List Meginverk sýningar Egils er ný útgáfa af myndheimi Ugh og Bõögár, sem hann hefur unnið með frá 2008.
List Meginverk sýningar Egils er ný útgáfa af myndheimi Ugh og Bõögár, sem hann hefur unnið með frá 2008. — Ljósmyndir/Hlynur Helgason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Listasafn Íslands Egill Sæbjörnsson og óendanlegir vinir alheimsins ★★★★· Egill Sæbjörnsson sýnir. Sýningarstjórn: Arnbjörg María Danielsen. Sýningin stendur til 25. febrúar 2024. Opið alla daga nema mánudaga frá kl. 10-17.

Myndlist

Hlynur Helgason

Þegar áhorfandi kemur inn í Listasafn Íslands þessa dagana er líklegt að honum þyki andrúmsloftið fremur sérkennilegt. Egill Sæbjörnsson hefur tekið sér bólfestu í þremur af fjórum meginsölum safnsins og breytt rýminu á áhrifaríkan hátt. Hér má ímynda sér draugaleg hellarými, formlegan skúlptúrgarð með eigið líf og sérkennilegt greni trölla þar sem allskonar ólíkum hlutum og listaverkum ægir saman.

Þótt ólík séu eiga öll verkin á sýningunni það sameiginlegt að vídeóvörpun skipar stóran sess í framsetningu þeirra. Egill býr til form og fleti sem hann varpar myndinni á og býr til sýndarheim með samruna hlutar og myndar.

Verk Egils eiga sér sterka skírskotun í verkum bandaríska vídeólistamannsins Tonys Ourslers, en hann vakti athygli á níunda áratug síðustu aldar með verkum þar sem vídeómynd af talandi andliti var varpað á einhverskonar leikbrúður sem búið var að sviðsetja í borgaralegu rými. Þessar brúður áttu í samræðum eða sögðu áhorfanda sögu sína, sem oftar en ekki var dramatísk og sjokkerandi.

Egill hefur unnið verk af þessum meiði allt frá upphafi þessarar aldar. Við fyrstu verkin notaði hann þrívíddarkvikunarforrit sem gerðu honum kleift að taka einfalda hluti og hleypa lífí í þá, gera raunverulega útlítandi teiknimynd sem varpað var á hlutina sjálfa. Verkin voru einfaldar sviðsetningar þar sem hlutirnir tókust á loft og hreyfðust til í léttum leik. Með tímanum þróaði Egill þessar hugmyndir og nýtti sér tækni sem gerði honum kleift að forrita myndgerðina. Þetta þýddi meiri vinnu við undirbúning en jafnframt einfaldari útfærslu. Nú hefur Egill haldið áfram að vinna með nýjustu meiða þessarar forritunar í formi gervigreindar sem þýðir að nú geta verkin þróast og vaxið á eigin forsendum og án þess að myndin endurtaki sig. Fyrir áhorfandann verður niðurstaðan trúlega sú sama en tæknin eykur möguleika listamannsins við framsetninguna.

Sýningin samanstendur af þremur aðskildum innsetningum eða verkaheildum sem sett hafa verið upp í þremur af meginsölum safnsins, auk tveggja minni verka á göngum þess.

„Eggið og hænan, við eða þau“ er verk sem var upphaflega sýnt 2011 og er nú sýnt í Listasafni Íslands í óbreyttri mynd. Verkið breytir salnum í einskonar hellisrými þar sem 49 „steinar“ úr pappamassa eru til sýnis. Vídeómyndum er varpað á hlutina, teiknimyndum sem eins og lífga þá við. Það lítur því út sem steinarnir séu í samræðum hver við annan og við okkur. Samræðurnar eru nokkuð háfleygar og trúlega má túlka samhengið sem kaldhæðnislega vísun til háfleygrar fræðilegrar umræðu. Efni verkanna, pappamassinn, er fólki kunnuglegt úr leik- og grunnskóla; þetta er ekki merkilegt efni heldur lágstemmt. Efnisvalið ítrekar því þá hugmynd að verkið í heild sé til þess gert að draga niður háleitar hugmyndir um myndlistina.

Sömu hugmynda gætir einnig í verkinu „Sjálfskapandi skúlptúrar“, sem var upphaflega gert 2014 og endurgert með nýrri tækni á þessu ári. Verkið samanstendur af þremur dæmigerðum abstrakt gipsskúlptúrum sem skera sig úr í myrku rými salarins. Vídeómyndum er varpað á fletina þannig að ásýnd þeirra breytist. Það sem í reynd er flatt stykki verður stundum upphleypt og stuttu síðar myndast á sama stað einhvers konar lægð. Þessi umbreyting kvikmyndarinnar gerist á sjálfvirkan hátt út frá fyrirframgefnum forsendum. Myndin er því aldrei eins vegna þess að forritið skapar hana sífellt á nýjan hátt. Því eru þó greinilega settar skorður hvernig myndin birtist og þess vegna heldur formheild verksins sér. Hér er verið að sneiða að hátíðleika listarinnar. Á sama tíma er verkið kátlegur leikur með galdur miðilsins.

Meginverk sýningarinnar er ný útgáfa af myndheimi Ugh og Bõögár, verkefni sem Egill hóf vinnu við árið 2008 og sem birtist í nýrri útgáfu á núverandi sýningu. Þetta verkefni átti sína stærstu birtingarmynd í sýningu Egils í íslenska skálanum í Feneyjum árið 2017.

Í þessari útgáfu eru tröllin tvö þungamiðja sýningarinnar, í tölvugerðri gervigreindarútgáfu á tveim stórum flatskjám í miðju rýminu. Hér fáum við að sjá tröllvaxna farsíma þessara persóna sem tala saman, fyrir tilstilli gervigreindar, í mynd um daginn og veginn. Í kringum skjáina er komið fyrir allskonar tröllamunum, að mestu grófformuðum gullskartgripum, góssi tröllanna. Á veggjum rýmisins eru ýmsir munir, svo sem gagnvirkir skjáir þar sem áhorfendur geta breyst í tröll, fyrri útgáfur hugmyndarinnar um tröllin Ugh og Bõögár auk safns af verkum annarra listamanna þar sem tröll hafa verið viðfangsefnið.

Það er áhugavert að bera þá útgáfu sem Egill sýndi í Feneyjum saman við þessa. Verkið í Feneyjum var í grunninn kaldhæðnisleg tjáning um áhrifavalda listheimsins, safn- og sýningarstjóra sem vildu gína yfir öllu. Núverandi samtal er öllu fremur tilvísun í fáránleika tækninnar og bendir okkur á að mönnum hættir til að leggja afurðir gervigreindar og mannlegan sköpunarkraft að jöfnu.