Það var merkjanlega minni umferð á höfuðborgarsvæðinu í gær þegar konur í borginni lögðu niður störf vegna kvennafrídagsins. Reykjavíkurborg tók saman tölur frá 66 teljurum innan höfuðborgarsvæðisins í gærmorgun á annatímanum frá 7-9 þegar fólk er á leið til vinnu og kom í ljós að tæplega þriðjungi minni umferð var í gær en hefðbundna vinnudaga, eða um 28% minni umferð.
Þegar umferðarteljarar voru skoðaðir á vef Vegagerðarinnar virtist sem umferð almennt á höfuðborgarsvæðinu væri minni en venjulega daga, en þó gæti hún hafa aukist þegar leið á daginn. Mikil umferð í átt að miðborginni gæti því hækkað þessar umferðartölur þegar hægt verður að gera upp umferðartölurnar í dag.
Á vef Reykjavíkurborgar segir að meira hafi orðið vart við minni umferð á íbúðagötum en á stofnæðum borgarinnar.