Ingólfur Arnar Guðjónsson fæddist í Reykjavík 23. febrúar 1946. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Broomcroft House í Sheffield UK 8. ágúst 2023.

Foreldrar hans voru Guðjón Kristinn Eymundsson rafvirkjameistari, f. 12. febrúar 1924, d. 7. september 2009 og Ragna Ásdís Ingólfsdóttir húsmóðir, f. 23. júní 1922, d. 16. janúar 1983. Systkini Ingólfs eru Áslaug Sif, f. 1947, Kolbrún, f. 1952, Bergljót, f. 1953, d. 1999 og Hörður, f. 1963.

Ingólfur kvæntist hinn 26. september 1970 eftirlifandi einginkonu sinni, Susan Monu Price landfræðingi, f. 15. maí 1947 í Manchester UK. Börn þeirra eru: 1) Stefán John, f. 20. maí 1977, vefhönnuður, kvæntur Claudiu Rennie, f. 12. april 1980. Börn þeirra eru: Clara Olive, f. 9. maí 2015, og Ari Eugene, f. 18. október 2017. 2) Sarah Ásdís, f. 13. mars 1979, gift David Seabright, f. 16. apríl 1977. Börn þeirra eru: Lilya Etta, f. 20. júní 2012, og Ned Kári, f. 10. september 2015. Ingólfur eignaðist son með Þórdísi Kolbeinsdóttur, f. 1947, Kristin Kolbein, f. 12. desember 1967, en hann lést af slysförum 30. júní 1991.

Foreldrar Ingólfs hófu búskap í Reykjavík en fluttu til Akureyrar þar sem Guðjón rak fyrirtækið Raforku í nokkur ár en síðan flutti fjölskyldan til Keflavíkur þar sem Guðjón hóf störf hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Ingólfur ólst upp í Keflavík fram á unglingsár. Þaðan átti hann góðar minningar með sínum æskufélögum. Á sumrin dvaldi hann í sveit hjá móðursystrum sínum að Ási í Kelduhverfi og Pálmholti í S-Þing. Sveitadvölin tengdi hann sterkum böndum við landið. Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur um sama leyti og hann hóf nám í Menntaskólanum í Reykjavík. Eignaðist hann marga góða vini á þessum árum og lauk stúdentsprófi frá MR 1967. Á námsárum vann hann ýmsa verkamannavinnu, m.a. á Austfjörðum og í Þýskalandi.

Að stúdentsprófi loknu hélt hann utan til náms í sálfræði við háskólann í Manchester 1967 til 1970 og í framhaldi af því við háskólann í Liverpool 1970 til 1972 og lauk þar postgraduate-námi í klínískri sálfræði. Ingólfur starfaði sem klínískur sálfræðingur við NHS Oldham í Manchester 1972 til 1975. Síðan fluttu þau til Íslands og starfaði hann á Kleppi og við Landspítalann 1975 til 1981 en þá fluttu þau aftur til Englands og starfaði hann í Chester og Sheffield NHS sem klínískur sálfræðingur og við NHS Northern General Hospital 1982 til 1986 og frá 1986 til 2006 sem deildarstjóri og yfirmaður sálfræðiþjónustu NHS Doncaster. Útför Ingólfs fór fram í Sheffield 30. ágúst sl.

Minningarathöfn verður í dag, 25. október 2023, í Grensáskirkju kl. 11 en duftker hans verður sett niður í Fossvogskirkjugarði.

Þegar komið er að kveðjustund er margs að minnast og þakka. Fyrst koma í hugann æskuárin á Akureyri þar sem við áttum okkar fyrstu spor, kirkjutröppurnar og umhverfið þar í kring var okkar leiksvæði. Þegar skólagangan hófst fluttum við til Keflavíkur, bærinn var ólíkur því sem við áttum að venjast en við vorum fljót að aðlagast, gengum í skátafélagið Heiðarbúa og eignuðumst fljótt góða og trausta vini.

Ég var reyndar oftast auðkennd sem systir hans Ingós, sem benti til að hann skæri sig meira úr en ég væri frekar í hans skjóli.

Síðan tóku manndómsárin við í Reykjavík og Ingó naut sín vel í Menntaskólanum í Reykjavík. Eftir stúdentspróf fór hann til náms í klínískri sálarfræði við háskólann í Manchester og þar kynntist hann konunni sinni henni Susan. Þau giftu sig í hinni fallegu og sögufrægu borg Chester þar sem Móna móðir hennar bjó. Seinna áttum við eftir að vera viðstödd sveitabrúðkaup Stefáns Johns og Claudiu og brúðkaup Söru og Daves í Wales. Þau voru ævintýri hvert fyrir sig og eftirminnileg.

Mestur tími gafst til góðrar samveru þau fimm ár sem þau bjuggu á Íslandi og þar fæddust yndislegu börnin þeirra, Stefán og Sarah. En svo var aftur haldið til Englands, þau komu reglulega til Íslands, ekki síst Ingó. Það var ánægjulegt að heimsækja þau til Sheffield. Í þeim ferðum kynntumst við sveitahéruðum í nágrenni Sheffield og Manchester en sérstaklega er minnisstæð ferð með Ingó til York þar sem víð áttum einstaklega ánægjulegan dag í þeirri sögufrægu borg. Þau voru höfðingjar heim að sækja. Ingó var mjög áhugasamur um tónlist og myndlist. Hann spilaði tennis af miklum áhuga og var mikill stuðningsmaður Manchester United.

Ingó og Susan höfðu yndi af ferðalögum og ferðuðust víða um heim, ekki síst eftir að þau fóru á eftirlaun en úr dró eftir að heilsu hans hrakaði í kjölfar þess að hann greindist með krabbamein. Það krafðist þungrar meðferðar og síðan fékk hann hinn erfiða sjúkdóm Lewy Body Dementia, með þeim afleiðingum að það tók frá honum allt líkamlegt atgervi og þurfti hann þá á hjúkrunarmeðferð að halda. Þrátt fyrir að þessi áföll ágerðust hélt hann alltaf sínu góða skapi og góðvild, hann mætti deginum og öllum heimsóknum með bros á vör. Í huga mér var Ingó bróðir minn mannvinur, tillitssamur, kærleiksríkur og lagði alltaf gott til. Takk fyrir allt og allt.

Vér leitum þess er býr í brjósti voru

og bregður ljósi á kviku þess sem fer

um huga vorn og hnattblys sólarkerfa

en himinn guðs mun leyna enn á sér.

Því oss er löngum ætluð önnur veröld

og andi hans er fjarri mannsins sýn,

samt birtast verk hans enn um sköpun alla

og arfleifð guðs er hugarveröld þín.

Þú finnur innst í hjartans helgi dómi

þá hönd sem leiðir ótta vorn í skjól,

sem hirðir geymir hann með nálægð sinni

þá hjörð sem lifir af sín kvíaból.

(Matthías Johannessen)

Áslaug Sif Guðjónsdóttir.

Það var á þorrablóti í Hull snemma á tíunda áratugnum sem ég rakst á Ingólf Guðjónsson. Ég þekkti hann lítillega gegnum frænda hans, vin minn Ingólf Arnarsson, síðan hann og Susan bjuggu á Íslandi í lok áttunda áratugarins. Ég veit ekki hvort Ingólfur mundi eftir mér, en þegar við fórum að spjalla kom í ljós að hann væri oft á ferðinni í Leeds að sækja Súsu í tai chi-tíma. Við ákváðum að hann liti við næst þegar hann kæmi. Brátt varð það að reglu að hann kæmi við, borðaði, við skryppum á pöbb eða tónleika. Við áttum mörg sameiginleg áhugamál, m.a. tónlist og myndlist. Ingólfur og Súsa höfðu líka keypt einstakt vatnslitaverk eftir Peter Schmidt af Snæfellsjökli þegar Peter sýndi í Gallerí Suðurgötu 7 og við Ingólfur frændi hans sáum um sýningar Peters á Íslandi.

Það var fljótlega að Ingólfur kom með ósk um að eignast verk eftir mig. Það sem hann vildi var að ég málaði mynd af Hólsfjallaflóru. Þegar Ingólfur var drengur var hann í sveit á Hólsfjöllum. Hann var einmana og þá voru það blómin sem urðu vinir hans og hann gat talað við þau. Ég átti sem sagt að mála blóm sem hann mundi eftir úr sveitinni. Þótt ég sé ekki vanur að sinna þannig beiðnum var ég til í að fara aðeins út fyrir þægindaramma þess sem ég var að fást við þá og sló til. Verkið hófst og Ingólfur gaukaði að mér við og við nokkrum pundum og fylgdist með. Við Ingólfur vorum báðir Íslendingar búsettir í útlöndum, áttum rætur í öðrum menningarheimi en þeim sem var í kringum okkur. Við söknuðum fyrri heimkynna hvor á sinn hátt, en gátum rabbað saman á ísl-ensku utan við íslenska málhelgi. Myndin kláraðist og heimsóknirnar milli Sheffield og Leeds urðu tíðar. Við áttum góð samtöl, við veittum hvor öðrum stuðning þegar bjátaði á. Það var gott að hafa sálfræðinginn Ingólf nálægan.

Svo kom að því að ég flutti með fjölskyldunni til Íslands. Þegar við vorum búin að tæma húsið keyrðum við bílinn okkar til Sheffield, skildum hann þar eftir og Ingólfur sá um að selja hann. Tókum svo lestina til London og þaðan í flug til Íslands. Ingólfur og Súsa voru tíðir gestir á Íslandi, komu oft þegar ég var með sýningar. Nú hafði ég heimþrá til Englands og Ingólfur var duglegur að senda mér kassettur með útvarpsþáttum og síðar diska með tónlist sem við höfðum pælt í. Hann var alltaf tilbúinn að hjálpa og sinna vináttunni. Þó fór svo fyrir nokkrum árum að allt fór að dofna, samskiptin urðu slitrótt. Ingólfur var ekki til staðar, skelfilegur sjúkdómur hafði bankað upp á og nú hefur hann kvatt.

Elsku Susan, Stefán, Sarah, makar og barnabörn, innilegar samúðarkveðjur. Það er mikil eftirsjá að manni prýddum þvílíkum mannkostum og Ingólfur Guðjónsson.

Eggert Pétursson.

Það kom sem snöggt áfall þegar ég sá tilkynninguna um Ingó í andlátsfréttum Moggans. Hvernig gat það verið, maður á besta aldri? Og ég vissi ekkert af þessu fyrir fram! Við vorum vinir í Manchester, þegar við vorum báðir þar við nám og síðar eftir að við náðum okkur báðir í enskar konur. Við unnum báðir sem sálfræðingar á svæðinu, hann í heilbrigðisgeiranum, ég í skólum. En eftir að ég flutti til Íslands á meðan hann ílentist í Englandi misstum við smám saman tengsl.

Ég saknaði ávallt gamansamrar nærveru hans með nýspeki á vörum: „Shouldhood is shithood“ sagði hann eitt sinn. Ég skildi það þannig að það leiddi ekki til góðs að hengja sig fyrst og fremst í það sem maður á að vera eða á að gera. Kröfurnar gætu hæglega orðið yfirþyrmandi. Hann talaði af reynslu sem sálfræðingur með greinandi og skapandi hugsun og húmor í bland.

Ég hafði ekki fylgst með honum síðustu ár og vissi því ekki að áður en hann veiktist fyrir átta árum var hann löngu orðinn virtur sem leiðandi sérfræðingur á sínu sviði á sjúkrahúsi, en einnig virkur í nærsamfélaginu í Sheffield og – það sem skipti hann mestu máli – ennþá hamingjusamlega giftur Susan sinni með tvö börn og barnabörn. Mér þótti vænt um að heyra það af því að mér þótti vænt um hann sem manneskju.

Susan, ég votta ykkur öllum dýpstu hluttekningu mína.

Gretar L. Marinósson.

Kær vinur hefur kvatt þetta jarðlíf. Við kveðjum Ingólf vin okkar með söknuði. Minningar rifjast upp um skemmtilegar samverustundir með þeim góðu hjónum, Susan og honum, bæði hér heima á 8. áratugnum og síðar í heimsóknum á víxl. Sérstaklega þökkum við höfðinglegar móttökur í Sheffield í sambandi við sjötugsafmæli Péturs og eftirfylgjandi akstur með þeim til Liverpool, bítlaborgarinnar.

Ingó var svo sannarlega vinur vina sinna og hafði einstaklega góða nærveru. Hann var smástríðinn, hafði gaman af að athuga viðbrögð fólks. Hann var einlæglega áhugasamur um einstaklingana, lífið og tilveruna. Og fróðleiksfús. Hann var alveg áreiðanlega á réttri hillu í starfi sínu.

Seinni árin hafa verið erfið og mikil glíma við veikindi. Því tók hann af mikilli þolinmæði og var ætíð þakklátur þeim sem önnuðust hann. Og Susan og börnin stóðu þétt við hlið hans, allt til enda.

Við þökkum samfylgdina og biðjum algóðan Guð að blessa minningu góðs drengs.

Pétur og Sigrún.