Varastækkun Áformað er að setja reglugerð um útlitsbreytingar.
Varastækkun Áformað er að setja reglugerð um útlitsbreytingar. — Ljósmynd/Colourbox
Heilbrigðisráðuneytið hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda drög að reglugerð um takmarkanir á meðferðum til útlitsbreytinga án læknisfræðilegs tilgangs. Um er að ræða meðferðir sem fela í sér inndælingu á lyfjum eða lækningatækjum og innsetningu hluta undir húð

Heilbrigðisráðuneytið hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda drög að reglugerð um takmarkanir á meðferðum til útlitsbreytinga án læknisfræðilegs tilgangs. Um er að ræða meðferðir sem fela í sér inndælingu á lyfjum eða lækningatækjum og innsetningu hluta undir húð. Tekið er fram að reglugerðin gildi ekki um húðflúrun eða húðgötun.

Ráðuneytið segir að með reglugerðardrögunum sé stefnt að því að takmarka heimildir til að veita tilteknar meðferðir til útlitsbreytinga sem eru án læknisfræðilegs tilgangs við tilteknar löggiltar heilbrigðisstéttir og eftir atvikum sérfræðinga innan þeirra, til að tryggja hagsmuni og öryggi sjúklinga.

Þá er kveðið á um skilyrði fyrir veitingu þjónustunnar, upplýsingaskyldu veitenda þjónustunnar, ákvæði um samþykki og afturköllun þess, ásamt ákvæði um bann við veitingu hættulegra meðferða. Þar að auki kveða reglugerðardrögin á um eftirlit landlæknis og Lyfjastofnunar, nauðsynlegar tryggingar þjónustuveitenda og viðurlög við brotum.

Tekið er fram að ávallt sé heimilt að neita sjúklingi um meðferð án ætlaðs læknisfræðilegs tilgangs og að óheimilt sé að veita meðferðir sem viðurkenndar rannsóknir hafi sýnt fram á, eða almennt sé viðurkennt, að feli í sér óhóflega áhættu fyrir sjúkling.