Landsliðsæfing Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir í góðum gír á æfingu íslenska liðsins á Salavelli í Kópavoginum í gærdag.
Landsliðsæfing Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir í góðum gír á æfingu íslenska liðsins á Salavelli í Kópavoginum í gærdag. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þjóðadeildin Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is „Við erum mjög spenntar að takast á við þetta verkefni og þetta eru tveir leikir sem við ætlum okkur að fá eitthvað út úr,“ sagði Ingibjörg Sigurðardóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið í höfuðstöðvum KSÍ á Laugardalsvelli í gær.

Þjóðadeildin

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Við erum mjög spenntar að takast á við þetta verkefni og þetta eru tveir leikir sem við ætlum okkur að fá eitthvað út úr,“ sagði Ingibjörg Sigurðardóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið í höfuðstöðvum KSÍ á Laugardalsvelli í gær.

Íslenska liðið undirbýr sig nú fyrir tvo mikilvæga leiki gegn Danmörku, 27. október, og Þýskalandi, 31. október, í 3. riðli Þjóðadeildarinnar en báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli.

Íslenska liðið er með 3 stig í þriðja sæti riðilsins, líkt og Þýskaland, en Danmörk trónir á toppnum með fullt hús stiga eða 6 stig eftir fyrstu tvær umferðirnar.

Sigurvegarinn í riðlinum fer áfram í undanúrslit keppninnar sem fram fara í febrúar á næsta ári, og þar verður jafnframt leikið um tvö sæti á Ólympíuleikunum í París á næsta ári. Liðið sem endar í öðru sæti riðilsins leikur áfram í A-deild í undankeppni EM 2025 en liðið sem endar í þriðja sætinu fer í umspil í febrúar gegn liði úr B-deild Þjóðadeildarinnar um sæti í A-deildinni. Liðið sem endar í neðsta sætinu fellur í B-deild en Wales er sem stendur í neðsta sæti riðilsins án stiga.

Vitum hvað við getum

„Ég tek út leikbann gegn Danmörku sem er frekar mikið svekkelsi því ég væri mikið til í að spila gegn danska liðinu. Þær líta virkilega vel út og það hefur verið mikil stígandi hjá þeim frá því Andrée Jeglertz tók við þjálfarastöðunni eftir að heimsmeistaramótinu í Ástralíu og Nýja-Sjálandi lauk. Næstu dagar fara í það að kortleggja danska liðið með tilheyrandi æfingum og fundum,“ sagði Ingibjörg.

Íslenska liðið var talsvert gagnrýnt eftir frammistöðuna gegn Þýskalandi í Bochum þar sem þýska liðið vann afar sannfærandi sigur, 4:0, en íslenska liðið átti ekki marktilraun í leiknum.

„Við höfum alltaf eitthvað að sanna en við erum líka mjög meðvitaðar um þá vegferð sem liðið er á. Við vissum það fyrirfram að útileikurinn gegn Þýskalandi yrði líklegasti sá erfiðasti í riðlinum og við fórum ekki inn á þann leik öruggar um það að við myndum vinna hann og taka stigin þrjú með okkur heim. Auðvitað er margt sem við hefðum getað gert betur í þeim leik en við vitum hvað við getum.

Ég var ekki mikið að velta mér upp úr umræðunni eftir leikinn í Bochum en öll umræða um liðið er góð að mínu mati. Það eiga allir rétt á sinni skoðun og það er líka jákvætt að fólki sé ekki sama um liðið og úrslitin. Við viljum líka ná í úrslit og komast á stórmót þannig að ég fagna allri umræðu í kringum liðið.“

Þarf að taka meiri ábyrgð

Ingibjörg, sem er 26 ára gömul, á að baki 55 A-landsleiki fyrir Ísland og hefur farið á tvö stórmót með liðinu þrátt fyrir ungan aldur.

„Ég þarf að taka meiri ábyrgð eftir að margar af reynslumestu leikmönnum liðsins hafa horfið á braut á undanförnum árum og ég er mjög meðvituð um það. Við erum nokkrar innan hópsins núna sem þurfum að stíga upp en fólk þarf líka að gera sér grein fyrir því að það er mikið af ungum leikmönnum í hópnum núna.

Margar þeirra eru að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu og það má alveg segja sem svo að við séum að búa til algjörlega nýtt lið. Það tekur alltaf tíma og það þarf að sýna þessu ákveðna þolinmæði. Á sama tíma er mikilvægt að við höfum áfram trú á því sem við erum að gera og að við gerum hlutina almennilega, bæði innan sem utan vallar.“

Deildirnar úti mun sterkari

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska liðsins, valdi 23 leikmenn fyrir leikina gegn Danmörku og Þýskalandi en þrettán þeirra leika með liðum í Bestu deild kvenna.

„Ég vil ekki meina að það sé eitthvert sérstakt áhyggjuefni að meirihluti leikmannahópsins sé að spila á Íslandi en staðreyndin er samt sú að deildirnar úti eru mun sterkari en deildin hérna heima. Leikmenn þurfa að hafa trú á sér og að þær geti spilað í sterkari deildum því við þurfum fleiri ungar stelpur í atvinnumennsku.

Það er stór munur að spila erlendis og heima og félögin þurfa líka að styðja vel við bakið á þessum ungu leikmönnum og hjálpa þeim að taka skrefið út. Það er líka mikið lagt í það að búa til góða leikmenn hjá atvinnumannaliðunum og þetta snýst að miklu leyti þar um ákveðna leikmannaþróun þar sem Ísland á því miður eitthvað í land ennþá,“ sagði Ingibjörg í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason