Meirihluti almennings telur lítið eða ekkert svigrúm vera til launahækkana hjá sínum vinnuveitanda. Þá telur yfirgnæfandi meirihluti aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins (SA), eða yfir 80 prósent, lítið eða ekkert svigrúm vera til launahækkana

Meirihluti almennings telur lítið eða ekkert svigrúm vera til launahækkana hjá sínum vinnuveitanda. Þá telur yfirgnæfandi meirihluti aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins (SA), eða yfir 80 prósent, lítið eða ekkert svigrúm vera til launahækkana. Þetta kemur fram í könnun sem framkvæmd var af Gallup fyrir SA en niðurstöðurnar voru birtar á dögunum. Þá kemur fram að mikil samstaða sé milli almennings og atvinnulífs um hvað eigi að leggja áherslu á í komandi kjarasamningum. Yfirgnæfandi meirihluti aðildarfyrirtækja SA og almennings nefndi samninga sem stuðli að lækkun vaxta og verðbólgu og samninga sem varðveiti kaupmátt og tryggi störf.

Í greiningu Arion banka kemur fram að verði kjarasamningsbundnar hækkanir 4% á næsta ári og árið 2025, líkt og miðgildi vilja almennings gefur til kynna, myndi það hafa þau áhrif að verðbólgan á tímabilinu yrði 3,4% samanborið við 5,4% í hagspá bankans.

Konráð Guðjónsson, aðalhagfræðingur Arion banka, segir að launaþróun hafi umfram margt annað ráðandi áhrif á það hvernig verðbólgan þróast. Um þessar mundir sé verðbólgan mikil og laun hafi hækkað mikið og í ljósi þessa sé staðan mjög viðkvæm.

„Það er erfitt að segja til um hversu líklegt það er að samið verði um launahækkanir sem hagkerfið stendur undir en við gerum ráð fyrir að þetta verði í takt við sögulega þróun. Hún hefur aftur á móti ekki verið gríðarlega hagfelld eins og háir vextir og verðbólga bera vitni um,“ segir Konráð og bætir við að það væri æskilegt að það yrðu minni kostnaðarhækkanir en við verðum að bíða og sjá.

Hann segir að hversu mikil kaupmáttaraukning sé falin í lægri vöxtum fari eftir eignastöðu fólks.

„Stór hluti landsmanna skuldar talsverðar fjárhæðir í sínu íbúðarhúsnæði og fyrir þann hóp geta lægri vextir þýtt margra prósenta aukningu ráðstöfunartekna. Það að vextir færu úr tæplega 10 pósentum niður í 7 prósent, það væri ígildi 14 prósenta launahækkunar fyrir einstakling við miðgildi launa og 40 milljóna króna lán.”