Afmæli Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, fagnaði tímamótunum í afmælisveislu Sólvangs. Boðið var upp á ljúfar veitingar.
Afmæli Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, fagnaði tímamótunum í afmælisveislu Sólvangs. Boðið var upp á ljúfar veitingar. — Morgunblaðið/Hákon
Á hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði var því fagnað í gær að 70 ár eru liðin frá því það var tekið í notkun árið 1953. „Sólvangur á sérstakan stað í hugum og hjörtum okkar Hafnfirðinga enda margir sem eiga hlýjar og góðar minningar þaðan

Á hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði var því fagnað í gær að 70 ár eru liðin frá því það var tekið í notkun árið 1953. „Sólvangur á sérstakan stað í hugum og hjörtum okkar Hafnfirðinga enda margir sem eiga hlýjar og góðar minningar þaðan. Við erum ákaflega stolt af þeirri uppbyggingu og þróun í þjónustu sem átt hefur sér stað á Sólvangssvæðinu síðustu árin m.a. í samstarfi við ríkið og Sóltún öldrunarþjónustu. Á Sólvangi er nú risin þjónustumiðstöð fyrir eldra fólk á besta stað í bænum sem mun vaxa og eflast áfram í takt við tíðarandann hverju sinni,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði.

Fjölbreytt þjónusta

Sólvangur hefur haft mikilvægu hlutverki að gegna í gegnum tíðina. Við opnun hans 1953 voru meðal gesta forsetahjónin Ásgeir Ásgeirsson og Dóra Þórhallsdóttir en þau höfðu þá fyrr um daginn heilsað upp á vistmenn. „Við erum mjög stolt af þeirri fjölbreyttu þjónustu sem við höfum byggt upp á Sólvangi fyrir aldraða og erum einkar þakklát fyrir frábært samstarf við Hafnarfjarðarbæ sem hefur lagt mikinn metnað í að fegra umhverfi og húsnæði Sólvangs síðustu ár svo að skjólstæðingum okkar líði sem best hér og vonandi tekist að halda í þann góða anda sem hefur ávallt fylgt Sólvangi,“ segir Halla Thoroddsen, forstjóri Sóltúns heilbrigðisþjónustu. „Sólvangur á sérstakan stað í hjörtum margra Hafnfirðinga.“

Farsæl saga

Forsaga stofnunar Sólvangs spannar allt aftur til ársins 1929 þegar fyrst komst til umræðu að vöntun væri á elliheimili. Árið 1935 var því stofnað elliheimili og mötuneyti að Austurgötu 26 en fljótlega kom í ljós að húsið fullnægði ekki kröfum þess tíma og árið 1944 var því ákveðið að reisa skyldi nýtt elliheimili með sjúkra- og fæðingardeild. Um þær mundir var verið að leggja lokahönd á byggingu Bæjarbíós og var þá ákveðið að allur ágóði af hagnaði bíósins myndi renna í nýbyggingu elliheimilisins. Síðla árs 1946 hófst svo smíði Sólvangs eftir teikningum Einars Erlendssonar byggingarmeistara, fyrir hönd húsameistara ríkisins. hordur@mbl.is