Unnur Ólafsdóttir fæddist á Reykhólum, Reykhólahreppi, 18. mars 1934. Hún lést í Sóltúni 1 í Reykjavík 7. október 2023.

Foreldrar Unnar voru Ólafur Ólafsson frá Litluhlíð í Barðastrandarhreppi, f. 7.6. 1895, d. 31.12. 1954, og Guðrún Þórðardóttir frá Gufudal, Gufudalssókn, f. 15.10. 1897, d. 20.5. 1987.

Alsystkin Unnar: Víglundur, Jónfríður, Tryggvi, Hlíf, Sæmundur Jón, Ásta og Ólafur. Samfeðra systkin: Guðbjörg, Sæmundur Jón og Halldór Ólafur, sem lifir systur sína. Sammæðra systkin Unnar: Guðrún, Þuríður, Tryggvi Halldór og Elín Margrét, sem lifir systur sína.

Unnur giftist Jóni Theodóri Hanssyni Meyvantssyni árið 1956 og átti með honum þrjá syni, þá Víglund Rúnar, f. 1953, maki Rannveig Christensen; Kristján Meyvant, f. 1955, maki Ásta Baldursdóttir; og Gunnar Óla, f. 1957, d. 2023. Eftirlifandi maki Gunnars er Ólöf Guðmundsdóttir.

Seinni maður Unnar var Sveinn Auðunn Kristvinsson og giftust þau árið 1962. Með Sveini átti Unnur einnig þrjá syni, þá Kristvin Jóhannes, f. 1959, maki Alma Capul Avila; Sigurð Þór, f. 1963, d. 2004; og Jón Tryggva, f. 1966, maki Jacline Andrea.

Unnur lætur eftir sig 16 barnabörn, 22 barnabarnabörn og fjögur barnabarnabarnabörn.

Útför Unnar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 26. október 2023, og hefst athöfnin klukkan 13.

Í hjarta mínu er lítið ljós,

sem logar svo skært og rótt.

Í gegnum torleiði tíma og rúms

það tindrar þar hverja nótt.

Það ljósið kveiktir þú, móðir mín,

af mildi, sem hljóðlát var.

Það hefur lifað í öll þessi ár,

þótt annað slokknaði þar.

Og þó þú sért horfin héðan burt

og hönd þín sé dauðakyrr,

í ljósi þessu er líf þitt geymt,

– það logar þar eins og fyrr.

Í skini þess sífellt sé ég þig

þá sömu og þú forðum varst,

er eins og ljósið hvern lífsins kross

með ljúfu geði þú barst.

Af fátækt þinni þú gafst það glöð,

– þess geislar vermdu mig strax

og fátækt minni það litla ljós

mun lýsa til hinsta dags.

(Jóhannes úr Kötlum)

Takk fyrir allt elsku móðir!

Þinn elskandi sonur,

Jón Tryggvi.

Elsku amma mín.

Maður getur ekki verið annað en þakklátur fyrir það að vera næstum skriðinn á fimmtugsaldurinn og eiga ennþá ömmu á lífi, hversu magnað er það? En það breytir því ekki hvað það var erfitt að fá símtalið frá pabba að láta mig vita að þú værir farin, ég sem var á leiðinni til þín, búin að vera hjá þér næstum upp á hvern dag í nokkrar vikur að vaka yfir þér. Við vissum í hvað stefndi, og held ég að þú hafir einnig vitað það. En hvað ég er þakklát fyrir það að pabbi og Rannveig voru hjá þér þegar þú fórst.

Síðasta skiptið sem ég kvaddi þig knúsaði ég þig eins og alltaf, sagðist elska þig og ég fann smá bank á bakið þar sem höndin þín var, þarna varst þú að segja mér að þú elskaðir mig líka og allt væri í lagi.

En ég hugga mig við það að það hefur verið aldeilis móttökusveitin sem tók á móti þér, Jón afi er sennilega búinn að baka pönnukökurnar fyrir þig, Svenni afi, Siggi frændi og Gunni frændi strákarnir þínir, og ég treysti á það að mamma hafi tekið vel á móti þér og viltu knúsa hana frá mér.

Alltaf finnst mér gaman að segja ástarsöguna ykkar Jóns afa eins og ég hef heyrt hana.

Þú og Jón afi byrjuðuð að búa snemma á ykkar yngri árum, þið giftuð ykkur, áttuð pabba og tvo aðra stráka. Leiðir ykkar skildi og þú hittir Svenna afa, giftist honum og eignuðust þið þrjá stráka saman. Þegar Svenni afi deyr þá liggja leiðir ykkar Jóns afa aftur saman og áttuð þið tæp 14 góð ár saman þangað til hann lést 1998. Ég vil halda að það hafi verið þín hamingjuríkustu ár.

Síðustu fjögur ár bjóst þú á Sóltúni, mikið var ég glöð þegar sá dagur kom og við þurftum ekki að hafa áhyggjur af þér á Vitatorgi þar sem þú varst farin að verða aðeins of veik til þess að búa ein.

Nokkrum mánuðum eftir að þú fluttir í Sóltún skall covid á, það var erfiður tími að geta ekki heimsótt þig í nokkra mánuði, en ég er svo þakklát fyrir það að þú varst komin í öruggt skjól. Við fjölskyldan komum til þín fyrir utan Sóltúnið og sungum fyrir þig og aðra heimilisbúa og var það æðislegt að hitta þig eftir svona langan tíma. Við gátum síðan talað við þig aðeins í gegnum iPad og botnaðir þú ekkert í hvernig þú gast talað við okkur í gegnum svona tæki!

Ég á eftir að sakna þess ansi mikið að geta ekki komið við á Sóltúni, fengið mér kaffibolla með þér og talað um heima og geima. Alltaf hafðir þú áhuga á hvað ég og mínir höfðum verið að bardúsa, spyrja mig hvort ég hefði ekki farið norður nýlega eða í eitthvert ferðalag.

Ég elska þig og mun sakna þín meira en orð geta lýst. Ég bið að heilsa þeim sem ég elska þarna uppi … þangað til síðar.

Þín

Hilda.

Amma mín, yndisbesta.

Það er komið að kveðjustund. Ég mun ávallt minnast tíma okkar saman, hvort sem það var á Sóltúni, í Álftamýrinni eða hvar sem þú hefur kallað heima. Ævi þín hefur verið þyrnum stráð frá fæðingu þinni svo gott sem. Þú ert ein af 12 systkina hópi hjá langömmu Guðrúnu og áttir að auki þrjú systkini pabba þíns megin, pabba þíns sem þú hittir ekki fyrr en undir fermingu sagðir þú mér, á Vífilsstöðum þar sem hann varði bróðurparti ævi sinnar með berkla. Það hefur verið átakanlegt fyrir barn að vita ekki um pabba sinn. Þú spurðir langömmu ítrekað ef karlmaður kom heim á bæ hvort sá hinn sami væri pabbi þinn, langömmu til mikillar armæðu stundum.

Þú misstir bróður þinn hann Víglund á sviplegan hátt, rétt fyrir 16 ára afmæli þitt, og lifðir áfram í mikilli sorg með langömmu sem náði sér aldrei af sonarmissinum og heimilislífið bar þess ávallt merki.

Þú fékkst að finna fyrir missi á þinni löngu ævi. Í tvígang varðst þú ekkja og tveir af sex sonum féllu frá, langt um aldur fram.

Mér varð oft hugsað til þín ef eitthvað bjátaði á í mínu lífi og ég fann fyrir þeim styrk sem þú varst þekktust fyrir. Maður var nú ekki að viðra það sem manni fannst sjálfum vera erfitt og ómögulegt, en það var líka bara ekkert endilega þörf á því, manni leið alltaf betur eftir heimsókn til þín, þú sást alltaf spaugilegu hliðarnar á flestu.

Eitt sem manni var mest umhugað um var að elda góðan mat handa þér eða baka góða köku. Það var ekki erfitt en mér brást heldur betur bogalistin þegar ég bar fram kjötsúpu á borð fyrir þig hér um árið. Ég viðurkenni að þær bragðast eins misjafnlega og ég hef eldað þær oft í gegnum tíðina, en þarna fannst mér mér hafa tekist vel til og beið í ofvæni eftir því hvað þér fyndist um matargerðina. Eg hef nú smakkað þær betri, kom þá frá þér. Hreinskilin með eindæmum.

Eitt sem olli þér áhyggjum þó var hvort Árni minn fengi nú örugglega að borða ef ég var til dæmis hjá þér á matmálstíma. Ef ég sagði hann vera heima að elda fyrir okkur þá spurðir þú: kann hann það?

Tíminn þinn á Sóltúni varð mun lengri en við þorðum að vona. Þú varst lasin lítil kona þegar þú fluttir þangað í október 2019. En á nokkrum vikum varstu orðin hress sem aldrei fyrr og það var augljóst að þér leið vel á Sóltúni. Þó kom að því að minnisglöpin voru farin að gera vart við sig. Oft þegar ég kom í heimsókn þá spurðir þú mig hvort ég væri að koma að sækja þig. Eða þú spurðir mig hvort við hefðum frétt að þú ættir heima þarna. Þú spurðir mig hvort ég hefði eitthvað heyrt í kallinum þínum, og ef ég spurði: Í hvorum þeirra? Svaraðir þú: Æ, þar fór í verra. Þess á milli talaðir þú um þá eins og þú hefðir hitt þá fyrir stundu.

Elsku amma mín, ég bið fyrir kveðju til þeirra sem horfnir eru og njóttu þín í þeim stóra hópi ástvina sem þú hefur nú fundið á ný. Þú knúsar mömmu frá mér. Þangað til næst.

Þín

Jórunn Fregn.