60 ára Hörður fæddist á fyrsta vetrardegi árið 1963, eða þann 26. október. Fyrstu árin bjó hann í Reykjadal í Hrunamannahreppi en fluttist síðan með foreldrum sínum á Flúðir. Þar byggðu þau hús sem fékk nafnið Straumur og var hans æskuheimili alveg fram á fullorðinsár

60 ára Hörður fæddist á fyrsta vetrardegi árið 1963, eða þann 26. október. Fyrstu árin bjó hann í Reykjadal í Hrunamannahreppi en fluttist síðan með foreldrum sínum á Flúðir. Þar byggðu þau hús sem fékk nafnið Straumur og var hans æskuheimili alveg fram á fullorðinsár. Hann fluttist til Reykjavíkur þegar hann hóf nám í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og bjó þar í nokkur ár og vann á tímabili í Traust eftir útskrift. Ræturnar toguðu þó hann á æskuslóðirnar og fluttist hann aftur á Flúðir með konu og börn árið 1989 og hefur búið þar síðan.

Hörður er menntaður vélvirki og rekur jarðvinnufyrirtækið Gröfutækni ásamt bróður sínum, Þórarni Inga Úlfarssyni. Þeir bræður tóku við fyrirtækinu af föður sínum, Úlfari Harðarsyni, árið 1994. Hann hefur lagt allt í uppbyggingu fyrirtækisins sem blómstar nú á seinni árum.

Ýmis áhugamál hafa fengið örlítið pláss í annríkinu hjá Herði og má þá sérstaklega nefna ýmsar íþróttir eins og blak, golf og útivist. Eftir fertugt byrjaði hann í hestamennsku og á hún hug hans allan, sérstaklega á sumrin. Hann er nú orðinn hesthúsaeigandi og á nokkur hross. Í framtíðinni langar Hörð að geta minnkað við sig vinnu svo hann geti sinnt áhugamálunum meira. Hann kann best við sig í góðum félagsskap með vinum og fjölskyldu.

Í tilefni dagsins ætlar hann að vera á hóteli í Reykjavík og bjóða svo stórfjölskyldunni út að borða á laugardaginn.

Fjölskylda Eiginkona Harðar er Anna María Gunnarsdóttir, f. 1965 og starfar hún hjá Viss. Börn þeirra eru Elvar Harðarson, f. 1985, Aldís Þóra Harðardóttir, f. 1988 og Héðinn Harðarson, f. 1993. Einnig á Hörður fjórar afastelpur. Foreldrar Harðar: Guðríður Sólveig Þórarinsdóttir, f. 1945 og vann hún lengst af sem gjaldkeri í banka, og Úlfar Harðarson, f. 1945, d. 2019, vélvirki og frumkvöðull í dreifbýlishitaveitum.