Benedikt Rúnar Benediktsson fæddist 13. júlí 1948 í Keflavík. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 10. október 2023 eftir stutt en alvarleg veikindi.

Foreldrar hans voru Benedikt Jónsson Þórarinsson, yfirlögregluþjónn í Keflavík, f. 25. janúar 1921 í Keflavík, d. 1983, og Lilja Jóhannesdóttir, f. 8. ágúst 1923 í Hafnarfirði, d. 1989. Systkini Rúnars eru Þorvaldur Benediktsson, f. 1943, d. 2015. Samfeðra systkini eru Kristín Benediktsdóttir, f. 1957, d. 2002, Sigrún I. Benediktsdóttir, f. 1959, og Guðmundur Guðmundsson, f. 1962. Sammæðra bróðir er Kristleifur Lárusson, f. 1959.

Foreldrar Rúnars skildu og kvæntist Benedikt faðir hans árið 1954 Sigríði Guðmundsdóttur, f. 3. janúar 1926 í Reykjavík, d. 2013. Sigríður átti tvö börn, sem eru uppeldissystkini Rúnars, þau Margréti Ragnarsdóttur, f. 1946, og Guðmund Örn Ragnarsson, f. 1949.

Rúnar kvæntist Hrefnu Sigurðardóttur, f. 21. júlí 1949 í Keflavík. Foreldrar Hrefnu voru Erna Sverrisdóttir, f. 2. ágúst 1929 í Grindavík, d. 1999, og Sigurður Halldórsson, f. 14. desember 1926 á Gaddstöðum við Hellu, d. 2011. Hrefna og Rúnar voru ung þegar þau hófu sambúð og áttu saman 60 hamingjurík ár. Börn þeirra eru: Sigrún, f. 7. september 1964 í Keflavík, Elínrós Þóra, f. 25. janúar 1971 í Keflavík, og Sigurður Arnar, f. 28. apríl 1980 í Keflavík.

Rúnar gekk hefðbundinn skólaveg í Keflavík, Barnaskóla og Gagnfræðaskóla Keflavíkur. Hann lauk síðan iðnnámi frá Iðnskóla Keflavíkur sem húsasmiður. Rúnar vann við húsasmíðar sjálfstætt og hjá verktökum. Hann rak smíðaverkstæði um tíma. Rúnar fékkst einnig við ýmis önnur störf. Var í slökkviliði Keflavíkurflugvallar og starfsmaður varnarliðsins við ýmsar framkvæmdir og eftirlit með framkvæmdum þess. Um tíma með verkstæði í bílamálun og síðast var hann með umsvifamikið ræstingafyrirtæki á Suðurnesjum.

Rúnar og Hrefna hófu búskap í húsi foreldra Hrefna og hófu að byggja sér hús í Keflavík. Hús sem þau seldu, en fluttu síðar í eigið húsnæði og bjuggu alla tíð í Keflavík þar til fyrir nokkrum árum að þau fluttu í þægilegt hús í Stekkjargötu 29 í Innri-Njarðvík.

Þau komu sér upp myndarlegu sumarhúsi og unaðsreit í landi Gaddstaða við Hellu þar sem þau og þeirra fjölskylda dvöldu oft. Ræktuðu þar landið, sem nú er skógi vaxið. Hann var áhugasamur lax- og silungsveiðimaður, sem hann stundaði mörg sumur. Þá voru þau hjón dugleg að ferðast um eigið land, ekki síst um hálendi og óbyggðir. Svo og til annarra landa.

Rúnar var ákveðinn, úrræðagóður og réttsýnn. Hann var virkur félagi í félagasamtökunum Þroskahjálp á Suðurnesjum, lengi í stjórn Þroskahjálpar. Hann gekk ungur í Frímúrararegluna á Íslandi og var einn af stofnendum stúkunnar Sindra í Keflavík. Hann var alla tíð virkur og áhugasamur um störf reglunnar. Gegndi þar ýmsum embættis- og ábyrgðarstörfum.

Útför Rúnars fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 26. október 2023, klukkan 13.00.

Elsku bróðir, þá er komið að kveðjustund.

Það er ekki hægt að tala um Rúnar án þess að nefna Hrefnu á nafn, enda lífsförunautar frá unga aldri.

Þau kynntust 15 til 16 ára gömul og hafa fylgst að í gegnum lífið með öllum þeim áskorunum sem því fylgir. Og þrátt fyrir að hafa fengið stærri skammt en margir aðrir tókust þau á við það saman af kærleika og elju.

Rúnar var stóri bróðir minn og þau hjón reyndust mér alltaf svo vel. Þau voru ávallt til staðar að halda í höndina á mér ef þurfti. Við töluðum um allt milli himins og jarðar, stundum erfiða hluti en oftast var nú gaman hjá okkur.

Þau voru einstaklega hjálpsöm og reyndust svo mörgum vel en montuðu sig aldrei af því, heldur fóru hljótt með gæsku sína sem svo margir fengu að njóta. Ég fór mikið til þeirra í sumarhúsið og var ávallt svo velkomin. Þar var þeirra unaðsreitur sem þau byggðu upp. Þau ræktuðu landið úr sandi í fallegan skóg og auðvitað smíðaði Rúnar húsin þeirra sem báru hans vandaða handbragð. Þau hjón voru svo dugleg til vinnu að stundum fannst mér nóg um en aldrei var gefist upp og að því dáist ég.

Elsku Hrefna mín, þótt það séu öðruvísi tímar fram undan hjá þér Sigrúnu, Ellu og Sigga þá erum við hér til staðar og sendum ykkur ljós og hlýju.

Við munum fagna lífinu og halda minningu hans, kærleik og hjálpsemi á loft.

Megi elskulegur bróðir minn hvíla í friði, ég er viss um að hann fylgist með okkur áfram.

Þín systir,

Inga Sigrún
Benediktsdóttir.

„Hann Rúnar bróðir þinn er dáinn.“ Það var sárt að heyra þessi tíðindi. Hann lést á Landspítalanum eftir stutt en alvarleg veikindi 10. október sl.

Við Rúnar kynntumst fimm og sex ára gamlir. Ég var fimm og hann sex ára. Foreldrar okkar voru bæði fráskilin og hvort með sín tvö börn þegar þau stofnuðu til nýrrar fjölskyldu. Við þau tímamót var mamma með mig fimm ára og systur mína þrem árum eldri. Pabbi var með Rúnar sex ára og bróður fimm árum eldri. Fjölskyldan bjó sér heimili á Hringbraut 65 í Keflavík. Við Rúnar vorum þar kynntir og tilkynnt að nú værum við bræður. Við áttum að deila herbergi og sofa í sama rúmi. Við vorum missáttir við þessar ráðagerðir foreldranna og leiddi það til missættis okkar í milli. Oft rifist og stundum slegist. Síðustu átökin okkar í milli enduðu með sigri eða tapi beggja. Eins og okkur var sagt seinna þá grenjuðum við báðir hástöfum við leikslok. Við vorum báðir sigurvegarar í þessu síðasta uppgjöri okkar því frá þeirri stundu vorum við bræður, bárum virðingu hvor fyrir öðrum og höfum gert síðan. Staðið saman í leik og starfi. Og jafnan talað um annaðhvort Rúnar bróður eða Guðmund bróður.

Seinna bættust við tvær systur, dætur foreldra okkar. Það var því átta manna fjölskylda sem ólst upp í Keflavík. Fyrst á Hringbraut og seinna á Heiðarbrún. Lífið var uppfullt af ævintýrum uppi á heiði eða niðri á bryggju í Keflavík á árum æskunnar. Keflavík var dæmigerður útgerðarbær á þeim tíma. Bryggjan hjarta athafnalífs og mörg fiskverkunarhús starfrækt.

Rúnar var ungur þegar hann kynntist Hrefnu sinni og stofnaði til fjölskyldu með henni. Þau eignuðust sitt fyrsta barn, Sigrúnu, 1964. Ég var þá að feta mig á braut unglingsins í Ungó og Stapa. Rúnar og Hrefna áttu sitt fyrsta heimili í sama húsi og foreldrar Hrefnu bjuggu í. Seinna fluttu þau í sitt eigið hús við Sunnubraut og þangað var maður alltaf velkominn. Þau byggðu sér snemma sumarhús á Gaddstöðum við Hellu og þangað kom ég með mína fjölskyldu í heimsókn oftar en til Keflavíkur, nema á Ljósanótt. Mörg fyrstu ár Ljósanætur buðu Hrefna og Rúnar okkur systkinum til kvöldverðar að lokinni dagskránni og jafnan gistingu í kjölfarið á rausnarlegu heimili þeirra. Þá héldum við systkinin þeim sið lengi eftir að mamma dó að hittast á jóladag til skiptis á heimili hvort annars og elda og snæða saman hangikjöt. Jafnan var gott að koma til Hrefnu og Rúnars á þessum hátíðisdegi.

Rúnar lauk námi sem húsasmiður. Vann við það í nokkur ár. Fékkst einnig við önnur störf og fannst yfirleitt best að vera sjálfstæður og eigin herra. Síðast rak hann umsvifamikið ræstingafyrirtæki á Suðurnesjum. Rúnar var ungur þegar hann gekk til liðs við frímúrararegluna og var einn af stofnfélögum stúku frímúrara í Keflavík þar sem pabbi okkar var í forystu.

Við andlát Rúnars rifjast upp margar ljúfar minningar af okkar samveru og við kveðjum hann með söknuði. Mestur er þó söknuður Hrefnu, en þau Rúnar voru saman í sextíu ár. Við Ólína og mín fjölskylda sendum Hrefnu, Sigrúnu, Elínrós og Sigga okkar innilegustu samúðarkveðjur á sorgarstund. Megi góður Guð varðveita minningu Rúnars bróður.

Guðmundur Örn.