Músíkalskur „Allar hendingar hjá Lu voru mjög músíkalskar og Hanus náði upp dýnamík sem sjaldan heyrist hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands í Mozart.“
Músíkalskur „Allar hendingar hjá Lu voru mjög músíkalskar og Hanus náði upp dýnamík sem sjaldan heyrist hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands í Mozart.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Harpa Eric Lu leikur Mozart Martinů ★★★★· Mozart og Dvořák ★★★★★ Tónlist: Bohuslav Martinů (Tvíkonsert fyrir tvær strengjasveitir, píanó og pákur), Wolfgang Amadeus Mozart (Píanókonsert nr. 27), Antonín Dvořák (Sinfónía nr. 8). Eric Lu (einleikari). Sinfóníuhljómsveit Íslands. Konsertmeistari: Vera Panitch. Hljómsveitarstjóri: Tomáš Hanus. Tónleikar í Eldborg Hörpu fimmtudaginn 19. október 2023.

Tónlist

Magnús Lyngdal

Magnússon

Það gustaði um tónleikagesti í Hörpu fimmtudagskvöldið 19. október síðastliðinn. Það var ekki bara suðvestanáttin sem geisaði, heldur hófust tónleikarnir á myrkasta stað 20. aldarinnar, svo að segja kvöldið fyrir seinna stríð. Bohuslav Martinu (1890-1959) lauk einmitt við tvíkonsert fyrir tvær strengjasveitir, píanó og pákur sama dag og samkomulagið milli Bretlands, Frakklands, Ítalíu og Þýskalands var undirritað í München hinn 30. september 1938. Við komuna aftur til Bretlands veifaði forsætisráðherra Breta, Neville Chamberlain, pappírssnuddunni og kallaði samkomulagið „frið á vorum tímum“ en við vitum hvernig fór. Hitler réðist inn í Pólland tæpu ári síðar og heimsstyrjöld braust út. Þessum myrkustu augnablikum mannkynssögunnar leitaðist Martinu við að lýsa í verki sínu og í samræmi við „þunga aðstæðnanna varpar hann öllu farginu yfir á áhorfendur til að lýsa sársaukanum á nánast áþreifanlegan hátt“, eins og hljómsveitarstjóri kvöldsins, Tomáš Hanus, lýsti sjálfur í efnisskránni.

Sinfóníuhljómsveit Íslands var að leika þetta verk Martinus í fyrsta skipti. Einhverra hluta vegna hafa verk hans ekki hljómað mikið hér á landi, en hljóðheimur hans er að mörgu leyti einstakur. Martinu samdi til að mynda sex sinfóníur og eru þær merkur minnisvarði um stíl þessa tékkneska tónskálds sem var undir miklum áhrifum af nýklassískum stíl. Innkoman hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands var giska áhrifamikil undir öruggu slagi Hanus og í heildina má segja að verkið (sem er í þremur þáttum) hafi verið vel flutt. Hrynjandin var flott en kannski bar einna helst á ónákvæmni í intónasjón á háa tónsviðinu í 1. fiðlu og spilamennskan var ekki alltaf hrein. Aftur á móti náði Hanus upp mikilli stemningu í verkinu sem skilaði sér vel til áhorfenda. Þetta átti kannski ekki hvað síst við undir lok verksins. Liam Kaplan (píanó) og Soraya Nayyar (pákur) áttu eftirminnilegt kvöld.

Eftir langt hlé þar sem uppstillingunni á sviðinu var breytt steig kínversk-bandaríski píanistinn Eric Lu á svið. Hann vann sér það til frægðar að bera sigur úr býtum í Leeds-píanókeppninni árið 2018, þá einungis tvítugur að aldri. Tónninn hans var einfaldlega rosalegur, mjúkur en barst þó vel og það var mikil dýnamík í spilamennskunni. Þannig má til að mynda segja að hann hafi nánast „sungið“ annan þáttinn með hljóðfærinu og meðleikur hljómsveitarinnar var nærgætinn og næmur og algjör samhljómur á milli einleikara og hljómsveitarinnar. Jafnvægið var þannig eins og best verður á kosið og skrifast það ekki hvað síst á hljómsveitarstjóra kvöldsins, Tomáš Hanus. Allar hendingar hjá Lu voru mjög músíkalskar og Hanus náði upp dýnamík sem sjaldan heyrist hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands í Mozart.

Píanókonsert nr. 27 eftir Wolfgang Amadeus Mozart (1756-1791) er síðastur slíkra konserta sem tónskáldið samdi og hann er sjaldheyrður á Íslandi. Þannig hefur hann aðeins tvisvar sinnum áður verið á efnisskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands, síðast árið 1999. Þetta er gullfallegt verk sem Lu túlkaði af næmni og smekkleika. Aukalagið, vals í cís-moll eftir Chopin, var svo rúsínan í pylsuendanum.

Eftir hlé var hins vegar á dagskrá verk sem Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur leikið margoft: Sinfónía nr. 8 í G-dúr eftir Antonín Dvorák (1841-1904). Af níu sinfóníum tónskáldsins er sú áttunda kannski sú lýrískasta, samin árið 1889 og hefst á gullfallegu stefi (í g-moll). Tempóið hjá Hanus var gangandi en inn á milli leyfði hann sér að draga seiminn og móta þannig hendingar af smekkvísi og nærgætni. Ég tók líka eftir því að bæði hann og hljómsveitin brostu mikið meðan á flutningi stóð og það smitaðist yfir í túlkunina. Fyrsta flauta, Astrid Bjelland, átti stórleik og það sama má segja um alla tréblásara sem heyrðist vel í (að minnsta kosti þar sem ég sat). Það getur verið býsna snúið að gæta jafnvægis milli hljóðfærahópa í Elborgarsalnum, en Hanus var með þetta á hreinu í túlkun sinni.
Annar kaflinn var býsna hægur en þó aldrei á kostnað heildarinnar sem Hanus mótaði einstaklega vel og það sama má segja um þokkafullan þriðja þáttinn. Hann leiðir svo beint yfir í einradda lúðrakall sem þeir Einar Jónsson og Guðmundur Hafsteinsson léku prýðilega. Þar sleppti Hanus beislinu fram af hljómsveitinni og leyfði henni virkilega að „spila út“. Hornin, sem Lisa Cooper leiddi, voru glæsileg og það sama má raunar segja um samhentan leik hljómsveitarinnar allrar.

Þetta voru á heildina glæsilegir tónleikar og vel leiknir. Hér skipti máli að um sprotann hélt hljómsveitarstjóri sem kunni sitt fag og hljómsveitin bar greinilega virðingu fyrir honum. Ef ég ætti að bæta einhverju við þá er það vinsamleg ábending til verkefnavalsnefndar Sinfóníuhljómsveitar Íslands að bjóða Tomáši Hanus sem fyrst aftur.
Svo að lokum ein ábending til Hörpu: Það er með öllu ólíðandi að hleypa þeim sem mæta of seint inn í salinn eftir að tónleikar hefjast. Best er að bíða eftir að fyrsta verkinu á efnisskránni sé lokið áður en óstundvísu fólki er leyft að ganga til sæta sinna; annað truflar þá tónleikagesti sem mæta tímanlega.