversu langt Úkraínumenn hefðu náð að sækja fram í nágrenni við Krinkí um helgina, og að sumir þeirra segðu að Úkraínumenn hefðu nú þorpið allt á valdi sínu á meðan aðrir segðu að bardagar geisuðu enn um yfirráðin yfir því.

Voru herbloggararnir rússnesku þó sammála um að Rússar væru aðallega að beita stórskotaliði og herþotum til þess að halda aftur af Úkraínumönnum. ISW sagði hins vegar í mati sínu að svo virtist sem Úkraínumenn hefðu getað haldið birgðalínum sínum yfir fljótið opnum þrátt fyrir auknar loftárásir Rússa.