Þó nokkur umræða hefur átt sér stað hjá seðlabönkum í hinum vestræna heimi um hvort fýsilegt sé að taka upp seðlabankarafeyri. Seðlabanki Íslands fylgist með stöðunni en verður ekki leiðandi í þessum efnum.
Þó nokkur umræða hefur átt sér stað hjá seðlabönkum í hinum vestræna heimi um hvort fýsilegt sé að taka upp seðlabankarafeyri. Seðlabanki Íslands fylgist með stöðunni en verður ekki leiðandi í þessum efnum. — Morgunblaðið/Ómar
Á undanförnum misserum hafa ýmsar þjóðir skoðað hvort fýsilegt sé að innleiða seðlabankarafeyri. Seðlabankarafeyrir er rafræn útgáfa seðlabanka á gjaldmiðli viðkomandi ríkis. Seðlabankarafeyrir er eina tegund peninga sem uppfyllir samtímis skilyrði…

Á undanförnum misserum hafa ýmsar þjóðir skoðað hvort fýsilegt sé að innleiða seðlabankarafeyri. Seðlabankarafeyrir er rafræn útgáfa seðlabanka á gjaldmiðli viðkomandi ríkis. Seðlabankarafeyrir er eina tegund peninga sem uppfyllir samtímis skilyrði um að vera rafrænn, aðgengilegur almenningi og gefinn út af seðlabanka, að því er fram kemur í umræðuskýrslu sem gefin var út af Seðlabanka Íslands í mars á þessu ári. Almenningur hefur hingað til aðeins haft aðgang að seðlabankafé í formi seðla og myntar. Hins vegar hafa innlánsstofnanir almennt haft aðgengi að rafrænu seðlabankafé á reikningum sínum í seðlabönkum og í greiðslukerfum seðlabanka.

Fjártækniklasinn og Seðlabanki Íslands stóðu á dögunum fyrir umræðufundi þar sem fjallað var um seðlabankarafeyri. Þar héldu erindi þau Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, William Zhang, frá BIS Innovation Hub Nordic Centre, og Jón Helgi Egilsson, meðstofnandi Monerium. Að erindunum loknum fóru fram pallborðsumræður sem Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóri Fjártækniklasans, stýrði. Í pallborði voru Rannveig Sigurðardóttir, Jón Helgi Egilsson, Marinó Örn Tryggvason, fv. bankastjóri Kviku, Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, og Kristján Ingi Mikaelsson, formaður Rafmyntaráðs og meðstofnandi Visku Digital Assets. Umræðurnar voru líflegar og skiptar skoðanir voru um málefnið.

Fylgst með þróuninni

Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að mikil umræða hafi átt sé stað hjá seðlabönkum í hinum vestræna heimi í þessum efnum. Hann segir að Seðlabanki Íslands fylgist að sjálfsögðu með þróuninni.

„Seðlabanki Íslands er lítill seðlabanki þannig að hann mun ekki verða leiðandi þegar kemur að tækninýjungum sem þessum en það er mikilvægt að við fylgjumst með. Það eru þó engar vangaveltur uppi um að fara strax af stað með það verkefni að gefa út íslenska rafkrónu,“ segir Gunnar.

Jón Helgi Egilsson, stofnandi Monerium, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að svarið við spurningunni hvort seðlabankarafeyrir sé góð hugmynd eða ekki sé breytilegt eftir því hver sé spurður.

„Þetta snýst í rauninni um hvað menn telji að sé eðlileg verkaskipting milli ríkis og einkaaðila. Hagfræðingar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og prófessorar í háskólum í Bandaríkjunum hafa bent á að treysta ætti rafeyrisfyrirtækjum til að stunda nýsköpun og að hlutverk seðlabanka eigi að vera að tryggja öryggi og tiltrú á gjaldmiðilinn.“

Jón Helgi bætir við að umræðan um hvort innleiða ætti seðlabankarafeyri hafi ekkert að gera með þá staðreynd að um sé að ræða nýja tækni.

„Tökum sem dæmi að ef debetkort væru að ryðja sér til rúms í dag. Ætti þá það að vera hlutverk seðlabanka að gefa út debetkort? Ég er bara einfaldlega ekki sammála því,“ segir Jón Helgi.

Geti mögulega ógnað fjármálastöðugleika

Það hafa verið uppi sjónarmið um að innleiðing seðlabankarafeyris geti mögulega komið til með að ógna fjármálastöðugleika.

Jón Helgi segir að slík innleiðing geti aukið hættuna á bankaáhlaupi verulega og ýmsar rannsóknir styðji þá fullyrðingu.

„Það gefur augaleið að ef það er ótakmarkað hvað þú getur keypt af seðlabankarafeyri þá færir þú þínar eignir yfir til Seðlabankans ef það er efi um rekstarhæfi banka. Það kallast bankaáhlaup og það er það sem menn hafa áhyggjur af.“

Gunnar segir að hann hafi ekki trú á því að innleiðing seðlabankarafeyris komi niður á fjármálastöðugleika sé það gert með réttum hætti.

„Við erum búin að vinna að fjármálastöðugleika frá upphafi bankakerfa. Allar nýjungar eru þannig að huga þarf að því hvernig þær eru innleiddar og gera þarf ráðstafanir um hvernig koma megi í veg fyrir að þessi breyting hafi áhrif á fjármálastöðugleika. Ef þetta er innleitt með röngum hætti getur þetta vissulega haft áhrif á fjármálastöðugleika,“ segir Gunnar en bendir á að afleiðingarnar geti líka verið jákvæðar.

„Peningar eru undirstaða hagkerfisins og þetta gæti hjálpað við að auka hagvöxt ef hægt yrði að minnka kostnað af greiðslumiðlun. Það er að minnsta kosti möguleiki en enn sem komið er þá er ekki fyrirséð hvort það muni gerast.“

Taka verði umræðuna af yfirvegun

Þær þjóðir sem hafa skoðað að innleiða seðlabankarafeyri hafa íhugað að setja fjárhæðarmörk á það hversu mikið fólk geti keypt af rafeyrinum.

Jón Helgi segir að sér finnist sú lausn frekar kjánaleg og markmiðið ætti að vera að búa til lausn sem sé nothæf í viðskiptum.

„Þetta snýst allt um að fá svar við spurningunni hvaða vandamál er verið að leysa. Að mínu mati er mikilvægast að jafna samkeppnisstöðu milli viðskiptabanka og rafeyrisfyrirtækja.“

Gunnar segir að einhverjar þjóðir hafi áhyggjur af fjármögnun bankakerfisins verði seðlabankarafeyrir innleiddur en kveðst ekki hafa áhyggjur af að sú staða komi upp ef þetta yrði gert með réttum hætti.

„Bahamaeyjar settu fjárhæðarmörkin 10.000 dollara á einstakling. Ástæðan er sú að ef þú hefur greiðan aðgang að seðlabankarafeyri er hægt að færa innlán úr bankakerfinu yfir í seðlabanka með skjótum hætti og þar með gæti fjármögnun bankakerfisins verið ógnað. Ég tel hins vegar að þetta sé ekki meiri ógn en seðlar og mynt ef þetta er gert með réttum hætti.“