Kristján Valur Ingólfsson
Á komandi ári, 2024, verða liðin 350 ár frá því að sálmaskáldið og presturinn Hallgrímur Pétursson lést. Ártíðar hans, hinn 27. október 2024, verður væntanlega víða minnst, en ekki síst í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, þar sem þau hjónin Guðríður Símonardóttir og Hallgrímur Pétursson áttu góð ár 1651-1667. Þar samdi Hallgrímur Passíusálmana sem haldið hafa nafni hans lengst og best á lofti og gefið trúarlífi þjóðarinnar kraft og styrk kynslóð eftir kynslóð. Vegna þess hve sálmar Hallgríms höfðu gert mikið fyrir Guðs kristni í landinu var á sínum tíma ákveðið að reisa veglega kirkju í Saurbæ til minningar um sálmaskáldið og kenna hana við nafn hans. Hallgrímskirkja í Saurbæ var vígð árið 1957. Byggingarsaga hennar er löng og væri verðugt að gera henni ítarleg skil. Kirkjan er fagurt guðshús og vel búið listaverkum.
Söfnuður Hallgrímskirkju í Saurbæ og vinir hennar vilja minnast 350. ártíðar Hallgríms Péturssonar með eins myndarlegum hætti og kostur er. Það verkefni er í raun þegar hafið. Á undanförnum árum hefur kirkjunni verið gert gott til með aðstoð einstaklinga og kirkjuyfirvalda. Kirkjan hefur verið máluð að utan og gert við steypusprungur, listgluggar Gerðar Helgadóttur voru sendir til Þýskalands til viðgerðar og hreinsunar og flóðlýsing kirkjunnar hefur verið endurbætt. Þá hefur hleðsla í grunni gömlu kirkjunnar verið lagfærð og hlaðin upp að nýju. Þá hefur einnig Hvalfjarðarsveit sett upp og kostað myndarlegt söguskilti um staðinn og kirkjuna og þau Hallgrím og Guðríði.
Af þeim verkefnum sem fyrirhuguð eru má nefna að legsteinn Hallgríms sem nú er á gröf hans verður fluttur inn í kirkjuna til þess að varðveita hann þar fyrir frekari veðrun, en gerður nýr minningarsteinn með nöfnum þeirra hjóna beggja til að leggja á leiðið. Hallgrímslind, sem áður fyrr var hlaðinn brunnur, verður endurgerð og unhverfi hennar lagfært svo að öllum verði fært að lindinni. Leggja á nýjan göngustíg að Hallgrímssteini og gera nýjar merkingar til að auðvelda ferðafólki að finna þessa þrjá staði sem kenndir eru við nafn Hallgríms. Auk kirkjunnar eru það Hallgrímslind, Hallgrímsstein og gröf Hallgríms. Ennfremur er ætlunin að bæta aðstöðu fyrir helgihald og menningarviðburði í kirkjunni og koma upp sýningaraðstöðu fyrir ritverk Hallgríms og sögu þeirra hjóna Guðríðar og hans. Dr. Torfi Stefánsson Hjaltalín, sem ritaði ævisögu Jóns biskups Vídalín, er að rita ævisögu Hallgríms sem kemur út fyrir dánarafmælið á næsta ári.
Söfnuður Hallgrímskirkju í Saurbæ er fámennur. Til þess að styðja þessi áform öll hefur þess vegna verið ákveðið að stofna Hollvinafélag Hallgrímskirkju í Saurbæ. Stofnfundurinn verður haldinn á dánardegi Hallgríms 27. október næstkomandi og hefst klukkan 19.30. Þar verða samþykkt lög félagsins og valin fyrsta stjórn þess til að fara með málefni félagsins fram að fyrsta aðalfundi árið 2024. Þar verða einnig lögð drög að stofnun sjóðs til að taka við frjálsum framlögum og styrkjum til þeirra verkefna sem Hollvinafélagið mun beita sér fyrir. Í drögum að lögum félagsins kemur fram að tilgangur þess er að styðja við kirkjulegt og menningarlegt starf í Hallgrímskirkju í Saurbæ og á staðnum sem efli áhrif kristinnar trúar og kristinnar menningar í íslensku þjóðlífi og standi vörð um verk og nafn Hallgríms Péturssonar og þær menningarminjar er tengjast nafni hans og Guðríðar Símonardóttur í Saurbæ.
Að stofnfundinum loknum verður dagskrá í kirkjunni með erindum og tónlist. Daginn eftir, laugardaginn 28. október, verða tónleikar í kirkjunni klukkan fimm síðdegis og sunnudaginn 29. október verður messa klukkan ellefu fyrir hádegi.
Hallgrímur Pétursson á marga vini meðal landsmanna. Trúareinlægni hans og guðstraust í Jesú nafni hefur fylgt kynslóðunum sem hafa haft vers hans á vörum frá fyrstu bernsku til hárrar elli. Það er verðugt verkefni að halda nafni hans á lofti og þeirra hjóna beggja jafnt í menningarlífi sem kristnilífi í landinu.
Höfundur er fyrrverandi vígslubiskup Skálholtsumdæmis.