Þórdís Steinunn Einarsdóttir fæddist á Húsavík 14. júní 1943. Hún lést á Landspítalanum 17. október 2023.

Foreldrar hennar voru Sólveig Bergþóra Þorsteinsdóttir, f. 31. júlí 1915, d. 15. maí 1998, og Einar Methúsalem Jóhannesson, f. 21. júní 1913, d. 15. júlí 1990.

Alsystkini Þórdísar eru: Sædís Birna, f. 1938, d. 1940, Einar Georg, f. 1941, Þorsteinn, f. 1944, d. 2006, Jóhannes Geir, f. 1947, Baldur, f. 1948 og Þórhallur, f. 1953, d. 2016. Sammæðra er Hanna Sigríður Hofsdal Karlsdóttir, f. 1931, d. 2019.

Þórdís kynntist eiginmanni sínum, Birgi Magnússyni múrara, árið 1966 í Reykjavík. Þau giftust 12. ágúst 1967.

Börn þeirra eru: 1) Magnús, f. 20. júní 1967, eiginkona Erna Björk Jónsdóttir, þau eiga þrjú börn, Sturlu Frey, f. 1991, Birgi Braga, f. 1997, og Heiðrúnu Dís, f. 1999. 2) Einar, f. 10. júní 1968, eiginkona hans er Hjördís Rúnarsdóttir en þau eiga tvö börn, Rúnar Jón, f. 1994, sambýliskona hans er Alexandra Líf Benediktsdóttir og eiga þau tvö börn, Kristófer Tý, f. 2019, og Ísold Eiri, f. 2021, og Þórdísi Birgittu, f. 1998. 3) Birgir Þór, f. 3. júlí 1973, eiginkona hans er Dagbjört Jónasdóttir, hann á þrjú börn; með Láru Björgu Sigurbjarnardóttur Hlyn Daða, f. 1996, með Lindu Rögnu Marteinsdóttur Maríu Ellen, f. 2001, og Arnór Inga, f. 2004.

Þórdís ólst upp á Húsavík og tók landspróf þar. Hún flutti ung til Reykjavíkur og bjó hjá systur sinni, Hönnu, og aðstoðaði á heimili hennar. Hún vann síðar hjá Hafrannsóknastofnun við almenn skrifstofustörf. Hún hætti launaðri vinnu og gerðist heimavinnandi og sinnti uppeldisstörfum eftir að börnin voru orðin þrjú og þau Birgir höfðu byggt sér heimili í Fellahverfi. Þegar strákarnir voru orðnir stálpaðir settist hún á skólabekk í kvöldskóla Fjölbrautaskólans í Breiðholti og lauk þaðan verslunarprófi. Eftir það vann hún bókhaldsstörf, lengst af sem aðalbókari hjá Skrifstofu rannsóknastofnana atvinnuveganna. Eftir að þau Birgir luku störfum ferðuðust þau víða um Evrópu, dvöldu langdvölum í sumarhúsi sínu í Öndverðarnesi og spiluðu bridge í skipulögðu félagsstarfi eldri borgara. Þórdís var líka öflugur prjónari og naut fjölskyldan afrakstursins auk þess sem hún seldi lopapeysur í gegnum Handprjónasamband Íslands.

Útför Þórdísar fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 26. október 2023, klukkan 13.

Þegar við gaurarnir vildum stríða mömmu aðeins þá stundum gripum við til þess ráðs að segja að það væri rangnefni að kalla Húsavíkurfjallið fjall. Það væri full hátíðlegt fyrir þennan hól. Hún hlustaði nú ekkert á þessa vitleysu. Húsavíkurfjall væri fegurst fjalla og Húsavík fallegastur bæja að hennar mati. Húsavík hefur nú hlotið alþjóðaviðurkenningu sem einn af fegurstu bæjum í heimi svo hún átti svo sannarlega síðasta orðið í þeim rökræðum.

Og þó hún hafi átt heima fjarri Húsavík nánast alla ævi þá var það þangað sem hún leitaði. Við fórum oftar norður á meðan amma og Steini bróðir hennar voru á lífi en fyrir fjórum árum áttum við góða helgi á Húsavík þar sem við gátum heimsótt alla gömlu staðina. Brekkuna þar sem hún lék sér í hópi hinna brekkusniglanna þegar þau bjuggu í Hlíð. Bjarnahúsið sem nú er safnaðarheimili og hún benti okkur á gluggann á herberginu sínu undir súðinni. Höfnina þar sem mamma fótóbombaði hóp af amerískum túristum á leið í hvalaskoðunarferð. Botnsvatn og auðvitað Húsavíkurfjallið sjálft sem við keyrðum upp á og fengum frábært útsýni yfir Skjálfanda og Kinnarfjöllin. Allar sögurnar af fólkinu hennar á Húsavík, ömmu og afa, bræðrunum sem hún passaði sem börn, Geirdísi og Axel, mjólkinni sem helltist niður og var bætt af lyfsalanum sjálfum. Þetta var síðasta ferðin hennar norður. Ekki grunaði okkur það þá.

Reykjavík var staðurinn þar sem lífið átti sér stað. Þar kynntist hún pabba, átti okkur strákana, menntaði sig og starfaði. Æskuheimilið var í Breiðholtinu. Í Yrsufelli nánar tiltekið þar sem þau byggðu sér raðhús. Þar bjuggum við á sjöunda og áttunda áratugnum þegar átti ekki að vera búandi í Breiðholtinu fyrir ærlegt fólk ef eitthvað var að marka umtalið. Mömmu fannst neikvætt umtalið alltaf erfitt. En fyrir okkur strákana var þetta bara ævintýri. Alls staðar voru leikfélagar og vinahópurinn stór og er enn til staðar öllum þessum áratugum síðar. Og við köllum okkur uppalda Fellavillinga á hátíðisdögum. En það er meira til gamans því þannig enduðum við ekki í raun. Þó tilefnin hafi kannski verið ærin þá var grunnurinn sterkur. Baklandið til staðar og atlætið gott. Taumhaldið nægjanlegt en aldrei heftandi.

Hjá mömmu voru starfslok ekki það sama og að gera ekki neitt. Nú er ferðast í rútu um alla Evrópu. Búið í sumarbústaðnum allt sumarið. Það er líka hægt að spila bridge á daginn. Og það er líka hægt að prjóna tugi lopapeysa og selja og nota afraksturinn til að kaupa listaverk inn á heimilið. Núna eru það barnabörnin sem mamma vill hitta eða heyra sögur af. Já, og meira að segja barnabarnabörn. Lífið er yndislegt.

En skugginn læðist aftan að okkur svo lítið ber á. Þreyta og andþyngsli reyndust vera veikt hjarta sem ekki réð við verkefni sín lengur. Við það varð ekki ráðið þrátt fyrir frábæra umönnun á Landspítalanum. En mamma hélt um stýrið í sínu lífi allt til enda og í samráði við lækna skipulagði hún sitt skapadægur. Okkar verkefni núna er að skila öllum góðu minningunum áfram og gleðjast yfir lífi sem lifað var til góðs.

Magnús Birgisson.