Valgerður Jóna Sigurðardóttir fæddist 15. desember 1942. Hún lést á líknardeild Landspítalans 9. október 2023.

Foreldrar Valgerðar voru Kristín Sigurðardóttir, f. 6.10. 1906, d. 27.5. 1981, og Sigurður Karlsson, f. 29.3. 1904, d. 12.8. 1972.

Valgerður ólst upp á Hafnarnesi við Fáskrúðsfjörð og í Vestmannaeyjum. Hún var yngst tíu systkina og eru tvö eftirlifandi, þau Óskar, f. 19.5. 1927, og Oddný Fjóla, f. 13.10. 1936. Hin systkinin voru: María Sigþrúður, f. 14.9. 1922, d. 4.5. 2005, Karl Emil, f. 8.1. 1924, d. 18.11. 2010, Þórunn Jórunn, f. 27.10. 1925, d. 3.8. 1967, Rafn, f. 29.3. 1929, d. 27.8. 1988, Jón, f. 1.2. 1931, d. 4.4. 1931, Erna Guðmundína, f. 16.5. 1932, d. 6.4. 2022, Ásta, f. 1.8. 1933, d. 9.3. 2022. Valgerður átti einn hálfbróður, Ágúst Heiðar Sigurðsson, f. 23.10. 1938, d. 24.5. 2008.

Valgerður giftist hinn 17.5. 1969 Rúnari Eiríki Siggeirssyni, f. 29.11. 1947.

Börn Valgerðar og Rúnars eru: 1) Unnur, f. 26.9. 1967, maki er Magnús Karl Björgvinsson, f. 23.4. 1959. Unnur á einn son, Kristján Vídalín Kristjánsson, f. 29.7. 1994, og fjóra stjúpsyni sem eru Haukur Valgeir, f. 7.2. 1980, Heimir Orri, f. 18.11. 1984, Hlynur Atli, f. 11.9. 1990, og Hörður Björgvin, f. 11.2. 1993, Magnússynir. Unnur á 11 barnabörn. 2) Esther, f. 1.5. 1973. Sonur Estherar er Alex Thorarensen Estherarson, f. 29.6. 1993. Esther á tvö barnabörn. 3) Kristín, f. 6.10. 1976. Maki er Róbert Jack, f. 8.8. 1971, og börn Kristínar eru Bragi Örn Ingólfsson, f. 31.7. 1999, og Eyrún Arna Ingólfsdóttir, f. 6.3. 2002.

Valgerður, eða Gerða eins og hún var ávallt kölluð, vann ýmis störf í gegnum tíðina en þó aðallega við fiskvinnslu og svo í 28 ár sem mælaálesari hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur sem síðar varð Orkuveita Reykjavíkur.

Gerða ólst upp á Hafnarnesi til 11 ára aldurs en fluttist þá til Vestmannaeyja með fjölskyldu sinni og bjó þar þangað til gosið hófst árið 1973. Eftir flutning á nokkra staði eftir gosið enduðu Gerða og Rúnar í Mosfellsbæ þar sem þau hafa búið síðan, á Arnartanga 81.

Útför Valgerðar verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag, 25. október 2023, klukkan 13.

Gerða var mikilvæg manneskja í okkar lífi og einstaklega kær. Við munum sakna hennar og erum þakklát fyrir allan þann tíma sem við áttum með henni. Gerða var sérlega kraftmikil kona, dugnaðarforkur og viljasterk. Hún var ávallt á ferðinni og alltaf að gera eitthvað. Hvort sem það var að vinna, sinna heimili/garði, hekla, prjóna, sauma, baka eða sinna áhugamálum. Einu skiptin sem hún kannski slakaði aðeins á var í sólbaði, því hún elskaði að baða sig í geislum sólarinnar í hvert skipti sem hún gægðist á milli skýjanna.

Þau hjónin Gerða og Rúnar ferðuðust líka til útlanda á síðustu árum og þá urðu annaðhvort fyrir valinu sólarlönd eða skíðaferðir en skíðaiðkun hafði verið áhugamál sem öll fjölskyldan hafði haft gaman af til fjölda ára. Fyrst af öllu var farið í Skálafell en seinna meir fóru hjónin að ferðast til Ítalíu í skíðaferðirnar.

Gerða elskaði líka að hafa sig til og líta vel út. Það sem einkenndi hana hvert sem hún fór var litríkur klæðnaður og skart. Því skærari litir, því betra. Hún var stórglæsileg og það geislaði af henni. Hún hafði unun af því að klæða sig upp í fín föt, stundum þau sem hún sjálf hafði hannað og búið til, fara síðan út á lífið að dansa við hressandi og skemmtilega rokk-og-ról-tónlist. Gerða kunni best að láta sér aldrei leiðast. Þrátt fyrir að vera hætt á vinnumarkaðnum síðustu árin þá hafði Gerða alltaf nóg fyrir stafni. Hún fann sér annað áhugamál sem var að fara á spilavistir og fóru þau hjónin staðfastlega á flestar þær spilavistir sem voru í boði á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir Gerðu voru spilavistirnar ávallt tilhlökkunarefni og þrátt fyrir mótlæti í heilsunni þá mætti hún, spilaði og hafði gaman af.

Gerða eignaðist börn, barnabörn og barnabarnabörn og fylgdist vel með hverju og einu þeirra. Hún var ávallt til staðar ef einhver þurfti á aðstoð að halda. Hún var gjafmild, hlý og umhyggjusöm. Gerða komst í gegnum svo margt á þrautseigjunni og var sterk fyrirmynd fyrir okkur öll.

Takk fyrir samfylgdina elsku eiginkona, mamma, amma og langamma. Þín er sárt saknað og þú lifir alltaf í hjarta okkar. Við erum rík af minningum um væntumþykju þína, kærleika og gleði.

Hvíl þú í friði.

Dætur þínar,

Kristín, Esther og Unnur, og þinn eiginmaður Rúnar.

Eftir einstaklega hetjulega baráttu við krabbamein hefur svilkona mín, Gerða eins og hún var alltaf kölluð, kvatt þennan heim.

Við kynntumst fyrir rúmlega hálfum fimmta áratug þegar ég fór að búa með Sævari, yngri bróður Rúnars. Þau hjónin höfðu þá eignast dætur sínar þrjár, Unni, Esther og Kristínu, en við Sævar vorum nýbakaðir foreldrar með son okkar Arnþór Snæ.

Eins ólíkar og við Gerða vorum þá náðum við ótrúlega vel saman. Gerða var einstaklega lífsglöð kona, hún elskaði að vera innan um fólk, elskaði að hlæja og dansa og vera með sínum nánustu. Ef maður hringdi í hana þá spurði hún strax „ætlið þið að kíkja í kaffi?“ og það var sama hvað við komum með stuttum fyrirvara, alltaf töfraði hún fram veisluborð með dásamlegum heimabakstri.

Það lék allt í höndunum á Gerðu, hvort sem það var bakstur, veisluhöld, saumaskapur eða hekl. Ef eitthvað vafðist fyrir henni þá gafst hún ekki upp fyrr en hún var búin að ná tökum á því, ég minnist þess eitt sinn að hún var að sauma buxur og vasaísetningin snerist eitthvað fyrir henni, þá sátum við saman og fórum yfir þetta þar til hún var búin að ná því, aldrei að gefast upp. Uppgjöf var ekki til í hennar orðabók.

Útivist var henni og Rúnari mikils virði og þau stunduðu ferðalög, göngur og fóru mikið á skíði. Fengu börnin okkar að njóta þess þegar þeim var boðið að koma með í skíðaferðir í Bláfjöll og eiga þau góðar minningar um þær stundir. Ekki má gleyma útilegunum og sumarbústaðaferðunum sem eru orðnar þó nokkrar sem við höfum farið saman, við Sævar, Rúnar, Gerða, Olga og Haddi, en Olga er systir Rúnars og Sævars. Við ferðuðumst sérstaklega mikið saman þegar krakkarnir ferðuðust enn með okkur og var þá oft fjör og mikið leikið saman. Nutum við hverrar mínútu, ekki síst Gerða, sem fékk útrás fyrir lífsgleði sína innan um okkar stóra hóp. Svo var borðunum raðað saman úti í guðsgrænni náttúrunni, grillað og allir borðuðu saman. Yndislegar minningar sem minna mann á það hve mikils virði hver einstaklingur er og hversu mikils virði það er að njóta samvista við fólk meðan við höfum tök á því.

Við Sævar, börnin og barnabörnin okkar þökkum yndislegri konu fyrir hlýjar og eftirminnilegar samverustundir í gegnum lífið.

Sigríður Arna

Arnþórsdóttir.