Á Ingólfstorgi „Ég ætla að spila alls konar tónlist sem tengist hrekkjavökunni með einum eða öðrum hætti.“
Á Ingólfstorgi „Ég ætla að spila alls konar tónlist sem tengist hrekkjavökunni með einum eða öðrum hætti.“ — Morgunblaðið/Hákon Pálsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hef starfað sem tónlistarmaður og plötusnúður undanfarin 29 ár og mér finnst gaman að spila tónlist í opnum almennum rýmum þar sem fólk slakar á og nýtur lífsins, hvort sem það er í almenningsgörðum, á torgum eða öðrum stöðum,“ segir Jade…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég hef starfað sem tónlistarmaður og plötusnúður undanfarin 29 ár og mér finnst gaman að spila tónlist í opnum almennum rýmum þar sem fólk slakar á og nýtur lífsins, hvort sem það er í almenningsgörðum, á torgum eða öðrum stöðum,“ segir Jade Nanissáanah Maroon, bandarískur listamaður sem búsettur hefur verið meira og minna á Íslandi undanfarin átta ár, en hann ætlar að vera með pop-up-viðburð á hrekkjavökunni næstkomandi þriðjudag, 31. október, í Reykjavík.

„Nýlega keypti ég mér öflugan hátæknirafal sem gerir mér kleift að magna tónlistina nægilega til að spila nánast hvar sem er, en veðrið mun ráða staðsetningunni á þessum hrekkjavöku pop-up-viðburði, því ég hef ekki tjald núna. Ég verð annaðhvort á Klambratúni eða á Ingólfstorgi og ég ætla að spila tónlist sem tengist hrekkjavökunni með einum eða öðrum hætti, alls konar upprunalega tónlist, m.a. söng hinna dauðu, gelíska tónlist sem ég hef grafið upp og ýmislegt annað,“ segir Jade og bætir við að í sínum huga sé hrekkjavakan fyrst og fremst merkileg og áhugaverð í ljósi sögunnar.

„Hrekkjavakan býr yfir alls konar sögulegum tengingum af því hún byggist á menningu frá ýmsum löndum. Að halda þennan dag hátíðlegan er eldforn siður ættaður frá Keltum og hann hét upphaflega Samhain, en þá þakkaði fólk fyrir uppskeru sumarsins og meðal annars var logandi kertum komið fyrir í útskornum næpum. Fólk fór líka í búninga og setti á sig grímu og fór á milli húsa. Þegar Írar og Skotar fluttust búferlum til Ameríku á 19. öld fluttist hrekkjavakan með þeim, en í Bandaríkjunum tóku graskerin við af næpunum sem tákn fyrir hrekkjavöku Bandaríkjamanna. Veturinn var líka boðinn velkominn á þessum forna degi hjá Keltum, en margt af því sem tilheyrir hrekkjavöku kemur úr heiðni, úr írskri, gelískri fornri menningu,“ segir Jade og bætir við að í æðum Íslendinga renni einmitt gelískt blóð, í ljósi þess að sumir forfeður okkar séu írskir.

„Hluti af hrekkjavöku tengist líka hinni evrópsku kaþólsku á Ítalíu, Spáni og öðrum suðrænum löndum, þar sem reynt var að má út heiðnina, hina keltnesku menningu frumbyggja. Á ensku heitir hrekkjavaka Halloween, sem er annar ritháttur fyrir Hallowe’en. Hallowe’en er stytting á nafninu All Hallows’ Evening eða All Hallows’ Eve sem er kvöldið 31. október, vakan fyrir allraheilagramessu. Kirkjan flutti hátíðina allraheilagramessu til 1. nóvember til að reyna að taka yfir eldri heiðnar hátíðir eins og Samhain og veturnætur.“

Dagur hinna dauðu

Jade segir að tenging hans við hrekkjavöku á fullorðinsárum byggist á áhuga hans á því hvernig hún birtist.

„Til dæmis er ýmislegt í hrekkjavöku nútímans fengið að láni frá hinni eldfornu hefð í Mexíkó, að halda hátíð í kringum dag hinna dauðu, Día de los Muertos, en sú hátíð er einmitt á svipuðum tíma ársins, eða 1. og 2. nóvember. Þá minnast Mexíkóar látinna ástvina með gleði í hug, rifja upp góðar stundir með þeim og þá er dauðinn ekki tilefni sorgar, heldur er lífið sem var lifað tilefni fagnaðar. Þessi mexíkóska hátíð er rakin aftur til þess tíma þegar frumbyggjaþjóðir Mexíkó, á borð við Astekana, réðu ríkjum. Kvenkyns hauskúpa með hatt, La Calavera Catrina, sem sköpuð var af mexíkóska listamanninum José Guadalupe Posada á nítjándu öld, er eitt af því sem sótt er til dags hinna dauðu í nútímahrekkjavöku og birtist í hönskum og búningum með beinagrindarmunstri,“ segir Jade og bætir við að hrekkjavaka sé dagur þar sem hið dulræna sé í heiðri haft.

„Fyrir mig er hrekkjavakan meðal annars tækifæri til að heiðra þá sem hafa staðið mér nærri og eru dánir, meðal annars föður minn og nokkra góða vinir. En ég vil líka heiðra forðfeðurna, fólkið sem hefur rutt brautina fyrir fyrir okkur, meðal annars fyrir félagslegu réttlæti,“ segir Jade sem kemur frá Charleston í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum.

„Á þessum dögum sem við höldum þessar fornu hátíðir, hvort sem það er hrekkjavaka eða dagur hinna dauðu, þá eru það góðir dagar fyrir okkur manneskjurnar til að læra um mennskjuna í okkur, að hlúa að okkur sem manneskjum, flysja af okkur kapítalismann og hætta að líta á okkur sem vélar sem búa til peninga.“