Í blaðamennsku er gjarnan talað um að hver einasti einstaklingur eigi mjög merkilega sögu sé kafað nægilega djúpt. Alveg sama hversu einfalt eða venjulegt líf við teljum okkur lifa, öll eigum við einstaka sögu sem getur snert hjarta lesandans. Sögu sem gæti vel ratað í fjölmiðla og snert við fólki sé eftir henni sóst. Í lífssögu hvers og eins megi finna þráð sem eflir samkennd, sem fær fólk til að líta inn á við og tengja eða að minnsta kosti til að skilja. Það sama má segja um fyrirtæki, öll fyrirtæki eiga sér sögu og ef kafað er nægilega djúpt má alltaf finna einhvern þráð sem snertir hjarta lesandans.
Á næstu 88 síðum má lesa brotabrot af sögum íslenskra fyrirtækja. Þetta eru alls konar fyrirtæki en þau eiga það sameiginlegt að vera á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki. Þótt listi Framúrskarandi fyrirtækja, sem birtist hér í blaðinu, virðist óralangur eru í raun sárafá fyrirtæki sem ná þessum magnaða árangri eða bara um 2,5% íslenskra fyrirtækja. Það eitt og sér er afar góður árangur og svo ef skoðuð eru skilyrðin fyrir því að komast á listann, sem má einmitt sjá hér að neðan, gefur það augaleið að það þarf heilmikið til að komast á þennan eftirsótta lista. Svo er eitt að komast á listann en annað að halda sér á honum.
Fyrirtækin sem fjallað er um í þessu blaði eru eins ólík og þau eru mörg en meðal annars má finna umfjöllun um malbikun, um 101 árs gamalt fyrirtæki sem sinnir nýsköpun af krafti og um hjólreiðaverslun þar sem fjölskyldustemningin ræður ríkjum. Það er þó eitt sem sameinar þessi fyrirtæki og öll hin sem fjallað er um í þessu blaði. Viðmælendur okkar eru allir sammála um að einn stærsti þáttur í því að fyrirtæki verði framúrskarandi sé mannauðurinn.
Það eru ekki bara orðin tóm þegar forsvarsmenn fyrirtækja hrósa mannauðinum því það þarf ekki að lesa margar rannsóknir til að vita að það er mannauður sem fleytir fyrirtækjum áfram. Það þarf ekki annað en að fara í fyrirtæki með góða og hvetjandi fyrirtækjamenningu til að finna andann og stemninguna. Anda samheldni, samkenndar og sigurs. Þennan anda þarf að hlúa að og rækta. Rækta gleðina og fagna sigrum. Rannsóknir sýna nefnilega líka að það eru ekki bara laun sem segja til um starfsánægju heldur sú tilfinning að framlag þitt skipti máli. Að þú finnir að þú skiptir máli hjá fyrirtækinu. Að hlúa að starfsfólki sínu er eitt af mörgu sem framúrskarandi fyrirtæki gera vel en vitanlega þarf fleira til að ná góðum árangri. En það er ekki slæmt að byrja þar.
Að lokum vil ég segja við forsvarsmenn og starfsmenn þeirra 1.006 fyrirtækja sem eru á lista Framúrskarandi fyrirtækja í ár:
Innilega til hamingju með þennan frábæra árangur, vel gert!