„Verkið sem er fram undan í komandi kjarasamningum er risavaxið,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands (SGS). Þriggja daga þing sambandsins hefst í Reykjavík í dag og verða þar m.a

„Verkið sem er fram undan í komandi kjarasamningum er risavaxið,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands (SGS). Þriggja daga þing sambandsins hefst í Reykjavík í dag og verða þar m.a. lagðar línurnar í kjaramálum og starfsemi SGS til næstu þriggja ára. Fyrir þinginu liggja m.a. drög að ályktun um kjaramál þar sem áhersla er lögð á aðgerðir vegna verðbólgunnar, hárra vaxta og ástandsins í húsnæðismálum og er lagt til að tekið verði upp alveg nýtt húsnæðislánakerfi, samið verði um krónutöluhækkanir og gerðar verði breytingar á skattkerfinu.

Tækifæri til að gera Landsbankann að samfélagsbanka

Komandi kjarasamningar verða meðal stærstu mála á þinginu. „Við erum að horfa upp á að okkar félagsfólk er í mjög slæmri stöðu þessa dagana, m.a. vegna mikillar verðbólgu og mjög hás vaxtastigs, sem hefur gert það að verkum að 35% okkar félagsmanna eru með yfirdráttarheimild. Það segir sína sögu um þá alvarlegu stöðu sem er uppi hjá lágtekjufólki, sem er orðið nauðbeygt til þess að framfleyta sér á slíkum lánum, sem bera 17% vexti,“ segir Vilhjálmur.

„Niðurstaðan sem menn eru að tala um núna er að það verði að taka á þessum málum í eitt skipti fyrir öll sem lúta að fjármálakerfinu. Það er að soga til sín stóran hluta ráðstöfunartekna lágtekjufólks og lægra millitekjufólks. Ég held að eitt af þeim málum sem verða örugglega til umræðu sé að taka upp nýtt húsnæðislánakerfi eins og er í löndum sem við berum okkur saman við. Það er síðan kjörið tækifæri til að gera banka sem íslenska þjóðin á, Landsbankann, að samfélagsbanka, þannig að hann þjónusti neytendur, heimili og smærri fyrirtæki án þess að þurfa að taka þátt í þeirri yfirgengilegu arðsemiskröfu sem er í gangi núna,“ segir hann.

Á þinginu verða einnig byggðamál og heilbrigðismál ofarlega á baugi. Alls eiga 135 fulltrúar frá 18 aðildarfélögum SGS rétt til setu á þinginu. Það hefst kl. 15 í dag með ávörpum félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, forseta ASÍ og formanns SGS. Á föstudag fer fram kosning stjórnar SGS og staðfesti Vilhjálmur í gær að hann gæfi áfram kost á sér sem formaður. omfr@mbl.is