Sævarhöfði Svæðið við Elliðaárvog þar sem mengað jarðvegsefni verður geymt tímabundið. Það er talið heppilegt enda jarðvegurinn orðinn vel þjappaður.
Sævarhöfði Svæðið við Elliðaárvog þar sem mengað jarðvegsefni verður geymt tímabundið. Það er talið heppilegt enda jarðvegurinn orðinn vel þjappaður. — Morgunblaðið/sisi
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur fallist á beiðni skrifstofu framkvæmda og viðhalds hjá borginni um að mengað jarðvegsefni verði geymt tímabundið á lóð á Sævarhöfða við Elliðaárvog.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur fallist á beiðni skrifstofu framkvæmda og viðhalds hjá borginni um að mengað jarðvegsefni verði geymt tímabundið á lóð á Sævarhöfða við Elliðaárvog.

Fram kemur í greinargerð verkefnastjóra skipulagsfulltrúa að verkið feli í sér að 63.000 rúmmetrar af uppgröfnu, menguðu jarðvegsefni, sem er þó nógu gott til notkunar á atvinnusvæði, verði geymt á lóð nr. 6-10 við Sævarhöfða. Á lóðinni var um árabil starfsrækt malbikunarstöð og skyld starfsemi.

Jarðvegsefnið verður frá fyrirhuguðu byggingarsvæði við Ártúnshöfða, m.a. Eirhöfða/Eldshöfa, vegna framkvæmda nýrra gatna og bygginga. Í því felst að ekið verður með jarðveginn á lóðina og hann geymdur þar tímabundið þar til hann verður fluttur í nýtingu á stækkuðu atvinnusvæði á Esjumelum. Á þessu svæði á Ártúnshöfða var um árabil atvinnustarfsemi þar sem spilliefni af ýmsum toga voru meðhöndluð.

Fram kemur í greinargerðinni að verkefnið er framkvæmdaleyfisskylt, þar sem um er að ræða breytingu lands með jarðvegi svo sem efnislosun og landmótun. Framkvæmdin teljist umfangsmikil en muni ekki valda íbúum raski þar sem stór hluti framkvæmdasvæðis telst vera utan alfaraleiðar íbúa. Framkvæmdin muni auðvelda lagningu gatna og gerð bygginga þar sem ekki þarf að fara langt með jarðvegsefni til geymslu, auk þess sem það verður endurnýtt á nýju svæði þegar þar að kemur.

Stefnt er að því að hefja framkvæmdir á svæðinu til að uppfylla kröfur Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um leið og starfsleyfi fæst og starfsemi mun hefjast í framhaldi af því. Gert er ráð fyrir að geyma efnið á svæðinu í allt að þrjú ár.

„Framkvæmdin er ekki andstöðu við núverandi landnotkun þó hún samræmist ekki framtíðarnýtingu svæðis samanber gildandi aðalskipulag“ segir í greinargerð verkefnastjórans, og að þessi staðsetning er talin heppileg. Burðarhæf malarfylling er nú á öllu því svæði sem áætlað er til geymslu, mjög þjöppuð vegna áralangs álags jarðvinnutækja og efnislagera, s.s. steinefna og malbiks. Því er talin lítil hætta á sigi undirlags. Ofanvatn rennur í tjarnarkerfi sem var hannað til að stöðva fín setefni og mögulega olíumengun af götum eða lóðum á svæðinu.

Ekki er lagst gegn því að veitt verði framkvæmdaleyfi fyrir umræddri framkvæmd í við Sævarhöfða, er niðurstaða verkefnastjórans. Það sé ekki í samræmi við fyrirhugaða landnotkun svæðisins skv. gildandi aðalskipulagi en sé tímabundin ráðstöfun auk þess sem hún muni auðvelda framgang verkefna á þegar skipulögðu svæði við Ártúnshöfða.

Talið heppilegt svæði

Svæðið sé talið heppilegt fyrir þetta verkefni þar sem það hefur verið notað á þennan hátt í áratugi, jarðvegurinn orðinn mjög þjappaður og fráveitukerfi gerir ráð fyrir hugsanlegri mengun frá svæðinu.

Tryggja skuli að vinnusvæði sé snyrtilegt vegna viðkvæmrar staðsetningar þess við árósa Elliðaár.

Á minnisblaði sem lagt var fram með umsókninni er jarðvegssvæðið á Ártúnshöfða flokkað með tilliti til jarðvegsmengunar. Á stærsta hluti svæðisins er jarðvegur talinn hæfur til notkunar á atvinnusvæði. Því næst eru reitir þar sem jarðvegur er minnst mengaður og talinn hæfur fyrir íbúðabyggð. Loks eru sjö minni svæði, þar sem mengunarefni í jarðvegi hafa mælst yfir hámarksviðmiðum.

Í maí á þessu ári bauð Reykjavíkurborg út vekið „Ártúnshöfði-svæði 1, gatnagerð og lagnir.“ Fimm tilboð bárust. Það lægsta var frá Háfelli ehf./Hálsafelli ehf., tæpar 1.244 milljónir króna. Var það 80% af kostnaðaráætlun sem hljóðaði upp á tæpar 1.545 milljónir. Gengið var að tilboði lægstbjóðanda. Þá var samið við Hnit verkfræðistofu að hafa eftirlit með verkinu en stofan bauð lægst í útboði.