Óhætt er að segja að konum og kvárum hafi tekist að vekja athygli á baráttu sinni með kvennaverkfallinu í gær. Mikill fjöldi fólks lagði leið sína í miðbæ Reykjavíkur á kröfufund vegna verkfallsins. Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri á lögreglustöðinni í miðbænum, sagði að erfitt væri að meta fjölda fólksins en það kæmi honum ekki á óvart ef allt að 100.000 manns hefðu komið við í miðbænum.
„Þetta er ekki minni fjöldi en á menningarnótt, en mun þéttara,“ sagði hann við mbl.is.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB og einn skipuleggjenda verkfallsins, sagði allt hafa gengið eins og í sögu. „Við vorum búin að finna fyrir mjög mikilli stemningu og að það væri vaxandi óþol – það væri
þörf á því að setja jafnréttismál á oddinn. Þegar 70-100 þúsund manns koma saman á Arnarhóli og víðs vegar um landið allt, þá er maður eiginlega hálf orðlaus. Svona erum við sterk saman.“
Fjöldi fólks mætti á baráttufundi víða um land vegna kvennaverkfallsins. Dagskrá var meðal annars skipulögð á Akureyri, Neskaupstað, Egilsstöðum, Dalvík, Höfn, Húsavík, Blönduósi, Sauðárkróki, Patreksfirði, Hvammstanga, Ísafirði, Raufarhöfn, Stykkishólmi, Suðurnesjum, Vestmannaeyjum og Vík.