Sveinn Stefán Hannesson tók við sem forstjóri Jarðborana fyrr á þessu ári. Sveinn er vélaverkfræðingur að mennt og kemur úr tölvugeiranum þar sem hann hefur verið stjórnandi um árabil.
Spurður að því hvernig hafi verið að koma úr tölvugeiranum yfir í borbransann segir Sveinn það hafa verið ótrúlega gaman. „Mér hefur verið mjög vel tekið af starfsfólki og viðskiptavinum. Það hafa allir verið afar viljugir að segja manni til. Maður verður að mæta auðmjúkur til leiks og vera tilbúinn að læra. Ég verð aldrei jafn mikill sérfræðingur í bortækni eins og margt fólk hér en ég kem með aðra þekkingu inn í fyrirtækið sem vonandi nýtist vel. Maður notar það sem maður hefur. Ég vil reyna að byggja upp góðan anda og fá fólk með mér í lið. Mikilvægt er að horfa til framtíðar og hafa trú á verkefninu.“
Hann segir starfsemi Jarðborana að mörgu leyti mjög sveiflukennda, þar sem félagið sé háð óvenju mörgum utanaðkomandi þáttum. Ekki sé nóg að taka búnaðinn út og byrja að bora. „Það er ekki alveg svo auðvelt,“ segir Sveinn og brosir.
Bíði vikum og mánuðum saman
Hann segir að oft komi löng tímabil þar sem borar fyrirtækisins bíði vikum og mánuðum saman eftir að hefjast handa fyrir næsta verkefni. Verkefni geti tafist vegna flókinna leyfisveitinga eða aðstæðna í efnahagslífinu. „Þegar orkuþörf vex vilja kannski allir viðskiptavinir okkar byrja að bora í einu. Þá eigum við stundum erfitt með að bregðast við tímanlega, sérstaklega ef við erum bara með einn bor á landinu,“ útskýrir Sveinn. „Staðan er þannig núna að við og Ræktunarsambandið erum með fjóra bora sem eru lausir á næstu vikum í ný verkefni.“
Viðskiptavinir Jarðborana eru bæði á Íslandi og í útlöndum. Stærstu íslensku viðskiptavinirnir eru stóru orkufyrirtækin: Orkuveita Reykjavíkur eða Orka náttúrunnar, HS Orka og Landsvirkjun. Öll fyrirtækin þurfa, ef vel á að vera, eins og Sveinn útskýrir, að bæta við nýjum háhitaholum á hverju ári til að mæta aukinni eftirspurn eftir orku.
Tveir borar hafa verið í gangi á Íslandi á þessu ári, Óðinn á Nesjavöllum og Þór á Þeistareykjum. Sá síðarnefndi hefur nýlega lokið við boranir fyrir norðan og flytur sig nú um set yfir á Reykjanesið.
Erlendis hafa Jarðboranir á síðustu tíu til fimmtán árum árum gert sig gildandi í háhitaverkefnum og oftar en ekki á framandi stöðum eins og í Djibútí í Afríku, á eyjunni Dominica í Karíbahafinu og á Asoreyjum svo eitthvað sé nefnt. Í dag er einn bor að störfum utan Íslands, Týr á Nýja-Sjálandi. „Við stefnum á að koma upp varanlegri starfsstöð á Nýja-Sjálandi og höfum ráðið inn starfsfólk til að sinna því. Það eru möguleikar á fleiri verkefnum í landinu sem er ríkt af jarðhita líkt og Ísland. Einnig sjáum við fyrir okkur að sækja verkefni í löndum á svipuðu tímabelti, í Ástralíu, Filippseyjum og Indónesíu. Við gætum sinnt þeim frá bækistöð okkar á Nýja-Sjálandi,“ segir Sveinn.
Tæplega tvö hundruð manns vinna í dag hjá Jarðborunum og hefur starfsfólki fjölgað um 140 á undanförnu einu og hálfa ári.
Fyrirtækið hefur síðan árið 2015 átt og rekið dótturfyrirtækið Ræktunarsamband Flóa og Skeiða. Það einbeitir sér að millistórum og minni borverkefnum um allt land. Eins og Sveinn útskýrir var fyrirtækið keypt með það í huga að reyna að jafna sveiflur í rekstri samstæðunnar og nýta þekkingu beggja fyrirtækjanna saman. Það hafi gengið ágætlega. „Við þurfum þó að halda áfram að huga að því að minnka sveiflur í rekstrinum og brúa bilið milli stærri verkefna. Það er ýmislegt sem við erum að skoða í því samhengi, eins og samsetning verkefna, markaðssvæði og nýjar þjónustur.“
Sveinn segir að á Íslandi geti verið erfitt að vera mjög sérhæfður. Sérstaða Jarðborana felist meðal annars í því að geta boðið allt í einum pakka, á meðan erlend fyrirtæki í geiranum séu afmarkaðri.
Selja viðhaldspakka
Sveinn sér einnig tækifæri í að selja viðhaldspakka fyrir eldri holur. „Rör og þrýstilokar geta ryðgað og stundum stíflast holur. Allt þetta gætum við þjónustað. Mig langar að búa til skilgreinda þjónustupakka í kringum holuviðhaldið. Það yrði þá einmitt til að minnka sveiflur í rekstrinum.“
Önnur möguleg framtíðarverkefni gætu snúið að því að koma sér fyrir á fleiri stöðum í borferlinu. Þar á Sveinn til dæmis við holuhönnun. „Það snýst um hvert á að bora – hvernig holan lítur út. Á að fara beint niður eða út á hlið, o.s.frv. Grandskoða þarf jarðlögin og hanna holuna miðað við efnasamsetningu. Einnig þarf að gaumgæfa allan vélbúnaðinn. Hver er rétta borkrónan miðað við aðstæður, hvernig á skolvökvinn sem dælir svarfinu upp úr holunni að vera o.s.frv.“
Skolvökvanum er eins og Sveinn lýsir dælt með miklum þrýstingi niður borstrenginn – rörið sem fer ofan í jörðina. Vökvinn hefur bæði það hlutverk að snúa borkrónunni og flytja efni úr holunni upp á yfirborðið. Þar er efnið síað og því að lokum fargað. Vökvinn nýtist svo aftur og aftur.
Borframkvæmdin er annars í stuttu máli þannig að borað er ofan í jörðina og nýjum borstöngum bætt við í sífellu eftir því sem dýpra er farið. Þá er sett fóðring, stálrör í réttri breidd, ofan í holuna og steypu er dælt milli holu og fóðringar. „Ef það væri ekki gert myndi jarðefni hrynja úr veggjunum og holan stíflast,“ útskýrir Sveinn.
Ekki er óalgengt að það tekið geti tvo mánuði að bora tveggja kílómetra djúpa holu með öllum frágangi.
Sveinn ítrekar hve sérhæfð starfsemin er. Ekki er til dæmis nóg að dæla venjulegri steypu í holuna. Jarðboranir reka því sína eigin steypustöð sem framleiðir efni, sérhannað fyrir aðstæður í hverri holu. Steypunni er svo dælt niður undir miklum þrýstingi.
Blaðamaður fær að skoða aðstöðu Jarðborana á Álhellu í Hafnarfirði. Þar eru borar geymdir og þeim haldið við á milli verkefna. Gríðarlegur varahlutalager er einnig á staðnum. „Það getur verið dýrt spaug ef stöðva þarf borun vegna skorts á varahlutum. Við verðum því alltaf að eiga nóg til.“
Sveinn segir að borar eins og þeir sem Jarðboranir eiga og reka kosti álíka mikið og frystitogari. Tækin séu enda engin smásmíði og margt sem þurfi að fylgja þeim á athafnasvæðin. „Til dæmis getum við dregið minnsta borinn okkar, Sleipni, á dráttarbíl, en honum fylgja síðan um tuttugu gámar með aðstöðu fyrir starfsfólk, rafstöð, varahlutalager og margt fleira. Með stærstu borunum fylgja kannski eitt hundrað gámar.“
Til samanburðar rekur Ræktunarsambandið smærri bora allt niður í tæki sem hægt er að draga á bíl og einn til tveir menn geta stjórnað.
Nokkur samkeppni er á íslenskum markaði fyrir minni borverkefni en eins og fyrr sagði eru Jarðboranir eina fyrirtækið sem leggur áherslu á djúpar háhitaholur.
Ræktunarsambandið hefur að sögn Sveins vaxið hratt undanfarið, meðal annars vegna vel heppnaðra verkefna fyrir laxeldisfyrirtæki.
Unnið öll útboð
Háhitaholur á Íslandi eru gjarnan boðnar út á Evrópska efnahagssvæðinu. Hingað til hefur enginn samkeppnisaðili boðið betur en Jarðboranir sem þekkja íslenskar aðstæður og búa yfir áratugareynslu af borrekstri hér á landi. „Við höfum síðan fyrirtækið var stofnað á fimmta áratug síðustu aldar komið að öllum háhitaverkefnum á Íslandi,“ segir Sveinn. „Við erum lykilaðili í útvegun grænnar orku sem hitar upp samfélög hér á landi og býr til rafmagn.“
Að fjölga verkefnum fyrir stóru borana er forgangsmál að mati Sveins. „Það eykur kostnað við verkefnin ef borarnir, sem hver og einn kostar milljarða króna, þurfa kannski að standa ónotaðir um lengri tíma.“
Um framtíðarverkefni Jarðborana segir Sveinn að nú séu aðstæður með þeim hætti í Evrópu að ráðamenn horfi í síauknum mæli til jarðhita sem orkugjafa. Ástæðan er m.a. hækkandi gasverð vegna stríðsins í Úkraínu. „Það er einnig horft til öryggisaðstæðna, að vera ekki háð fjarlægum löndum með orku. Það getur verið erfitt að búa við þá ógn að skrúfað verði fyrir gasið ef framleiðandanum líkar ekki við þig.“
Jarðboranir eru að sögn Sveins eina borfyrirtækið í heiminum sem borar eingöngu eftir jarðhita. „Flestir eru í olíu og gasi. Einhvers staðar sá ég að í heiminum væru boraðar sextíu þúsund borholur á ári. Þar af eru kannski bara 250 jarðhitaholur. Hinar 59.750 eru olíu- og gasholur. Jarðhitaholurnar eru bara dropi í hafið.“
En umræða og aðstæður í Bandaríkjunum og Evrópu eru að breytast eins og Sveinn nefnir. Umskiptin eru hæg en þegar breytingin raungerist getur vöxturinn í djúpborunar- og háhitaverkefnum orðið hraður að mati forstjórans.
Spurður að því hvernig fyrirtækið finni tækifæri í útlöndum segir Sveinn að félagið fylgist vel með, sé þekkt í þessum bransa og ræði við önnur fyrirtæki um samstarf. „Við höfum til dæmis verið að skoða hvort hægt sé að fjárfesta í minni borfyrirtækjum erlendis með það að markmiði að stækka og bæta stærri borum inn í reksturinn.“
Um möguleg verkefni í Evrópu segir Sveinn að stórir hlutar álfunnar séu köld svæði. „Það þarf oft að bora 1-2 km djúpa holu eftir 60-80 gráðu heitu vatni, sem er miklu kaldara vatn en við fáum upp úr jörðinni hér á landi. Á Íslandi fáum við upp gufu sem er kannski tvö hundruð gráðu heit. Hún nýtist þá bæði til að hita vatn og framleiða rafmagn.“
Til að framleiða rafmagn þarf hola að skila a.m.k. rúmlega 100 gráðu hita að sögn Sveins. Hinsvegar nýtist kaldara vatn, t.d. 60 gráðu heitt, til að hita hús ef notaðar eru varmadælur.
25% allrar orku í heiminum fara til samgangna. 50% fara í að hita eða kæla hús. „Húshitun og -kæling er tvöfalt orkufrekari en allar samgöngur í heiminum, flug, bílar, skip o.s.frv.,“ segir Sveinn. „Ef þú getur gert þessa orku náttúruvænni og ódýrari og fært hana nær þér, er það mikill ávinningur.“
Ódýrasta miðað við megavattstund
Eins og forstjórinn útskýrir eru keppinautar háhitavirkjana m.a. fyrirtæki sem framleiða sólar-, vind- og vatnsorku sem allt eru umhverfisvænir orkugjafar. „Viðskiptavinurinn er alltaf að leita að ódýrustu orku miðað við megavattstund en með lágmarksáhættu. Þú vilt fá eins stöðuga orku og hægt er. Kostur vindorku til dæmis er að áhættan er lítil. Þú hefur allar upplýsingar um vind á svæðinu en ókosturinn er að þegar ekki blæs er engin orka. Það sama gildir um sólarorku. Jarðvarminn býður hinsvegar upp á stöðuga orku, allan sólarhringinn árið um kring. En það getur verið mjög dýrt að bora holuna og stundum er erfitt að spá um það hvað kemur upp úr henni. Það er því stór áhættuþáttur. Við höfum með öðrum orðum margt fram yfir hina orkugjafana en þurfum að þróa leiðir til að lækka kostnað og besta leiðin til að gera það er að bæta skipulag borana í samstarfi við orkufyrirtækin og hámarka þannig nýtingu fjárfestingarinnar. Einnig þurfum við að gera framkvæmdina fyrirsjáanlegri til að minnka áhættuna.“
Sem dæmi um óvissuna við borverkefnin gæti hola annaðhvort skilað einu megavatti eða fimmtán. „Húsavík er til dæmis að nota 5-7 MW. Ein 15 MW hola gæti dugað fyrir þrjá bæi af þeirri stærðargráðu.“
Allir borar Jarðborana nema Þór eru dísilknúnir. Sveinn segir að viðskiptavinir leggi þunga áherslu á rafvæðingu boranna. Það myndi þýða mikinn sparnað, bæði í peningum og fyrir umhverfið. Þúsundir lítra af olíu fara í að halda borunum gangandi á hverjum degi. Ef borarnir væru rafvæddir væri hægt að tengja þá beint við raforkukerfi landsins. „Það kostar okkur hundruð milljóna að rafvæða bor. Við erum búin að undirbúa þetta lengi en bíðum eftir að fá verkefni sem réttlætir fjárfestinguna.“
Mikil tímamót
Síðastliðið sumar voru keyptar rafmagnsloftpressur sem virka fyrir alla bora Ræktunarsambands Flóa og Skeiða. „Það minnkar olíunotkun boranna um allt að 70%,“ segir Sveinn og bætir við að um mikil tímamót sé að ræða í rekstri þess félags.
Dísilvélarnar geta þó ekki horfið alfarið úr starfsemi samstæðunnar því að á sumum stöðum er enginn aðgangur að rafmagni. „Ef við erum til dæmis að bora rannsóknarholu uppi á fjalli er ekki víst að það sé rafmagn nálægt.“
Þá segir Sveinn til útskýringar að ef borað yrði eingöngu á rafmagni t.d. á lítilli eyju í Karíbahafinu gæti borinn mögulega verið að nota meira rafmagn en er til í samfélaginu. „Rafvæðing er stórt atriði hjá okkur þegar fram í sækir en við getum ekki gert þetta alveg ein. Við verðum að hafa stjórnvöld og viðskiptavini með í liði.“
Um rekstur fyrirtækisins segir Sveinn að síðustu ár hafi verið erfið. Faraldurinn setti strik í reikninginn og hafði áhrif á eftirspurn í geiranum. „Við sjáum núna fram á talsvert stærra ár en í fyrra. Sömuleiðis horfum við fram á verulegan vöxt á næstu árum. Það er bjart fram undan í bransanum.“
Þó að veltan sé mikil, kannski um sjö milljarðar, þá eru viðskiptavinir fáir og kostnaður gríðarlegur við allar framkvæmdir. Til viðbótar komi biðtími og óhjákvæmilegar bilanir.
Sveinn lýkur lofsorði á starfsfólk Jarðborana og Ræktunarsambandsins. Það hafi mikla þekkingu, kraft og vilja til að klára hlutina. Mikil fagmennska og sérhæfð þekking sé í félögunum.
Um framhaldið segir Sveinn að Jarðboranir hafi mikinn hug á að vaxa meira. „Við erum þekkingarfyrirtæki með mikil tækifæri. Það er gríðarlega mikilvægt að hafa sterka bakhjarla eins og eigendur okkar Kaldbak, fjárfestingarfélag Samherja, og norska borfyrirtækið Archer, sem geta stutt okkur þegar gefur á bátinn og ýtt undir vöxt þegar tækifæri gefast.“
Hann segir að það borgi sig fyrir Jarðboranir að vaxa til að ná meiri stærðarhagkvæmni. „Ef borunum fjölgar þarf ekki að auka yfirbygginguna í sama hlutfalli. Við erum með þrjá stóra bora í dag en það væri betra að vera með 5-6. Við trúum á mikinn vöxt í háhitageiranum, enda eru fyrirspurnir frá Evrópu og víðar fjölmargar. Meira að segja frá Arabalöndunum jafn skringilega og það kann að hljóma. Þeir vilja bora eftir hita til að kæla húsin með varmaskiptum,“ segir Sveinn að endingu.