Þeir sem hófu stríðið eiga engan kröfurétt

Leiðtogar ríkja Evrópu telja sér rétt og skylt að sækja ríkisstjórn Ísraels heim og leyfa henni að drekka úr þeirra viskubrunni. En þeir, sem fylgjast með úr fjarlægð, fá ekki betur séð en að skilaboðin sem má lesa úr þeirra boðskap séu næsta margbreytileg, eftir því hver síðasti viðmælandi hins tigna gests var.

Forseti Frakklands hamraði á rétti Ísraels til að verja land sitt og fólk í framhaldi af fundi sínum með starfsbróðurnum, forseta Ísraels. Nema hvað? En þegar komin var nokkur fjarlægð á fund þeirra forsetanna þá virtist réttur Ísraels til að verja land og þjóð takmarkast af því að Ísrael væri einnig rétt og skylt að fallast á meintar kröfur Hamas-liða um vopnahlé. Og sú mildi yrði sýnd til þess að gefa Hamas tækifæri og tóm til að skila frá sér gíslum sem þeim væri skylt að gera.

En vandinn í þeirri kenningu er sá að hryðjuverkamenn Hamas voru hinn 7. október og fyrstu dagana þar á eftir einir í stríðinu. Þá náðu þeir gíslum sínum, þar á meðal fólki sem verið hafði m.a. á tónleikum nærri heimabæjum sínum, alllangt frá landamærum Gasa. Þar tóku hryðjuverkamennirnir gísla sína úr hópum almennra borgara, sem nú eru taldir vera á þriðja hundrað, og meðal þeirra, auk Ísraela, fólk frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og fleiri löndum. Það er auðvitað þekkt að þeir sem fara halloka í stríði leggja áherslu á kröfur um vopnahlé. En í þessu tilviki flytja gestirnir sem sækja Ísrael heim þær kröfur til heimamanna og vitna til þess að þann vopnahléstíma eigi að nýta til að Hamas gefist tóm til að skila af sér gíslunum. En Hamas tók ekki aðeins gísla. Þeir drápu óvopnaða menn, konur og börn sem áttu sér einskis ills von. Þeir skáru kornabörnin á háls og tóku af hryllingnum myndir. Á þeim 17 dögum sem liðnir eru frá fyrsta degi stríðsins, sem Hamas stóð fyrir, hafa samtökin skilað fjórum af gíslum sínum, sem eru á þriðja hundrað! Með því verklagi gætu þeir tekið sér ár og daga í að skila föngum sínum.

Breski forsætisráðherrann svaraði þeim, sem eru sjálfboðaliðar við að koma kröfum Hamas á framfæri, með þeim hætti, að líkast er því að samtökin hafi hvergi komið nærri þessum hryðjuverkum og hernaði. Rishi Sunak svaraði og sagði að „við verðum að halda lífi í vonum þeirra og væntingum, sem berjast fyrir bjartri framtíð, einmitt við þá, sem vilja eyðileggja þær“. Og hann svaraði skrítnum kröfum um vopnahlé með þessum orðum: „Það er snúið að gera þær kröfur til Ísraelsmanna, að þeir komi á vopnahléi við þá sem látið hafa sprengjuflaugunum rigna yfir þá frá fyrsta degi stríðsins, þegar samborgurum þeirra er haldið sem gíslum og þeir eru landið sem sætt hefur hryðjuverkaárás, og þeir hafa ótvíræðan rétt til að bregðast við og verja sig.“