1975 Litið yfir Lækjartorg og nærliggjandi svæði á sögulegum kvennafundi 1975. Með honum komust jafnréttismál raunverulega á dagskrá.
1975 Litið yfir Lækjartorg og nærliggjandi svæði á sögulegum kvennafundi 1975. Með honum komust jafnréttismál raunverulega á dagskrá. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Stemningin var einstök og greina mátti að eitthvað lá í loftinu. Kvennaverkfallið var heimsviðburður sem vakti slíka athygli að enn í dag, 48 árum seinna, er rætt og spurt um þennan atburð og allt sem honum fylgdi,“ segir Gerður…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Stemningin var einstök og greina mátti að eitthvað lá í loftinu. Kvennaverkfallið var heimsviðburður sem vakti slíka athygli að enn í dag, 48 árum seinna, er rætt og spurt um þennan atburð og allt sem honum fylgdi,“ segir Gerður Steinþórsdóttir, fyrrverandi framhaldsskólakennari og borgarfulltrúi. Hún var í undirbúningshópi og framkvæmdastjórn kvennafrídags 24. október árið 1975. Konur fóru í verkfall en hápunkturinn var baráttufundur á Lækjartorgi sem allt að 25 þúsund konur sóttu, segir í Morgunblaðinu á þessum tíma.

Jafnréttisbaráttan á áttunda áratugnum var, segir Gerður, í anda erindis kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna og kjörorða hans, sem voru jafnfrétti, framþróun og friður. Ný málefni voru komin á dagskrá og tímarnir að breytast.

„Þetta er ógleymanlegt. Og þótt kvennafrídagurinn og barátta áranna hafi skilað miklu er margt ógert enn og verður alltaf. Jafnrétti á vinnumarkaði og í launum var ofarlega á baugi 1975. Umræða og aðgerðir gegn til dæmis kynbundnu ofbeldi eða kynferðislegu voru enn ekki á dagskrá þegar þetta gerðist. Kvennabaráttan heldur áfram og væntanlega verður aftur verkfall og baráttufundur 2025 þegar hálf öld er liðin frá hinum sögulega atburði árið 1975.“

Mannkynið að kafna í mengun

Á fundinum árið 1975 þótti ræða Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttir, seinna verkalýðsleiðtoga og alþingismanns, sérstaklega kröftug. Þar sagði hún raunar það sem vel gæti átt við í dag, samanber umræðu dagsins um loftslagsmál. „Við viljum mannúðina í öndvegið en grimmdina og græðgina á dyr. Vísindamenn í öllum heiminum segja heiminn á heljarþröm. Svo gálaust hefur verið gengið um jörðina, svo fast sótt á auðlindir hennar, svo miskunnarlaust eru náttúrulögmál brotin að mannkynið er að kafna úr mengun. Er ekki mál að linni?“ sagði Aðalheiður.

Eftir tímamótin 1975 var kvennafrídagur næst 1985, svo 2005, 2010, 2016 og 2018. Og nú 2023, svo skiptin eru orðin alls sjö.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson