Halldóra Anna Hagalín og Viðar Bjarnason voru nýbökuð hjón fyrir ári þegar þeim bauðst að kaupa Kvennastyrk, en líkamsræktarstöðin hefur þá sérstöðu að vera ætluð konum eingöngu. Þau hafa náð að efla reksturinn á ýmsa vegu en samhliða því að sinna fyrirtækinu í fullu starfi tekur Halldóra að sér aukaverkefni sem spanna allt frá vefsíðugerð yfir í umsjón markaðsmála.
Hverjar eru helstu
áskoranirnar í rekstrinum
þessi misserin?
Við opnuðum dyrnar að Kvennastyrk undir okkar merkjum um verslunarmannahelgina í fyrra og höfum lært gríðarlega mikið á þessu rúma ári sem við höfum verið í rekstri og rekið okkur á fjölmargt sem við höfum þurft að takast á við. Rekstur er ekki eitthvað sem maður sjálfkrafa kann en við höfðum bæði hjónin reynslu og menntun í rekstri þótt síðastliðið ár hafi verið mikill skóli.
Dagarnir mínir eru afar fjölbreyttir enda verkefnin fjölbreytt og þeir byrja mjög snemma en við hjónin vöknum rétt fyrir hálfsex á morgnana, burstum tennur og Viðar gefur okkur vítamínin okkar. Áður en konurnar mæta svo í fyrsta tíma á morgnana erum við búin að drekka fyrsta kaffibollann og fara yfir verkefni dagsins. Eins og gengur og gerist í eigin rekstri vilja dagarnir verða býsna langir og erum við heppin og þakklát krökkunum okkar fyrir sýnda þolinmæði fyrir sveigjanlegum tímasetningum á kvöldmat. Við erum náttúrlega bara rétt að slíta barnsskónum í rekstri og erum nýorðin eins árs. Þetta hefur verið æði viðburðaríkt ár.
Hvert væri draumastarfið
ef þú þyrftir að finna
þér nýjan starfa?
Ég er svo heppin að vera í draumastarfinu. Ég og Viðar erum samstiga, eigum afar gott með að vinna saman og finnst hvoru um sig, sem betur fer, hitt mjög skemmtilegt. Ég fæ að þjálfa einstaklega skemmtilegan hóp kvenna á öllum aldri og aðstoða þær við að efla hreysti sína á svo marga vegu. Auk þess fæ ég að sinna verkefnum á borð við heimasíðugerð og markaðsgrúsk fyrir alls konar fyrirtæki og einstaklinga. Nýverið tók ég við markaðsmálum hjá Vinnupöllum, sem er áhugavert fyrirtæki á líflegum og skemmtilegum markaði. Þannig næ ég að vera á hreyfingu stóran part úr degi en á sama tíma halda mér á tánum og nýta fyrri starfsreynslu mínu á fjölbreyttan hátt ásamt því að hafa tekið algjöra u-beygju í aðalstarfi sem er í dag rekstur og þjálfun á okkar eigin líkamsrækt.
Hvað gerirðu til að fá
orku og innblástur í starfi?
Umhverfið sem ég er í alla daga gefur mér innblástur í að gera betur og leggja mig fram. Ég er jákvæð manneskja að eðlisfari, forvitin og búin óbilandi bjartsýni. Ég var alin upp í þeirri trú að maður eigi alltaf að leggja sig fram, vera heiðarlegur, koma vel fram við annað fólk og sýna menningu annarra virðingu. Það hefur fylgt mér frá barnæsku og reynum við hjónin að ala okkar börn upp í því sama, sem ég held að sé að takast nokkuð vel. Við erum afar stolt af öllum börnunum okkar sem leggja sig öll fram, hvert á sínu sviði, um að gera sitt besta á hverjum degi. Ég fæ orku úr því að sjá börnin okkar dafna og að upplifa að vinna okkar skilar árangri.
Hvaða kosti og galla sérðu
við rekstrarumhverfið?
Það var margt sem breyttist í heimsfaraldrinum og meðal annars breyttist hinn almenni vinnumarkaður gríðarmikið fyrir marga. Nútímavinnumarkaður býður upp á aragrúa af tækifærum fyrir fólk sem kýs að vinna ekki hefðbundna vinnu á hefðbundnum vinnutíma. Svokallað giggarasamfélag hefur farið ört stækkandi um allan heim og ekki síst á Íslandi. Það er kjörið fyrir fyrirtæki og einstaklinga í atvinnurekstri að fá til sín fólk í ýmis verkefni sem þarf ef til vill ekki heilt stöðugildi til að leysa og hægt er að sinna hvaðanæva. Þannig fá fyrirtæki til sín einstaklinga sem vinna að ákveðnum verkefnum, þörf fyrir stórar skrifstofur minnkar og hægt er að greiða fyrir ákveðin verkefni eða umsamda vinnu.
Ég tel að einstaklingar sem og fyrirtæki græði mikið á því að njóta þjónustu giggara fyrir fjölbreytt verkefni og hér á Íslandi hefur fyrirtækið Hoobla til að mynda gert afar vel í að koma á framfæri verkefnum til einstaklinga sem og að opna augu fyrirtækja fyrir þessum möguleikum.
Skipulag er afar mikilvægt þegar maður starfar sem giggari samhliða öðrum verkefnum. Ég er alltaf að reyna að bæta mig þar en mín mesta áskorun er að halda utan um tímana mína og skrá allt niður. Ég sinni öðrum verkefnum í nokkrum hollum yfir daginn, byrja yfirleitt um sexleytið og reyni að verða þá ekki óþolinmóð þegar fólk hefur ekki svarað tölvupóstum frá mér fyrir klukkan átta á morgnana.
Ævi og störf
Nám: MBA frá Háskóla Íslands 2020; NASM-einkaþjálfunargráða 2023.
Störf: Verkefnastjóri hjá 365 miðlum 2001 til 2005; rit- og markaðsstjórn hjá Birtíngi 2005 til 2013; markaðs- og vefstjórn og þróun hjá Heklu 2014 til 2022; giggari, eigandi, framkvæmdastjóri og þjálfari hjá Kvennastyrk frá 2022.
Áhugamál: Ég er svona stemningsmanneskja og finnst flest skemmtilegt umvafin góðu fólki. Ég hef afar gaman af því að ferðast en geri alls ekki nóg af því, göngur og hjólreiðar fara líka á þann lista. Mér finnst mjög gaman að lyfta og stunda líkamsrækt sem er heppilegt þar sem dagarnir mínir fara einmitt að megninu til fram þar. Svo er ég líka matargat og eru uppáhaldsstundirnar mínar gjarnan í eldhúsinu með eiginmanninum þar sem við eldum í kross eða þegar ég tek mig til og skelli í bakstur.
Fjölskylduhagir: Gift Viðari Bjarnasyni og við eigum Mikael Aron, Natan Blæ, Emmu Karen, Marinó Mána og Agnesi Völu.