Kristján E. Kristjánsson fæddist í Stykkishólmi 16. febrúar árið 1950. Hann lést á líknardeildinni í Kópavogi 12. október 2023.

Foreldrar hans voru Kristján J. Þorkelsson vélstjóri, f. 29. júní 1917 á Siglufirði, d. 21. nóvember 2007 og Rannveig F. Kristjánsdóttir húsmóðir, f. 2. júlí 1921 í Bolungarvík, d. 10. júlí 2006. Kristján var þriðji í röð sex systkina. Þau eru Jóhanna Maggý sjúkraliði, f. 25. maí 1941, d. 4. júní 2002, Guðbjörg tækniteiknari, f. 6. desember 1946, d. 20. febrúar 2002, Brynhildur hárgreiðslumeistari, f. 9. janúar 1955, Auður leikskólakennari, f. 9. september 1959 og Alfa upplýsingafræðingur, f. 19. október 1962.

Kristján giftist Sesselju Ólafsdóttur, f. 30. apríl 1942, þann 17. maí 1979. Þau eignuðust soninn Pétur byggingatæknifræðing, f. 20. júlí 1980. Fyrir átti Sesselja fjórar dætur; Ingunni Huldu, Hörpu, Ólöfu Eiri og G. Öldu Guðmundsdætur. Þau skildu. Pétur giftist 12. október 2019 Heiðu Björk Vignisdóttur lögfræðingi. Þau eiga dæturnar Tinnu Margréti, f. 29. ágúst 2016 og Auði Öldu, f. 25. ágúst 2022. Pétur á einnig soninn Hauk Stein, f. 7. júlí 2007, og er móðir hans Eyrún Birna Jónsdóttir.

Kristján var í sambúð frá árinu 1993 með Áslaugu Gísladóttur húsmóður, f. 6. nóvember 1951, til dauðadags. Áslaug átti þrjú börn áður; Rögnu og Konráð Sigurðarbörn og Björgu Kristjánsdóttur.

Kristján ólst upp í Stykkishólmi fyrstu æviárin en flutti ellefu ára í Kópavog með foreldrum sínum. Kristján var meistari í pípulögnum og rak sitt eigið fyrirtæki með Pétri syni sínum. Verkefnin voru á sviði jarðvegslagnaframkvæmda og síðar húsbygginga.

Útför Kristjáns fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 25. október 2023, og hefst athöfnin klukkan 15.

Streymt er frá útför:

https://mbl.is/go/ibbgg

Ég var svo lánsamur að eiga Kristján sem pabba, hann var stoðin og styttan í lífi mínu. Alltaf gat ég leitað til hans og var hann ávallt fljótur að greina kjarnann frá hisminu. Það var mikil orka í kringum pabba og minnkaði hún ekki með árunum eins og hjá flestum. Pabbi var ólýsanlega duglegur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Hann var góð fyrirmynd ungs manns sem tók snemma ákvörðun um að feta sömu braut, en pabbi starfaði í framkvæmdageiranum allan sinn starfsferil. Hann fékk margar hugmyndir. Þegar hann hafði hugsað óþægilega lengi um viðfangsefnið var hann allt í einu búinn að framkvæma hugmyndina. Skipti þá engu hvort um var að ræða byggingu húss í Öndverðarnesi eða kaup á sumarhúsi í Danmörku.

Ég á einstaklega ljúfar og góðar minningar frá uppvaxtarárunum í Kópavoginum. Ása kom inn í líf okkar pabba þegar ég var tólf ára og var það mikil gæfa fyrir okkur báða. Við hefðum eflaust báðir látið lífið úr næringarskorti enda kunni hann pabbi ekki að sjóða vatn. Ása leit strax á mig sem eitt af sínum börnum og á ég henni ótal margt að þakka. Hún er meistarakokkur og pabbi var alltaf jafn stoltur þegar haldnar voru veislur og borðin svignuðu undan kræsingunum hennar Ásu. Við pabbi áttum sameiginlegt áhugamál um nokkra ára skeið sem var vélsleðasport. Um helgar þeystum við upp á fjöll í fjallaskála sem pabbi byggði ásamt félögum. Þar ókum við á vélsleðum um hálendið og minningarnar eru ótal margar. Pabbi hafði unun af því að ferðast. Þá var notast við ferðabíl eða hjólhýsi innanlands sem og í Evrópu. Ég á óteljandi minningar úr ferðalögum með pabba og er þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að skoða landið okkar á öllum mögulegum farartækjum. Pabbi var mjög hlýr og góður maður sem stóð þétt við bakið á sínu fólki. Hann var frábær afi og hafði unun af því að fá barnabörnin til þeirra Ásu í Öndverðarnesið um helgar. Þar var af nógu að taka enda byggði hann bílskúr sem hægt var breyta í bíósal, bjó til staðsteyptan körfuboltavöll, jarðvegsskipti fyrir trampólín, var með fjórhjól og vespur o.s.frv. Það var fræðilega ómögulegt að láta sér leiðast í þeim heimsóknum og sóttu barnabörnin stíft í að fá að fara í sveitina. Pabbi var alinn upp til ellefu ára aldurs í Stykkishólmi, og eins og gengur og gerist í sveitinni fá krakkar að æfa sig í að keyra. Pabba fannst ökuskírteini ekkert nauðsynleg við aksturinn, sérstaklega ekki á þeim tíma sem hann ólst upp. Oftar en ekki komum við í sveitina og þá var Hauk, elsta son okkar, sem þá var þrettán til fjórtán ára, hvergi að sjá. Pabbi var þá spurður hvar Haukur væri og svaraði pabbi að Haukur hefði farið á bílnum út í Sorpu með ruslið. Pabbi vissi vel hvaða skammarræða kæmi í kjölfarið og varð fyrri til að svara: „Drengurinn lærir aldrei að keyra ef hann fær ekki að æfa sig!“ svo glotti hann. Eftir standa minningarnar um einstakan mann sem var góð fyrirmynd þeirra sem stóðu honum næst.

Ég kveð pabba með söknuði. Þinn sonur,

Pétur Kristjánsson.

Elsku tengdapabbi minn, hann Kristján, er fallinn frá. Ég trúi vart að komið sé að kveðjustund, alltof snemma. Kristján tilheyrði svo merkilegri kynslóð sem gat allt og gerði allt. Hann lét aldrei neinn bilbug á sér að finna, allt fram til síðasta dags. Í mínum huga var hann ódauðlegur og var ég viss um að hann myndi hrista þetta mein af sér eins og allt annað, enda var hann einhver duglegasti maður sem ég hef kynnst. Kristján skaraði fram úr í flestu, var ofvirkur, vinnusamur, ósérhlífinn, þrautseigur og þrjóskur. Þrátt fyrir að vera algjör nagli sem lét tilfinningar sínar sjaldnast í ljós skein í gegn hvað honum þótti vænt um fólkið sitt. Hann kyssti og knúsaði okkur við hvert tækifæri og var alltaf svo hlýr og góður. Tengdapabbi var líka mikill fjölskyldumaður og fannst fátt notalegra en að fá okkur í heimsókn með barnabörnin. Hann hugsaði vel um okkur öll og mætti heim til okkar Péturs að „redda“ hlutunum þegar honum var farin að leiðast biðin og drollið í okkur unga fólkinu. Hann kom t.d. og setti upp jólaseríur í þakkantinn þar sem Pétur var ekki enn búinn að því í lok október. Hann mætti líka og fór með bílinn minn í þrif eða í skoðun þegar ég var farin að trassa það of mikið að hans mati. Eitt sinn mætti hann heim til okkar seint um kvöld og mokaði bílaplanið með hjólagröfu þegar ég var ólétt svo ég dytti nú ekki aftur í hálkunni.

Börnin okkar eiga ótal minningar með Kristjáni og Ásu í sveitinni. Kristján var þess reyndar fullviss að lög og reglur næðu ekki yfir sveitina! Þar máttu börnin keyra farartæki af öllum toga; bíla, fjórhjól, vélsleða, mótorhjól og vespur. Þau fengu að brasa með afa úti og koma svo inn og baka og föndra með ömmu í hlýjunni. Börnunum fannst alltaf jafn mikið ævintýri hjá afa og ömmu. Ég vildi að við hefðum fengið fleiri ár saman og að barnabörnin hefðu öll fengið tækifæri til að kynnast afa sínum og læra af honum. Takk fyrir allt, elsku tengdapabbi, þín verður sárt saknað.

Þín tengdadóttir,

Heiða Björk Vignisdóttir.

Við eigum margar góðar minningar um bróður okkar. Kristján var athafnasamur drengur sem hafði mikið yndi af bílum og öllu sem snerist eins og hann orðaði það sjálfur.

Bróðir okkar hafði ánægju af ferðalögum, fjallaferðum, vélsleðasporti og fornbílum. Kristján var ungur að árum þegar hann byrjaði að gera við bíla í bílskúrnum í Reynihvammi 15 í Kópavogi. Á þeim tíma var aðeins ein popprás í boði á Íslandi og hún var ætluð fyrir Ameríkana í herstöðinni í Keflavík. Við munum eftir tónlist úr litlu útvarpstæki í bílskúrnum, Mungo Jerry var að syngja In the summertime sem ómaði svo hressilega í kanaútvarpinu. Stundum oft sama daginn. Bílskúrinn í Reynihvamminum var nokkurs konar félagsmiðstöð og þangað komu strákarnir úr hverfinu, vinirnir sem hittust til að spjalla, skoða nýju bílana og gera við. Kristján keypti vélavarahluti, lét sprauta nýju lakki, keypti nýja stuðara, hjólkoppa og bara allt sem þurfti til að gera bifreiðarnar gangfærar og fínar fyrir sölu. Að endingu voru bílarnir auðvitað þrifnir. Þar komum við systurnar sterkar inn, en reyndar gegn greiðslu.

Kristján hafði ótrúlega næmt auga fyrir öllu sem þurfti að laga og honum gekk strax vel í fjármálum. Hann var sniðugur, sjálfstæður og skipulagður. Auðvitað lærði hann pípulagnir, það var hagnýt iðngrein og kunnugleg í fjölskyldunni. Á unglingsárum Kristjáns vann pabbi fyrir Vatnsveitu Kópavogs. Fljótlega fór Kristján að vinna sjálfstætt í ýmsum verkefnum fyrir bæinn. Hann fór síðan yfir í eigin rekstur sem ávallt gekk vel. Reikningarnir voru útbúnir á skrifstofu heimilisins í vesturendanum.

Við systur unnum fleiri verk fyrir Kristján, straujuðum fötin hans og tókum til heima hjá honum. Binna pressaði ballfötin fyrir túkall og burstaði skóna. Svo var farið út á lífið. Alfa man eftir stóra ameríska kagganum sem hann átti um það leyti sem hann keypti fyrstu íbúðina sína á Nýbýlaveginum. Það heyrðist hressilega í margra strokka bílvélinni og brennt út Reynihvamminn í einum rykk. Ferðinni var heitið í nýju íbúðina og mikið svakalega keyrði hann hratt. Beygjurnar voru teknar á tveimur hjólum og músíkin hátt stillt.

Kristján var viðkvæm sál með sterka föðurímynd sem mótaði hann. Kristján lagði mikla áherslu á fjölskylduna, var umhyggjusamur og góður bróðir. Ef eitthvað bjátaði á var hjálp hans vís.

Pétur einkasonur hans var ljós hans í lífinu. Milli þeirra voru afar sterk bönd. Kristján og Ása síðari kona hans ferðuðust mikið um Evrópu, en þau bjuggu um skeið í Danmörku. Auðvitað var oft komið við í Stokkhólmi hjá Auði. Minningar hennar eru um ástríkan bróður og innihaldsrík samtöl.

Innilegar samúðarkveðjur til Ásu, Péturs, Heiðu, Hauks Steins afastráks og afastelpnanna Tinnu og Auðar Öldu. Þau voru gimsteinarnir í lífi Kristjáns. Við endum þessi fátæklegu orð með bæn Hallgríms Péturssonar sem pabbi fór með fyrir okkur í bernsku.

Vertu, Guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni,

hönd þín leiði mig út og inn,

svo allri synd ég hafni.

(Hallgrímur Pétursson)

Blessuð sé minning bróður okkar.

Alfa, Auður og Brynhildur Kristjánsdætur.

Mín fyrstu kynni af Stjána voru á Reyðarfirði þegar hann kom með föður sínum í Síldarbræðsluna og bjuggu þeir feðgar í húsi foreldra minna. Myndaðist strax vinskapur með okkur enda með svipuð áhugamál.

Margs er að minnast. Bústaðurinn við Skjaldbreið, „Fjallaríki“, þar sem var þeyst á vélsleðum í flottu tunglsljósi, yndislegi bústaðurinn ykkar Ásu í Öndverðarnesi, heimsóknirnar til ykkar í Danmörku og öll ferðalögin hér innanlands og erlendis. Margt var rifjað upp í þessum ferðum, mikið brallað og hlegið „með kaffi og randalínu“. Það var alltaf stutt í hláturinn, bjartsýnina og dugnaðinn hjá þér.

Kæri vinur það er sárt að kveðja þó að við vissum hvert stefndi, en það er erfitt að sætta sig við það.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Við hjónin og börnin okkar þökkum fyrir samfylgdina og vottum Ásu, börnum og barnabörnum samúð.

Baldur Arnar Hlöðversson og Gréta Magnúsdóttir.

Í dag kveð ég æskuvin minn, Kristján Kristjánsson eða Stjána eins og hann var yfirleitt kallaður. Aldrei bar skugga á vináttu okkar Stjána í þau rúmlega 60 ár sem við höfum þekkst. Við Stjáni vorum jafnaldrar en við kynntumst í austurbæ Kópavogs upp úr 1960. Margt var brallað á okkar yngri árum. Á unglingsárunum keyptum við okkur skellinöðrur sem við keyrðum og grúskuðum í en tækjaáhuginn þróaðist svo yfir í bíladellu. Keyptum við marga bíla saman sem við nostruðum við og fórum í á rúntinn. Um tíma unnum við Stjáni saman hjá Ofnasmiðju Reykjavíkur og síðar Vatnsveitu Kópavogs en Stjáni var alla tíð sérlega duglegur til vinnu. Upp úr 1990 keyptum við okkur vélsleða og fórum saman í ótal sleðaferðir ásamt því að byggja skála inn við Langjökul. Vinátta okkar hélst afar traust alla tíð. Mér eru dýrmæt samtölin sem við áttum á hverjum degi síðustu vikurnar. Við kvöddumst innilega daginn fyrir andlát Kristjáns en faðmlaginu mun ég aldrei gleyma.

Elsku Ása, Pétur og fjölskylda, ég votta ykkur mína dýpstu samúð.

Hvíl í friði.

Þinn vinur,

Viðar (Viddi).

hinsta kveðja

Minn elskulegi stjúpfaðir er látinn eftir erfið veikindi. Betri afa var varla hægt að hugsa sér fyrir syni mína. Ég er þér svo þakklát fyrir að hafa verið með okkur með alla þína umhyggju sem umvafði okkur öll. Við eigum dásamlegar minningar um aðstoð þína í ýmsum myndum sem verða geymdar í hjörtum okkar framvegis.

Björg Kristjánsdóttir.