Tökur Björn Jörundur, Arna Magnea Danks og Hjálmar Örn fara með lykilhlutverkin myndinni sem er nú í tökum.
Tökur Björn Jörundur, Arna Magnea Danks og Hjálmar Örn fara með lykilhlutverkin myndinni sem er nú í tökum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hörður Vilberg hordur@mbl.is Tökur á nýrri kvikmynd sem nefnist Ljósvíkingar eru hafnar í Bolungarvík. Þar er sögð þroskasaga transkonu á Vestfjörðum sem starfar í sjávarútvegi. Kvikmyndafélag Íslands er framleiðandi myndarinnar en það framleiddi einnig Sódómu Reykjavík sem naut mikilla vinsælda um árið og Lof mér að falla auk fjölda annarra mynda.

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

Tökur á nýrri kvikmynd sem nefnist Ljósvíkingar eru hafnar í Bolungarvík. Þar er sögð þroskasaga transkonu á Vestfjörðum sem starfar í sjávarútvegi. Kvikmyndafélag Íslands er framleiðandi myndarinnar en það framleiddi einnig Sódómu Reykjavík sem naut mikilla vinsælda um árið og Lof mér að falla auk fjölda annarra mynda.

Umskipti

Myndin, sem heitir Odd Fish á ensku, fjallar um Björn, fjölskyldumann sem ákveður að söðla um í lífinu og gerast transkona. „Í grunninn fjallar myndin um tvo æskufélaga, Hjalta og Björn, sem stofna saman og reka veitingastað. Annar er alltaf að fara suður í læknisviðtöl út af bakinu á sér en svo kemur í ljós að hann er að breyta sér í konu,“ segir Ingvar. „Þá reynir á vinskapinn.“

Björn Jörundur fer með aðalhlutverkið á móti Örnu Magneu. „Sem er transkona.“ Fráfall föður sögupersónunnar Björns varð til þess að hann tók þessa ákvörðun og tók upp nafnið Birna. Hún þarf að takast á við fordóma samfélagsins en jafnframt sína eigin.

Framleiðandinn er örlítið leyndardómsfullur og vill ekki gefa of mikið upp um söguþráðinn. Tökur ganga vel að sögn Ingvars sem unir sér vel fyrir vestan. „Maður er búinn að vera í þessu í þrjátíu ár en það er búið að ganga frábærlega. Við Björn Jörundur byrjuðum báðir okkar feril í Sódómu Reykjavík og að sjálfsögðu er Helgi Björns í myndinni líka.“

Vestfirðir sögusviðið

Myndin er nánast öll tekin upp fyrir vestan. „Við höfum fengið mikinn meðbyr og stuðning frá öllum hérna. Myndin á að gerast í litlum bæ. Menn voru ekkert að láta breyta sér mikið í konur í litlum bæjum á Íslandi á árum áður en það kom flatt upp á ýmsa.“ Veiga Grétarsdóttir kajakræðari sem réri rangsælis í kringum landið með eftirminnilegum hætti til að vekja athygli á málefnum transfólks skrifaði handritið ásamt leikstjóranum Snævari Sölvasyni sem er fæddur og uppalinn í Bolungarvík og þekkir því vel til staðhátta.

Á alþjóðlegan markað

Myndin er hugsuð fyrir innlendan og alþjóðlegan markað. „Við höfum nú þegar fengið nokkra athygli erlendis,“ segir Ingvar en myndin verður þó fyrst sýnd hérna heima. Hann hugsar greinilega stórt og telur möguleika á dreifingu myndarinnar vera mikla. „Þetta er talsvert umfangsmikil mynd á íslenskan mælikvarða,“ segir hann án þess að vilja gefa nákvæman framleiðslukostnað upp.

Höf.: Hörður Vilberg