Kristinn Jens Sigurþórsson
Kristinn Jens Sigurþórsson
Margt bendir nú til að ráðningarsamningur Agnesar sé mögulega falsaður og settur fram í blekkingarskyni.

Kristinn Jens Sigurþórsson

Heiðraða kirkjuþing.

Hinn 5. september síðastliðinn birtist í Morgunblaðinu grein eftir bréfritara þar sem bent var á að mögulega hefði svokallaður ráðningarsamningur Agnesar M. Sigurðardóttur ekki orðið til fyrr en á tímabilinu 20. febrúar til 20. mars á þessu ári. Er samningurinn þó sagður gerður hinn 1. júlí 2022. Nú hafa þau tíðindi gerst að fram eru komnar upplýsingar er styðja þennan möguleika. Fékk bréfritari fyrir skemmstu ábendingu um að gagnlegt væri að skoða ráðningarsamning Agnesar eins og hann liggur fyrir sem pdf-skjal. Var tölvunarfræðingur fenginn til að rannsaka skjalið. Kom þá í ljós að ráðningarsamningur Agnesar var stofnaður á pdf-formi fimmtudaginn 9. mars 2023 kl. 15.22 auk þess sem skjalinu var breytt skömmu síðar. Pdf-skjalið með samningnum var sem sagt stofnað í skjalakerfi biskupsstofu innan tímabilsins 20. febrúar til 20. mars. Hefur lögmaður Agnesar, Einar Hugi Bjarnason, staðfest þessa tilurð pdf-skjalsins.

Opinber rannsókn

Margt bendir nú til að ráðningarsamningur Agnesar hafi ekki orðið til fyrr en á þessu ári; hann sé því mögulega falsaður og settur fram í blekkingarskyni. Vegna þessa er því hér með skorað á kirkjuþing að beita sér fyrir að þetta alvarlega mál verði rannsakað opinberlega svo leiða megi það til lykta og draga fram mögulega sekt eða sýknu málsaðila. Þegar málsatvik eru skoðuð blasir við að illmögulegt er að bægja frá grunsemdum um saknæma háttsemi. Einmitt þess vegna er lögreglurannsókn knýjandi. Þarf kirkjuþing að ganga fram af ábyrgð og festu því séu eftirfarandi tilvik metin heildstætt má sjá að málið er vægast sagt grunsamlegt og að mörgu er ósvarað:

a) Agnes gerir samninginn við sjálfa sig með aðstoð undirmanns síns, Ragnhildar Ásgeirsdóttur. Er Agnes í óvenjulegri valdastöðu við gerð samningsins.

b) Engir vottar voru að gerð samningsins.

c) Ragnhildur Ásgeirsdóttir hefur ekki tjáð sig opinberlega um samninginn.

d) Samningurinn var aldrei kynntur innan þjóðkirkjunnar eins og skylt er.

e) Algjör þögn ríkti um samninginn og var hvergi á hann minnst mánuðum saman.

f) Samningurinn virðist fyrst koma fram eftir 9. mars 2023 eins og síðbúið viðbragð við ófremdarástandi er skapast hafði á vettvangi þjóðkirkjunnar vegna stöðu Agnesar.

g) Hinn 20. febrúar 2023 lagði lögmaður Agnesar fram skjal („umsögn“) þar sem forseta kirkjuþings var gerð grein fyrir lagalegri stöðu Agnesar sem biskups Íslands. Í skjalinu er ekki nefnt að ráðningarsamband Agnesar við þjóðkirkjuna byggist á samningi.

h) Annað skjal („minnisblað“), dagsett 20. mars 2023, er lagt fram af lögmanni Agnesar til að rökstyðja stöðu hennar sem biskups Íslands (lögskipti). Ber þá svo við að skírskotað er til samnings. Er rökstuðningurinn grunsamlega ólíkur fyrri rökstuðningi í febrúar.

i) Samningurinn er fyrst skannaður inn sem pdf-skjal í skjalavörslukerfi biskupsstofu hinn 9. mars 2023 kl. 15.22 eða tæpum níu mánuðum eftir að samningurinn er sagður undirritaður.

j) Gerð er breyting á pdf-skjalinu í skjalavörslukerfinu samdægurs hinn 9. mars kl. 15.57 eða 35 mínútum eftir að samningurinn var skannaður inn í kerfið. Er pdf-skjölum sárasjaldan breytt og tæplega þegar um ræðir frágenginn og undirritaðan margra mánaða gamlan samning.

k) Ráðningarsamningurinn var lagður fram í starfsmannamáli hjá úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar (lögskipti). Var þar bent á að fram væru komnar rökstuddar grunsemdir um að samningurinn kynni að vera falsaður og hann t.d. ekki skannaður inn í skjalavörslukerfi þjóðkirkjunnar fyrr en í mars 2023. Staðfesti lögmaður Agnesar að samningurinn hefði verið skannaður inn í mars ásamt öðrum samningum. Var lögmaðurinn þá beðinn að leggja fram þá samninga, staðhæfingu sinni til stuðnings, en hann varð ekki við því.

l) Ráðningarsamningurinn var lagður fram á pdf-formi hjá úrskurðarnefndinni. Var þar skorað á Agnesi að leggja fram word-skjal er hefði að geyma samninginn eða annað gagn sem staðfest gæti að hann hefði orðið til í júlí 2022. Var ekki orðið við þeirri áskorun.

m) Fram komin svör og viðbrögð Agnesar vegna málsins geta vart talist trúverðug.

Fyrri háttsemi

Framansögðu til óbeins stuðnings má benda á að þetta er ekki í fyrsta sinn sem grunur leikur á um refsiverða háttsemi í biskupstíð Agnesar M. Sigurðardóttur. Þekkir bréfritari vel til slíkra mála. Verður ekki farið út í þá sálma hér en fulltrúum kirkjuþings bent á að kynna sér erindi er bréfritari sendi kirkjuþingi 3. ágúst 2021. Einnig mætti kirkjuþing kynna sér kvartanir bréfritara nr. 1/2020 og 1/2021 sem áfrýjunarnefnd þjóðkirkjunnar vísaði frá 2022 á hæpnum forsendum. Er reynslu bréfritara af framgöngu Agnesar þar lýst. Er hún slík að hann á auðvelt með að ímynda sér að hér hafi saknæm háttsemi átt sér stað. Þyrfti í raun opinbera rannsókn á allri framgöngu Agnesar á biskupsstóli. Hér er þó einungis skorað á kirkjuþing að láta fara fram lögreglurannsókn á ráðningarsamningnum og það sem allra fyrst. Yrði slík rannsókn í allra þágu og myndi stuðla að trúverðugleika þjóðkirkjunnar.

Höfundur er síðasti sóknarpresturinn er sat Saurbæ á Hvalfjarðarströnd.

Höf.: Kristinn Jens Sigurþórsson