Stuð Alltaf er gaman að komast á góða tónleika.
Stuð Alltaf er gaman að komast á góða tónleika. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ég var kominn í rokkbomsurnar og leðrið og á leið á tónleika, umkringdur fjölmenni. Áþreifanleg eftirvænting í loftinu. Bandið heldur ekki af verri endanum, Skæð ólæða. Ég hafði ekki í annan tíma barið það ágæta band augum þannig að ég var með skreflengra móti

Orri Páll Ormarsson

Ég var kominn í rokkbomsurnar og leðrið og á leið á tónleika, umkringdur fjölmenni. Áþreifanleg eftirvænting í loftinu. Bandið heldur ekki af verri endanum, Skæð ólæða.

Ég hafði ekki í annan tíma barið það ágæta band augum þannig að ég var með skreflengra móti. En hvað haldið þið? Ég vaknaði áður en á tónleikastaðinn var komið. Skellur af dýrari gerðinni.

En af hverju hafði ég misst? Í geðshræringu minni þáði ég boð Þorsteins Joð um að hringja í vin og hafði þá tvo frekar en einn enda mikið í húfi. Hvernig tónlist leikur Skæð ólæða, lagsmenn?

Ekki stóð á svari. „Pönk, klárt mál,“ svöruðu báðir um hæl. Annar bætti meira að segja við að þetta væri kvennapönkband og mjög líklega í góðu vinfengi við Kæluna miklu og Harum-Scarum. Hinn var á því að Skæð ólæða ætti sér rætur í djúpstæðum áhuga mínum á veðurfræði og um væri að ræða hugtök úr þeirri átt sem slegið hefði saman. Allt er þetta mjög trúlegt.

Nú eruð þið ábyggilega löngu farin að velta fyrir ykkur hvernig þessi frásögn tengist ljósvakanum. Jú, það er einfalt. Ég er erlendis þessa dagana, eins og Indriði forðum, og sef beint undir miklum flatskjá. Sem kunnugt er þá er sjónvarpið öðrum græjum fremra þegar kemur að því að smeygja sér inn í undirmeðvitundina. Sérstaklega þegar slökkt er á því.

Höf.: Orri Páll Ormarsson