Norður
♠ KDG2
♥ ÁG82
♦ G
♣ DG85
Vestur
♠ 10984
♥ 5
♦ 104
♣ 976432
Austur
♠ 7653
♥ D10963
♦ ÁD97
♣ –
Suður
♠ Á
♥ K74
♦ K86532
♣ ÁK10
Suður spilar 6♦.
„World Bridge Tour“ er regnhlífarheiti yfir alþjóðlega mótaröð, sem atvinnuspilarar komu á koppinn í kóvíd til að mæta fyrirsjáanlegum tekjumissi. Til að byrja með var aðeins spilað á netinu, en nú er búið að skipuleggja nokkur „lifandi“ mót undir formerkjum WBT víðs vegar um heiminn. Fyrsta mótið fór fram í Kaupmannahöfn í síðustu viku og það næsta verður í Reykjavík í janúar í tengslum við bridshátíð. Spil dagsins er frá undanúrslitaleik Peters Schaltz og Anne-Marie Lundberg í Kaupmannahöfn. Liðsmenn Schaltz spiluðu 4G á öðru borðinu og unnu fimm (+660), en Svíarnir Simon Hult og Peter Bertheau þvældust í vonlausa tígulslemmu, sem endaði fimm niður (-500) eftir mikið víxltromp í vörninni. Spilið tryggði Schaltz-sveitinni nauman sigur í leiknum og síðan vann Schaltz úrslitaleikinn við Herve Vinciguerra með einum impa (33-32)!